Norðmenn, Evrópusambandið og Færeyingar, hafa nú komist að samkomulagi um makrílveiðar. Samningurinn gildir í fimm ár. Samningurinn nú gerir ráð fyrir 1047 þúsund tonna afla þessara ríkja, sem er 18% yfir heildarveiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES).
Þá á eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Grænlendinga og Rússa. Ljóst er að heildarveiðin getur samkvæmt þessu farið meira en 50% fram úr vísindalegri ráðgjöf ICES en þeir ráðlögðu 890 þúsund tonn.
Hafna sjálfbærum veiðum
Samningsaðilar eru með þessu að hafna algerlega sjálfbærum veiðum á stofninum og markmið þeirra virðist því vera að veiða makrílinn niður. Ákvörðunin er alger hneisa og ábyrgðarlaus gagnvart náttúrunni.
Evrópusambandið hefur gengið bak orða sinna um samning við okkur sl. haust sem var á grundvelli sjálfbærrar nýtingar og sýnir með óyggjandi hætti hvernig hugsunarháttur þeirra er gagnvart auðlindum hafsins.
Evrópusambandið ofveiðir nú 80% af sínum fiskistofnum og þar af eru 30% af stofnum þeirra að hruni komnir sökum ofveiði. Sambandið hefur lagt áherslu á að bæta fiskveiðistefnu sína sem einkenndist af ofveiði og brottkasti, en þessi ákvörðun grefur undan þeirri stefnu svo um munar, trúverðugleikinn er með öllu horfinn.
Reykfyllt bakherbergi
Norðmenn hafa leikið harðan leik allan tímann í málinu og því kom þessi ákvörðun þeirra ekki á óvart. En Evrópusambandið var búið að semja við Íslendinga um hlutdeild í makrílstofninum á grundvelli sjálfbærra veiða. Síðan færðist það nær Norðmönnum og samdi verulega umfram veiðráðgjöf. Þessi niðurstaða er því fullkomin svik af hálfu Evrópusambandsins, en kannski ekki við öðru að búast úr þeim herbúðum eftir fyrri hótanir þeirra um beitingu viðskiptaþvingana.
Nú ríður á að við stöndum saman í þessu mikla hagsmunamáli okkar Íslendinga og gagnrýnum harðlega þá ofveiði sem þessar þrjár þjóðir hyggjast efna til. Ísland stundar sjálfbærar veiðar.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
(Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. mars 2014.)
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.