Í sumar hef ég unnið að ýmsum málum er tengjast gengistryggðum lánum og lögmæti þeirra. Til mín hafa leitað einstaklingar sem voru með gengistryggð lán hjá fjármálastofnunum. Þessir einstaklingar eiga það allir sameiginlegt, að þeir eru að reyna leita réttar síns vegna lánanna en baráttan gengur því miður illa, svo vægt sé til orða tekið. Í öllum tilfellum er um að ræða lán sem kom þeim í þrot. Þess ber að geta að samskonar lán, sem inniheldur sömu lánaskilmála hefur verið dæmt ólöglegt fyrir hæstarétti. Þrátt fyrir það þá neita fjármálastofnanirnar að endurreikna lánin nema að þessir einstaklingar fari í mál við bankann.
Ég ætla hér að segja ykkur stutta sögu sem er einmitt lýsandi dæmi fyrir þá einstaklinga sem til mín hafa leitað.
Raunverulegt dæmi
Þessi raunverulega saga, segir frá einstaklingi sem var með gengistryggt lán frá fjármálastofnun. Í kjölfar af hruninu, á haustmánuðum 2008, þá hækkaði lánið upp úr öllu valdi. Samningsviðræður um afborganir voru í fullum gangi við viðskiptabanka viðkomandi, en skiluðu engum árangri. Þetta endar með því að einstaklingurinn fer í þrot. Þetta gerist aðeins örfáum dögum eftir að samskonar lán, með sömu lánaskilmála voru dæmd ólögleg fyrir Hæstarétti.
Neita að leiðrétta
Þessi einstaklingur sem sagan fjallar um, hefur reynt að leita réttar síns. Hann hefur óskað eftir endurútreikningum hjá viðskiptabankanum en þar er því neitað, nema hann fari í mál við bankann. Gerum okkur grein fyrir að lítill hluti í þessari umræddu stöðu, hefur fjárhagslegt bolmagn til að fara á móti fjármálastofnunum. Að vísu er hægt að sækja um gjafsókn í þessum málum, en skilyrðin eru mjög þröng.
Leitað hefur verið til hagfræðings hjá virtri stofnun sem komst að því að endurreikna þurfi lánin þar sem það væri ólögmætt og að einstaklingurinn ætti inni hjá fjármálastofnuninni í kringum 40 milljónir króna. Matsmaður hefur verið ráðinn til að fara yfir lánin, en hann var samþykktur bæði af báðum aðilum, þ.e. bankanum og einstaklingnum. Matsmaðurinn komst að sömu niðurstöðu og hagfræðingurinn. Þrátt fyrir þetta þá neitar fjármálastofnunin enn að endurreikna lánin.
Gengið á veggi
Leitað hefur verið til ýmissa stofnanna sem eiga að tryggja hag neytenda og hafa aðhald og eftirlitsskyldu með fjármálastofnunum. Það hefur ekki gengið vel því það virðist sem enginn geti tekið á þessu máli og allir sem leitað hefur verið til, benda á aðra í þessu máli.
Að lokum
Mikilvægt er að fundin verði leið til að þrýsta á fjármálastofnanir til að klára þau mál sem enn eru eftir í endurútreikningi gengistryggðra lána. Við sem sitjum á Alþingi verðum að skoða þessi mál og reyna eftir fremsta megni að tryggja, að einstaklingar geti sótt rétt sinn í hinum ýmsu neytendamálum.
Elsa Lára Arnardóttir
Greinin birtist í DV 19. september 2014.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.