Fram að þessu hefur lítil athygli beinst að þeim sjúkdómum sem leggjast sérstaklega á konur. Þær hafa mætt höfnun þegar þær leita til heilbrigðiskerfisins og gengið gegnum erfitt greiningarferli, en skortur er á almennri fræðslu um slíka sjúkdóma.
Einn þeirra sjúkdóma sem hrjá konur og hefur fengið litla athygli hingað til, er endómetríósa. Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur sem getur verið þungbær og afar sársaukafullur. Sjúkdómurinn leggst á einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama og er gjarnan kallaður „endó“ í daglegu tali, en einnig er notast við hugtakið legslímuflakk. Af þeim sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni. Sjúkdómurinn einkennist meðal annars af miklum sársauka við blæðingar, sársauka við egglos, verkjum í kviðarholi á milli blæðinga, verkjum við samfarir, þvaglát og hægðalosun. Auk þess gerir sjúkdómurinn það erfitt að verða barnshafandi og leiðir til erfiðleika á meðgöngu og við fæðingu. Á 20 ára tímabili greindust um 1.400 konur með sjúkdóminn á Íslandi. Því má reikna með að á hverjum tíma eigi hundruð ef ekki þúsundir kvenna í vanda vegna sjúkdómsins hér á landi, en hjá mörgum þeirra greinist sjúkdómurinn seint og ekki fyrr en óafturkræfar vefjaskemmdir hafa orðið. Í gegnum tíðina hafa verið uppi ranghugmyndir um endómetríósu og upplýsingagjöf villandi, enda er ekki auðvelt að útskýra sjúkdómsmyndina. Það hefur leitt til þess að minna er gert úr honum en ella. Ein ranghugmyndin er að verkir séu eðlilegur hluti af lífi konunnar eða að tíðaverkir séu fyrst og fremst sálrænir.
Jafnrétti í heilsu og heilbrigðisþjónustu
Núverandi stjórnvöld hafa lagt áherslu á jafnrétti landsmanna til heilbrigðisþjónustu eins og fram kemur í heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi á vordögum 2019. Það þarf líka að huga að heilbrigðisþjónustu út frá kynjum. Í skýrslu sem dr. Fannborg Salome Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræði við Háskóla Íslands, tók saman fyrir heilbrigðisráðherra á liðnu ári um heilsufar og heilbrigðisþjónustu út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum kemur fram að konur lifi mun fleiri ár við slæma heilsu en karlar þótt meðalævi þeirra sé lengri. Það segir kannski til um að nokkuð vanti upp á að konur hafi haft nægjanlega aðkomu að heilbrigðisþjónustu.
Beina þarf athygli að heilsu kvenna
Fyrir tveimur árum fékk ég samþykkta þingsályktun mína um að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu sjúklinga. Vorið 2020 kom út endurhæfingarstefna sem felur í sér að gera samantekt um endurhæfingarþjónustu sem til staðar er í landinu og benda á leiðir til úrbóta í þeim efnum. Í kjölfarið var unnin aðgerðaáætlun um endurhæfingu til fimm ára þar sem m.a. er lögð áhersla á endurhæfingu sjúklinga með vefjagigt. Í maí 2021 komu fram stöðuskýrsla og tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra um endurhæfingu fyrir fólk með langvinna verki. Í skýrslunni eru teknar saman tölulegar upplýsingar um fjölda þess fólks og þær meðferðir sem standa til boða kortlagðar. Auk þess eru gerðar tillögur að úrbótum og aukinni þjónustu við einstaklinga með langvinna verki. Ekkert er talað um endómetríósu í þessari skýrslu þó sjúkdómurinn sé orsök langvinnra verkja fjölda kvenna hér á landi. Í lokaorðum skýrslunnar er tekið fram að hér á landi skorti verulega upp á hvert skuli vísa einstaklingum þegar meðferð hefur ekki gagnast og talað um að töluvert vanti upp á að heilbrigðisstarfsfólk fái fræðslu og þjálfun í meðferð langvinnra verkja.
Auka þarf fræðslu og þjónustu
Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir að efla fræðslu meðal almennings og starfsfólks heilbrigðisstofnana. Í ályktuninni er ráðherra falið að láta fara fram endurskoðun á heildarskipulagi þjónustunnar með það að markmiði að stytta greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð, en í því felst m.a. að skoða verkferla, niðurgreiðslu lyfja og fjármögnun til að tryggja mönnun og aðstöðu til að sinna einstaklingum með endómetríósu með sem bestu móti.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.