Categories
Greinar

ESB er engin elsku mamma

Deila grein

26/07/2015

ESB er engin elsku mamma

frosti_SRGBÞegar Grikkir tóku upp evru árið 2001 hafði þar um nokkurra ára skeið ríkt sæmilegt jafnvægi í efnahags- og peningamálum, en áður hafði Grikkland iðulega þurft að glíma við verðbólgu og hátt vaxtastig. Aðild Grikklands að myntbandalaginu var því álitin mikilvægur áfangi í því að tryggja efnahagslegan stöðugleika landsins til framtíðar og skapa ný tækifæri. Forsætisráðherrann á þeim tíma dró upp þá líkingu að upptaka evru myndi færa Grikkland nær hjarta Evrópu.

Kannski hafa ekki margir séð fyrir að upptaka evru myndi leiða til ofþenslu gríska hagkerfisins, efnahagshruns og margra ára kreppu. En vart hefur nokkur Grikki getað séð fyrir þá gríðarlegu hörku sem aðildarríkin, með Þýskaland í broddi fylkingar, voru tilbúin að sýna Grikklandi í efnahagserfiðleikum þess. Í stað samstöðu og samhjálpar hafa vinaþjóðirnar látið Grikki sæta afarkostum og þvingunaraðgerðum. Jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðnum virðist nóg um hörkuna.

Það eru engin fordæmi fyrir því að peningakerfi ríkis sé nánast tekið úr sambandi í þeim tilgangi að þvinga landsmenn til að ganga að afarkostum. Nú er ljóst að slík þvingunaraðgerð er ekki bara fræðilegur möguleiki heldur sá kaldi veruleiki sem Evrópusambandið hefur boðið Grikklandi. Ef grísk stjórnvöld hefðu ekki fallist á þá afarkosti sem ESB bauð þeim blasti við algert hrun hagkerfisins. Þannig hefur Evrópusambandið fengið sínu framgengt en harkan sem Grikkir voru beittir mun væntanlega seint gleymast.

Eftir þriggja vikna lokun grískra banka voru þeir opnaðir aftur síðastliðinn mánudag. Ekki má þó taka út meira en 60 evrur á dag og auk þess er lokað á millifærslur milli landa. Forseti samtaka grískra banka hvetur sparifjáreigendur til að leggja peninga sína í banka og fullyrðir að óhætt sé að treysta bönkunum. Geta Grikkir treyst því? Árið 2010 hvatti þáverandi fjármálaráðherra Grikklands almenning til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum sem voru svo færð niður um 53% tveimur árum síðar. Grískir bankar eru rúnir trausti eftir þriggja vikna lokun og hverfandi líkur á að almenningur muni treysta bönkum fyrir sparifé sínu á næstunni. Fjármagnsflóttinn úr grískum bönkum mun því líklega halda áfram og kalla á frekari neyðaraðgerðir í náinni framtíð. Spurningin er hvaða skilyrði muni fylgja þeirri fyrirgreiðslu.

Þurfa að taka upp sjálfstæða mynt

Þótt grískir bankar séu ekki í ríkiseigu hefur seðlabanki evrusvæðisins neitað að leggja þeim til lausafé án ríkisábyrgðar. Skuldir einkabanka hafa þannig færst yfir á ríkissjóð og þá sem greiða skatta. Lánin til grísku bankanna hafa runnið til þess að gera upp við stóra erlenda kröfuhafa, aðallega evrópska banka. Eignafólk hefur líka getað forðað sínu fé úr grískum bönkum en almennt launafólk situr eftir með skuldugri ríkissjóð og þyngri skattbyrði. Erfitt er að sjá hvernig Grikkland á að komast upp úr kreppunni án verulegrar lækkunar skulda og upptöku sjálfstæðrar myntar.

Þegar ESB stillti Varufakis og Tzipras upp við vegg kom í ljós að þeir höfðu í raun ekkert „Plan B“ í raun. Haft er eftir Varufakis að þeir hafi ekki gert ráð fyrir að ESB myndi beita aðildarríki slíkri hörku. Hagfræðingar hafa bent á að ef Grikkland hefði átt tilbúna áætlun um upptöku drökmu hefði samningsstaða þess verið allt önnur og sterkari. Upptaka sjálfstæðrar myntar hefði með gengisfellingu leitt til lækkunar á stórum hluta skulda, samkeppnishæfni Grikklands hefði orðið gríðarsterk, hagvöxtur hefði tekið við sér, ekki síst ferðaþjónusta, atvinna hefði aukist og skattstofnar ríkisins tekið við sér. Fjárfestar hefðu séð tækifæri í Grikklandi og fjármagn byrjað að flæða til landsins að nýju. Myntbandalag Evrópusambandsins hefði hins vegar ekki mátt við slíku fordæmi enda gætu þá fleiri aðildarríki farið að íhuga útgöngu úr myntbandalaginu sem lausn á sínum efnahagsvanda.

Reiða sig á gæsku

Án sjálfstæðs gjaldmiðils getur Grikkland ekki komið hjólum atvinnulífsins í gang af sjálfsdáðum. Grikkland mun því áfram þurfa að reiða sig á gæsku Evrópusambandsins og efnahagsaðstoð sem nú er ljóst að ekki fæst nema gegn ströngum skilyrðum. Síðan ESB hóf „björgunaraðgerðir“ í Grikklandi árið 2010 hefur hagkerfi þess dregist saman um 25%. Laun hafa lækkað um 20% og atvinnuleysi aukist úr 10% í 25%. Ríkisskuldir, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, hafa aukist úr 113% í 170%. Heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi Grikklands eru í rúst. Fjármagns- og atgervisflótti er viðvarandi. Fjórðungur grunnskólabarna er vannærður vegna fátæktar. Sjúkir og aldraðir deyja vegna þess að lyf eru ekki til. Enn sér ekki fyrir endann á vanda Grikklands og lengi gæti vont versnað. Spurst hefur að tugþúsundir Breta hafi afbókað Grikklandsferðir sínar á meðan bankar voru lokaðir og þýskir ferðamenn óttist nú að þeir séu ekki lengur velkomnir í Grikklandi. Verði stjórnmálaástandið talið ótryggt í Grikklandi gæti ferðageirinn hrunið með skelfilegum afleiðingum.

Saga Grikklands sýnir hve mikilvægt það getur verið að eiga sjálfstæðan gjaldmiðil þegar á móti blæs. Þjóðir geta lent í efnahagsáföllum af ólíkum ástæðum, en dæmin sýna að hagkerfi sem byggja á sjálfstæðum gjaldmiðli eru margfalt fljótari að ná sér aftur á strik. Það er líka ljóst að vísasta leið þjóðar til að glata efnahagslegu sjálfstæði sínu er að færa erlendum aðila valdið til að skapa gjaldmiðilinn.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 25. júlí 2015.