Categories
Greinar

Endurreisn vegakerfisins

Deila grein

12/12/2019

Endurreisn vegakerfisins

Þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum er gríðarmikil. Vegagerðin áætlar að nauðsynlegt sé að fara í um 200 verkefni næstu 25 árin og eru þær framkvæmdir alls metnar á yfir 400 milljarða króna. Í síðustu viku lagði ég fram á Alþingi uppfærða samgönguáætlun. Í henni eru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin og framkvæmdum, sem í heild eru metnar á 214 milljarða króna, er flýtt.

Til að ná enn meiri árangri er gert ráð fyrir að sértækar framkvæmdir verði fjármagnaðar sem samvinnuverkefni, sbr. Hvalfjarðargangamódel. Slík verkefni mynda sterkan hvata til nýsköpunar sem getur lækkað kostnað og stytt framkvæmdatíma. Þau eru þjóðhagslega arðbær. Sex verkefni hafa verið talin fýsileg í þeim efnum og eru til umfjöllunar í sérstöku frumvarpi um samvinnuverkefni (PPP), þ.m.t. ný Ölfusárbrú (2022) og nýr vegur um Öxi (2021).

Ný samgönguáætlun boðar byltingu í uppbyggingu og viðhaldi miðað við síðustu ár. Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að að lágmarki 120 milljarðar fari til vegaframkvæmda, eða um þriðjungur þess sem þarf til nauðsynlegra framkvæmda. Loksins verður hægt að endurreisa vegakerfið og tryggja viðunandi viðhald svo tryggja megi örugga og greiða umferð með áherslu á tengingu á milli byggða. Viðhald á vegum verður aukið í takt við meiri umferð og lagt verður bundið slitlag á 400-450 km á tengivegi. Gaman er að segja frá því að Vatnsnesvegur er nú loksins kominn á áætlun eftir umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda.

Í lok tímabils samgönguáætlunar verða umferðarmestu vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskildar akstursstefnur. Það gildir um Vesturlandsveg fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og á Reykjanesbraut að flugstöðinni. Unnið er að því að finna leiðir til að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut enn frekar, einum umferðarmesta þjóðvegi landsins. Þar eru óleyst skipulagsmál við Straumsvík en Vegagerðin telur að framkvæmdir þar fari í útboð í lok árs 2022. Þá verður jarðgöngum á Austurlandi flýtt og næstu skref að Sundabraut kynnt fljótlega.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. desember 2019.