Í nýrri bók – The Riches of this Land – fjallar Jim Tankersley, blaðamaður á New York Times, um minnkandi kaupmátt bandarísku millistéttarinnar. Höfundurinn leitar skýringa og skoðar hvernig störf millistéttarfólks hafa breyst á síðustu áratugum, meðal annars vegna tækniframfara. Niðurstaðan er afdráttarlaus; landsvæðin sem glatað hafa flestum störfum eiga það sameiginlegt að hafa ekki fjárfest nægjanlega í nýsköpun og menntun. Þau hafa skilið fólkið sitt eftir og vanrækt sínar samfélagslegu skyldur.
Menntun er eitt öflugasta hreyfiafl samfélaga og þeim einstaklingum vegnar almennt betur sem öðlast og viðhalda nauðsynlegri hæfni og færni. Þetta á alls staðar við og í því felst skýr hvatning til íslenskra stjórnvalda um að efla umgjörð menntunar og hæfniþróunar í landinu. Nýsamþykkt vísinda- og tæknistefna er liður í því verkefni, enda leggur fjölbreytt vísindastarf grunninn að margvíslegri þekkingu. AUGLÝSINGSýn Vísinda- og tækniráðs til ársins 2030 er sú að á Íslandi sé lögð áhersla á gæði menntunar, jafnan aðgang allra að menntun og að menntakerfið þróist sífellt í takti við samfélagið og framtíðina. Að rannsóknir, hugvit, sköpun og frumkvæði sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar og öflugs athafna- og menningarlífs sé leiðarljósið inn í framtíðina. Tíu aðgerðir styðja við vísinda- og tæknistefnuna og margar eru að öllu eða einhverju leyti á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Sterkari samkeppnissjóðir
Innlendir samkeppnissjóðir hafa verið stórefldir á kjörtímabilinu, en þeir eru forsenda þess að íslenskir vísindamenn, frumkvöðlar og fyrirtæki geti sótt í alþjóðlega sjóði. Aðferðafræðin hefur skilað miklum árangri og íslenskum aðilum hefur gengið mjög vel í norrænu og evrópsku vísindasamstarfi. Styrkveitingar til íslenskra verkefna úr alþjóðlegum sjóðum hafa vakið eftirtekt, þar sem gamla, góða höfðatölumælingin sýnir magnaðan árangur. Hann verður ekki til af sjálfu sér.Framlög til vísinda og samkeppnissjóða í rannsóknum.
Auka gæði í háskólastarfi og efla fjármögnun háskóla
Stjórnvöld hafa einsett sér að fjárveitingar til háskólastigsins verði sambærilegar þeim á Norðurlöndunum árið 2025. Í sögulegu samhengi hafa Íslendingar varið minna fé til málaflokksins en á kjörtímabilinu hefur vel gengið að brúa bilið. Eitt meginmarkmiða stjórnvalda er að styðja við þekkingardrifið efnahagslíf, þar sem samspil rannsakenda á háskólastigi og atvinnulífs er lykilatriði. Nú þegar er unnið að því að styrkja umgjörð fjárveitinga til háskólanna og þróa mælikvarða á gæði og skilvirkni háskólastarfs. Framgangurinn hefur verið góður og mun leggja grunninn að enn sterkari háskólum á Íslandi.Framlög til háskóla og rannsóknarstarfsemi.
Aukin færni á vinnumarkaði
Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tæknibreytinga þarf Ísland að búa sig undir breyttan heim. Einstaklingar þurfa að laga sig að breyttri færniþörf í atvinnulífinu og fyrirtæki að þróast hratt til að tryggja samkeppnisstöðu sína. Framboð á námi og símenntun skal taka mið af þeirri lykilhæfni sem atvinnulíf og samfélag kalla eftir, enda þarf hæft starfsfólk til að efla framleiðni og skapa ný verðmæti. Það skal líka áréttað að formleg menntun segir ekki lengur alla söguna heldur líta vinnuveitendur í auknum mæli til reynslu og færni við ráðningar.
Opinn aðgangur að gögnum og bætt miðlun vísinda
Aðgengi að opinberum gögnum háskóla, rannsóknastofnana og gögnum sem verða til með styrkjum úr opinberum rannsókna- og nýsköpunarsjóðum á að vera opið, svo samfélagslegur ábati af slíkum fjárfestingum sé hámarkaður. Þannig á vísindastarf að nýtast í auknu mæli í stefnumótun og við lýðræðislega ákvarðanatöku. Með auknu aðgengi sköpum við umgjörð sem tryggir sýnileika vísinda, stuðlar að aukinni þekkingu á vísindalegum aðferðum og eykur skilning, traust og virðingu fyrir vísindalegum niðurstöðum. Hugað verður sérstaklega að því að skapa tækifæri fyrir kennara og aðra fagaðila til að nýta aðferðafræði vísinda til að efla þekkingu barna- og unglinga á gildi þeirra.
Þau ríki sem fjárfesta í nýsköpun og mannauði eru líklegust til að skapa ný störf. Ísland hefur alla burði til þess að láta til sín taka á því sviði og öflug alþjóðleg fyrirtæki á sviði erfðarannsókna, lyfjaframleiðslu, svefnrannsókna, stoðtækja o.s.frv. hafa vaxið og dafnað á undanförnum árum. Stjórnvöld hafa ákveðið að styðja enn betur við vaxtatækifæri framtíðarinnar, mótað stefnu og veitt ríkulegum fjármunum til þess. Fjárveitingar til vísinda- og samkeppnissjóða í rannsóknum verða um 10 milljarðar kr. á næsta ári og hækka því um 67% milli ára. Það er svo sannarlega vel, því við trúum því að Ísland geti orðið land tækifæra fyrir vísindi, rannsóknir, menntun og nýsköpun fyrir alla.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 27. október 2020.