Categories
Greinar

Fíkniefnið sykur

Deila grein

25/08/2014

Fíkniefnið sykur

haraldur_SRGB_fyrir_vefVið félagarnir vorum að hugsa um að fara heilt maraþon. Skipta því bróðurlega á milli okkar og hlaupa í boðhlaupi. Spretthlauparinn ég ákvað því að taka æfingu fyrir átökin, enda lengri vegalengdir ekki mínir hlaupaskór. Æfingin lá niður að sjó meðfram Sæbrautinni þar sem fleiri voru greinilega að æfa sig. Allir hlauparar sem ég mætti á leið minni meðfram sjónum heilsuðu hressilega »Góðan daginn«, »koma svo«, bros og veif. Þetta hlýja viðmót bætti mjög daginn minn og gerði hlaupið auðveldara. Það var greinilegt að hlaupurum á Sæbrautinni þennan dag leið vel í eigin líkama.

Hreyfing er mikilvæg
Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum. Hvert og eitt okkar verður að hugsa um sína heilsu og þar er lykilatriði að stunda einhverja hreyfingu, hvort sem við erum í keppnisgalla í Reykjavíkurmaraþoni, að hlaupa fyrir gott málefni, ganga í búðina eða eitthvað annað sem hentar hverjum og einum. Það er annað sem skiptir jafnvel meira máli en hreyfing til að halda heilsunni; hollt mataræði. Það minnkar líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum sem hrjá margan Íslendinginn, til dæmis hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig er stress, kvíði og athyglisbrestur dæmi um álagseinkenni sem geta aukist með lélegu mataræði. Unnar matvörur eru til dæmis lakari matur og inniheldur gjarnan sykur, hveiti og rotvarnarefni, en þessar vörur eru að jafnaði ódýrari en þær sem hollari eru.

Sykur, skattar og lýðheilsa
Með þetta í huga velti ég vöngum yfir mögulegum afleiðingum þess að afnema sykurskatt. Á sama tíma og ljóst er að markvissari verðlagningaraðgerðir þyrfti til að draga úr sykurneyslu í miklum mæli er hugsunin á bak við sykurskattinn í rétta átt. Markmiðið er gott en spyrja má hvort skatturinn hefur náð tilsettum árangri? Hærra verð á sælgæti og gosi heldur mér a.m.k. svolítið fjær því að velja þær vörur en annars væri.

Það er ekki einungis jákvætt heldur nauðsynlegt að stefna að betri árangri í lýðheilsumálum og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er bætt lýðheilsa og forvarnarstarf sett meðal forgangsverkefna. Með markvissum aðgerðum á því sviði má draga úr kostnaði fyrir samfélagið til framtíðar og í raun ættu lýðheilsumarkmið að vera þáttur í öllum stefnum stjórnvalda. Aðgerðir til að draga úr sykurneyslu eru þar mikilvægar og sterkasta forvarnaraðgerðin á færi stjórnvalda í því samhengi er markviss lagasetning.

Umræða um hækkun virðisaukaskatts á matvæli tengist einnig inn í lýðheilsuumræðuna, þar sem varast verður að matarkarfan hækki almennt í verði á meðan sykur og sykurvörur lækka hlutfallslega á móti. Hættan á því að sykraðar matvörur verði algengari í matarkörfunni vegna verðlags er raunveruleg og með henni eykst hætta á lífsstílstengdum sjúkdómum sem getur leitt til aukins kostnaðar fyrir samfélagið til lengri tíma litið.

Reykjavíkurmaraþonið er orðið fastur þáttur í lífi margra og hefur, með áherslu á að sem flestir geti tekið þátt, lagt mikið til vakningar um mikilvægi hreyfingar á undanförnum árum. Stjórnvöld þurfa að vinna í sömu átt til þess að sem flestir geti átt jafnan aðgang að hollu mataræði og liðið vel í eigin líkama. Til þess þarf að huga að lýðheilsumarkmiðum þegar stefnan er mörkuð. Ég mun beita mér fyrir því.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.