Categories
Greinar

Flugið heillar – en hverjir hafa ráð á því?

Deila grein

22/09/2014

Flugið heillar – en hverjir hafa ráð á því?

Silja-Dogg-mynd01-vefInnanríkisráðherra lét gera félagshagfræðilega greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands og sú úttekt var kynnt í febrúar sl. Í úttektinni kemur m.a. fram að rannsóknir sýni að hreyfanleiki og aðgengi skipti sköpum við val á búsetu, atvinnu, menntun og afþreyingu. Þetta eigi ekki hvað síst við í byggðum fjærst höfuðborgarsvæðinu. Þar gegni innanlandsflug iðulega mikilvægu hlutverki og sé oft einn grundvöllur búsetugæða, þ.e. grunnþáttur sem verði að vera til staðar til að svæði teljist hæft til búsetu og jafnvel eftirsóknarvert.

Óhófleg gjaldtaka
Í bókun flugráðs frá 5. desember 2012 kemur meðal annars fram að sívaxandi hækkanir á opinberum gjöldum á innanlandsflugið eru komnar yfir þolmörk og munu óhjákvæmilega bitna á farþegum í hækkun fargjalda og samdrætti í þjónustu. Flugráð varar við að sjálfbærni í flugrekstri innanlands sé ógnað og samkeppnisskilyrði verulega veikt með óhóflegri gjaldtöku. Þess vegna sé brýnt að endurskoða rekstrarumhverfi innanlandsflugs og tryggja þar með eðlilega þjónustu við íbúa í landinu.

Almenningssamgöngur fyrir almenning
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefna stjórnarflokkanna sé að bæta samgöngur í landinu og tryggja tengingu á milli byggða. Öflugar almenningssamgöngur eru mikilvægar til að tryggja tengingu byggða og innanlandsflug er skilgreint sem almenningssamgöngur. Það ætti því einnig að vera grundvallaratriði að »almenningur« hafi ráð á að notfæra sér »almenningssamgöngur«.

Breytingar snúast um ákvörðun
Undirrituð lagði fram skriflega fyrirspurn um fargjöld innanlandsflugs til innanríkisráðherra í febrúar sl. Ein spurningin var á þann veg hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir lækkun flugfargjalda innanlands. Það er ánægjulegt að segja frá því að ráðherra sagðist myndi beita sér fyrir því að opinber gjöld á innanlandsflugi yrðu lækkuð. Nú er starfshópur að störfum á vegum ráðherra sem mun skila niðurstöðum sínum í lok október. Það verður áhugavert að sjá hver niðurstaða hópsins verður því það er afar brýnt að flugfargjöld innanlands lækki, almenningi til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.