Skilaboðin sem kjósendur sendu stjórnvöldum um liðna helgi voru skýr. Þjóðin valdi annars vegar áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og hins vegar að fjárfesta í fólki. Ríkisstjórnin jók þingstyrk sinn og fékk umboð til að endurnýja samstarfið. Samræður þar að lútandi eru hafnar og á næstu dögum ættu línur að skýrast. Í samningaviðræðum gengur enginn að neinu vísu og fólk mætir til leiks með opnum hug, en markmiðið er skýrt; að vinna þjóðinni gagn og auka velsæld í landinu.
Efnahagshorfurnar fyrir árið hafa styrkst, eftir því sem hjól atvinnulífsins snúast hraðar og áhrif heimsfaraldurs minnka. Gert er ráð fyrir 4% hagvexti í ár og atvinnuleysi hefur minnkað hratt. Atvinnuþátttaka nálgast það sem hún var fyrir Covid og horfur eru góðar.
Mótvægisaðgerðir vegna áhrifa heimsfaraldurs kostuðu sitt, en í samanburði við önnur lönd er staða ríkissjóðs góð. Vissulega er halli á ríkissjóði um þessar mundir, en sterk staða fyrir Covid og markviss niðurgreiðsla skulda á undanförnum áratug skapar góða viðspyrnu sem stjórnvöld munu nýta til að snúa við tímabundnum hallarekstri. Rétt er að minna á, að ríkisútgjöldum vegna Covid var fyrst og fremst ætlað að verja afkomu fólks og samfélagslega innviði svo áhrif heimsfaraldurs yrðu ekki varanleg.
Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á stöðugleika í efnahagsmálum. Að samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðarins sé gott og sjálfbært til langs tíma. Þá er mikilvæg að vaxtastig í landinu sé hagstætt, en með eðlisbreytingu á lánamarkaði eru stýritæki Seðlabankans nú skilvirkari en áður. Stór hluti húsnæðislána er nú óverðtryggður og fyrir vikið skilar stýrivaxtahækkun sér miklu hraðar en áður inn í neysluna. Það er fagnaðarefni, enda betra til að halda niðri verðbólgu sem er eitt helsta hagsmunamál almennings.
Á undanförnum árum hefur Framsókn lagt áherslu á að fjárfesta í fólki. Þeirri stefnu héldum við til streitu í aðdraganda kosninga, og það munum við gera í viðræðum um myndun ríkisstjórnar. Í menntamálum eru spennandi tímar fram undan, þar sem fyrir liggur aðgerðaáætlun til þriggja ára sem mun efla menntun í landinu, árangur og skilvirkni í skólastarfi, læsi ungmenna og sköpunarkraft þeirra. Allt miðar að því tryggja heildstæða skólaþjónustu, með viðeigandi stuðningi við þá sem þurfa og inngrip strax í upphafi skólagöngu til að bæta nám og farsæld barna. Samhliða er mikilvægt að kerfisbreytingar í málefnum barna nái fram að ganga, en barnamálaráðherra hefur verið óþreytandi í baráttu sinni fyrir aukinni velsæld barna og mun fyrir hönd Framsóknar leiða vinnu til hagsbóta fyrir eldri borgara. Staða þeirra er misjöfn, því á meðan sumir hafa það gott eru aðrir illa staddir. Brýnt er að leysa þann vanda, í góðri samvinnu við alla helstu hagaðila svo enginn verði út undan.
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.
Höfundur: Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2021.