Ferðaþjónustan hefur vaxið á tiltölulega stuttum tíma úr því að vera er lítill atvinnuvegur yfir í það að vera einn af hornsteinum hagkerfisins og gætt landið allt lífi. Hún hefur veitt fjölmörg tækifæri til atvinnuþróunar, menningarlegrar tengingar og innviðauppbyggingar víða um landið. Í raun er hægt að segja að ferðaþjónustan hafi sumstaðar umbreytt byggðum landsins til hins betra og tryggt ákveðna byggðafestu Þannig hefur fjölbreytni atvinnu og þjónustu, frá hótelum og veitingastöðum til afþreyingar og leiðsöguferða, aukist verulega sem nýtist heimamönnum jafnt sem ferðamönnum.
Það er ánægjulegt að geta deilt óendanlegri fegurð landsins með erlendum gestum. Náttúruperlur á borð við Jökulsárlón, Mývatn, Snæfellsnes og Vestfirði draga að sér fjölda gesta sem leita eftir einstakri upplifun í náttúrunni. Fjárfestingar í innviðum, svo sem vegagerð, flugvöllum, áfangastöðum og merkingum, hafa gert aðgengi að áfangastöðum auðveldara og öruggara, meðan stuðlað er að dreifingu ferðamanna um landið, en aukin dreifing ferðamanna og lenging ferðatímabilsins er stórt hagsmunamál fyrir atvinnugreinina hringinn í kringum landið. Með aukinni dreifingu nýtast innviðir lengri part úr árinu og skapa þannig sterkari grunn til þess að fjárfesta enn frekar.
Mikilvægasta þróunin sem stuðlað hefur að vexti ferðaþjónustu á landsbyggðinni er aukning á millilandaflugi til flugvalla utan Reykjavíkur. Það hefur verið uppörvandi að fylgjast með fráfarandi ferðamálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur leggja ríka áherslu á að styðja við uppbyggingu millilandaflugs í gegnum alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Nú er svo komið að flugfélagið Easyjet býður nú upp á beint flug að vetrarlagi til Akureyrar frá London og Manchester í Bretlandi – og hefur gangurinn í fluginu verið góður. Ég bind einnig vonir við að árangur náist í uppbyggingu millilandaflugs til Egilsstaða á næstu árum. Það tekur tíma að byggja upp flugleiðir sem þessar og því er mikilvægt að stjórnvöld sýni úthald og haldi áfram að styðja við uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni, meðal annars í gegnum Flugþróunarsjóð.
Í nýrri ferðamálastefnu til ársins 2030, sem mikil og góð vinna hefur verið lögð í, er einmitt lögð áhersla á dreifingu ferðamanna um landið. Það er brýnt að ný ríkisstjórn slökkvi ekki á því leiðarljósi með því að stinga stefnunni ofan í skúffu, enda er um að ræða tímamótaplagg fyrir einn helsta atvinnuveg þjóðarinnar. Það þarf að halda áfram að styrkja umgjörð greinarinnar og tryggja samkeppnishæfni hennar. Þannig mun hún halda áfram að skapa verðmæti um allt land.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. desember 2024.