Grundvallarbreyting hefur orðið á viðhorfum til starfsmenntunar á undanförnum árum og áhuginn á starfsnámi hefur aukist. Fagstéttir sem glímdu við mikla manneklu horfa fram á breyttan veruleika og færniþarfir samfélagsins eru betur uppfylltar en áður. Í dag eru verk- og tæknimenntaskólar meðal vinsælustu framhaldsskóla landsins og laða í miklum mæli til sín hæfileikafólk á öllum aldri. Ég er því gríðarlega ánægð í hvert sinn sem við tökum fleiri skref í áttina að bættu umhverfi starfs- og iðnnema hér á landi.
Eitt slíkt skref verður tekið von bráðar á Alþingi Íslendinga. Frumvarp mitt um breytingar á inntökuskilyrðum háskóla er langt komið í meðförum þingsins. Þetta frumvarp er mikið réttlætismál og fagnaðarefni fyrir allt menntakerfið, sérstaklega nemendur. Markmið frumvarpsins er að jafna möguleika framhaldsskólanema sem ljúka prófi af þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til frekara náms. Mikilvægt er að háskólarnir móti skýr og gegnsæ viðmið fyrir nám, sem tekur mið af hæfni, færni og þekkingu nemenda. Slík viðmið eru jafnframt til þess fallin að vera leiðbeinandi fyrir framhaldsskólana við skipulag og framsetningu námsbrauta, ásamt því að nemendur eru betur upplýstir um inntökuskilyrði í háskólum. Frumvarpið felur því í sér aukið jafnræði til náms á háskólastigi.
Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun til að efla starfs- og tæknimenntun í landinu sem unnið er að í samstarfi við fjölda hagaðila. Í mínum huga er endurreisn iðnnáms hafin hér á landi. Þrennt kemur til.
Í fyrsta lagi, aukið jafnræði á milli bóknáms og starfsnáms eins og fram kemur í þessu frumvarpi. Í öðru lagi eru breytingar á vinnustaðanámi, sem styrkir það verulega og eykur fyrirsjáanleika. Í þriðja lagi hafa framlög til framhaldsskólastigsins stóraukist – tækjakostur endurnýjaður og svo er búið að tryggja fjármögnun í nýbyggingu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti fyrir starfs- og listnám – einnig er vinna hafin við nýjan Tækniskóla.
Íslenskt iðnnám stendur mjög vel í samanburði við erlent, kennarar vel menntaðir, þeir búa að fjölbreyttri reynslu og námsbrautirnar metnaðarfullar. Við erum því vel í stakk búin til að taka á móti gríðarlegum fjölda nemenda á næstu árum. Aðsókn hefur aukist mikið á síðustu árum og fyrstu vísbendingar um innritun í framhaldsskólanna fyrir næsta skólaár gefa til kynna aðsóknarmet í verknám.
Það er mitt hjartans mál að við eflum iðn- og starfsmenntun í landinu og til þess þurfum við góða aðstöðu og skýra sýn til framtíðar. Endurreisn iðnnáms hér á landi er samvinnuverkefni fjölmargra. Ég þakka öllum þeim sem leggja málinu lið!
Við erum klárlega á réttri leið!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2021.