Eftir tvö krefjandi ár sökum heimsfaraldurs er ljóst er að endurreisn ferðaþjónustunnar er hafin af fullum krafti. Útlit er fyrir að komur erlendra ferðamanna yfir árið fari fram úr bjartsýnustu spám. Ferðamálastofa áætlar að heildarfjöldi ferðamanna árið 2022 verði um 1,6 milljón, sem er um 80% af heildarfjölda ársins 2019.
Það er ánægjulegt að heyra fjölmargar fregnir um gott gengi ferðaþjónustunnar en sumarið hefur gengið vel í greininni og vísbendingar eru um að helstu kennitölur verði svipaðar og árið 2019. Verulegur stígandi hefur verið í komum erlendra ferðamanna það sem af er ári, einkum síðustu mánuði. Þannig benda bráðabirgðatölur Isavia fyrir júlí til þess að ákveðnum vendipunkti hafi verið náð í mánuðinum. Brottfarir ferðamanna hafi verið alls 233.834 eða 101% af heildarfjöldanum sama mánuð árið 2019. Er það í fyrsta skipti sem við sjáum fjölgun ferðamanna þegar tölur eru bornar saman við 2019! Þá stefnir í stærsta komuár skemmtiferðaskipa hingað til.
Þessi auknu umsvif ferðaþjónustunnar koma greinilega fram í hagtölum. Gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustu, miðað við greiðslukortaveltu fyrstu 6 mánuði ársins, nam alls 692 milljónum evra. Það er u.þ.b. fjórföldun miðað við fyrra ár og um 88% af heildarveltunni sama tímabil árið 2019, í evrum talið. Þá er meðalvelta á hvern ferðamann töluvert meiri en fyrir faraldurinn, sem er fagnaðarefni. Það skiptir höfuðmáli fyrir íslenska hagkerfið að útflutningsgreinum þess vegni vel. Ferðaþjónustan leggur þar gríðarlega mikið af mörkum en á skömmum tíma getur hún skapað miklar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið, eins og rakið er að ofan.
Þessi árangur er staðfesting þess að tíminn í heimsfaraldrinum hafi verið vel nýttur, bæði hjá stjórnvöldum sem og hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum og hörkuduglegu starfsfólki þeirra. Lögð var áhersla á að styðja við fyrirtæki í gegnum faraldurinn og verja þannig mikilvæga þekkingu fyrirtækjanna og þá innviði sem nauðsynlegir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný. Að sama skapi juku stjórnvöld verulega fjárfestingar í innviðum, bæði í samgöngum og á ferðamannastöðum, svo þeir yrðu betur í stakk búnir til að taka á móti fleiri gestum á ný. Aukinheldur ákvað ríkisstjórnin að verja háum fjárhæðum í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað, með markaðsverkefninu ,,Saman í sókn‘{lsquo} í gegnum allan faraldurinn, þrátt fyrir litla eftirspurn eftir ferðalögum á þeim tíma. Eitt af fyrstu verkum mínum sem ferðamálaráðherra var að verja 550 m. kr. í aukna markaðssetningu til að tryggja enn kröftugri viðspyrnu ferðaþjónustunnar.
Þær ákvarðanir, sem teknar eru hverju sinni, skipta framtíðina öllu máli. Með samstilltu átaki er okkur að takast að endurreisa ferðaþjónustuna eftir heimsfaraldurinn.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. ágúst 2022.