Categories
Greinar

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

Deila grein

27/10/2016

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

lilja____vef_500x500Meirihluti Íslendinga vill að nýtt þjóðarsjúkrahús verði byggt á besta stað, þar sem aðgengi er gott og framkvæmdir trufla ekki sjúklinga, starfsfólk og íbúa. Af því má leiða að meirihluti landsmanna vilji hlífa sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki við ærandi hávaða frá loftpressum, jarðvegssprengingum, umferð steypubíla og annarra stórvirkra vinnutækja. Að meirihluti þjóðarinnar vilji vissu fyrir því, að faglegar forsendur liggi til grundvallar ákvörðun um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.
Þótt fyrirhuguð framkvæmd sé ein sú stærsta sem Íslendingar hafa tekist á hendur eru forsendur fyrir núverandi staðarvali hæpnar. Raunar hefur aldrei farið fram ítarlegt faglegt mat á öðrum kostum en spítalalóðinni við Hringbraut og lóð Borgarspítalans við Fossvog. Upphaflega þótti síðarnefndi kosturinn langtum betri en síðar varð Hringbrautin ofan á, enda væri þá ráðist í miklar skipulags- og vegaframkvæmdir til að tryggja gott aðgengi að spítalanum. Nú er ljóst að þær framkvæmdir verða ekki að veruleika. Aðrar mikilvægar forsendur hafa líka breyst, t.d. spár um fjölda þeirra sem þurfa þjónustu. Þá bendir ýmislegt til að Alþingi hafi ekki fengið trúverðugar áætlanir um alla verkþætti og því þurfi að yfirfara fjárhagsáætlanir sem liggja til grundvallar verkefninu. Samt er því haldið til streitu, að framtíðarsjúkrahús þjóðarinnar skuli staðsett í þéttri íbúabyggð í miðborg Reykjavíkur og hvergi annars staðar.
Ofsafengin viðbrögð
Óskin um faglega úttekt á bestu mögulegu staðsetningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús hefur kallað fram mjög sterk viðbrögð hjá hagsmunaaðilum sem vilja lagfæra gamla Landspítalann við Hringbraut, byggja fjölda nýbygginga og tengja sjúkrahúsþyrpingu í miðbænum saman með flóknu neti tengibygginga og undirganga. Tólf síðna kynningarrit var sent með Fréttablaðinu inn á heimili landsmanna í vikunni, á kostnað hins opinbera, og í Morgunblaði gærdagsins bregst Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður landssamtakanna Spítalinn okkar, harkalega við óskum um faglega úttekt á málinu. Viðbrögðin komu reyndar ekki á óvart, því hugmyndum um faglega nálgun hefur ítrekað verið mætt af mikilli hörku og þeir gjarnan taldir skemmdarvargar sem vilja skoða málið.
Okkar hugmynd er einföld: Að hópur færustu erlendra og óháðra sérfræðinga geri faglega úttekt og skili stjórnvöldum tillögum að staðarvali fyrir 30. apríl 2017. Á meðan haldi framkvæmdir áfram við Hringbraut samkvæmt áætlun, enda geti þær sannarlega nýst þótt framtíðarsjúkrahúsinu verði fundinn annar staður. Ef Hringbraut verður metinn heppilegasti staðurinn hafa engar tafir orðið á framkvæmdum. Ef ekki getum við afstýrt hroðalegum og dýrum mistökum. Vandséð er að opnun nýs sjúkrahúss myndi tefjast, þar sem framkvæmdir á opnu og aðgengilegu svæði eru bæði fljótlegri og ódýrari en innan um sjúklinga og íbúa í Þingholtunum.
Hinn fullkomni spítali
Ég vil að Íslendingar eignist fullkomið þjóðarsjúkrahús. Heildstæða og nútímalega byggingu þar sem byggt er frá grunni samkvæmt þörfum þjóðarinnar en ekki úreltum forsendum. Ég vil byggja miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðgengi er gott, samgönguæðar koma saman og ónæði fyrir almenning á framkvæmdatíma er lágmarkað. Ég vil að fjárveitingar til verkefnisins nýtist sem best og horft sé til framtíðar, t.d. varðandi mögulega stækkunarþörf sjúkrahússins. Verði niðurstaða óháðra sérfræðinga sú að best sé að byggja við Hringbraut mun ég una henni. Viðbrögð Hringbrautarmanna við áherslum Framsóknarflokksins gefa hins vegar til kynna að þeir óttist niðurstöðuna.
Lilja Alfreðsdóttir 
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2016.