Ég hef alltaf dáðst að því fólki sem helgar ævi sína því að lækna fólk og hjúkra. Við megum sem þjóð vera afskaplega þakklát fyrir allt það fólk sem fetar þessa braut. Við höfum líklega aldrei fundið jafn sterkt fyrir því hvað við eigum gott heilbrigðiskerfi og á þessum þungu mánuðum sem heimsfaraldurinn hefur ásótt okkur. Heilbrigðisstarfsfólk hefur staðið sig með eindæmum vel þrátt fyrir mikið álag.
Við viljum blandað kerfi opinbers rekstrar og einkarekstrar
Við í Framsókn erum fylgjandi því að heilbrigðiskerfið sé heilbrigð blanda af opinberum rekstri og einkarekstri. Ég heyri raddir um mikilvægi blandaðs kerfis, ekki síst innan úr heilbrigðiskerfinu sjálfu. Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem alla daga vinna með líf fólks í höndum sínum. Það hlýtur að vera mikið álag á líkama og sál að vinna í svo miklu návígi við erfiða sjúkdóma og afleiðingar slysa. Þess vegna er mikilvægt að kjör heilbrigðisstarfsfólks séu góð og stytting vinnuvikunnar sé raunveruleg. Hluti af því að bæta aðstæður er að kerfið sé blandað.
Heildstæð og framsýn stefna
Ég heyri andstæðinga þess að við byggjum upp sterkt blandað kerfi opinbers rekstar og einkarekstrar oft segja að það sé ekki eðlilegt að stóra sjúkrahúsið okkar sé með erfiðu aðgerðirnar en á einkareknu stofunum séu einfaldari og „léttari“ aðgerðir. Framleiðnin (þótt mér þyki alltaf erfitt að tala um framleiðni þegar rætt er um líf fólks og heilsu) verði meiri og því mögulega meiri velta. Eitt af verkefnum næstu ríkisstjórnar er að leiða saman fulltrúa heilbrigðisstétta, sérfræðinga, frjálsra félagasamtaka og þeirra sem nota þjónustu spítalanna til að móta heildstæða og framsýna stefnu þegar kemur að heilbrigði þjóðarinnar.
Hugsum um heilsu þjóðarinnar
Við í Framsókn viljum fjárfesta í heilbrigði. Í því felst að auka verður áherslu á forvarnir, geðheilbrigði og hreyfingu. Við þurfum að búa til þær aðstæður og hvatningu að fólk hugsi um heilsu sína og þannig minnka álagið á sjúkrahúsin þegar líður á ævina.
Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum. Því er mikilvægt að hver og einn sé meðvitaður um heilsu sína. Meiri áhersla á forvarnir og fræðslu er fjárfesting sem skilar sér í auknum lífsgæðum einstaklingsins og minna álagi á sjúkrastofnanir.
Með þessi áherslumál óskum við í Framsókn eftir stuðningi í kosningunum 25. september næstkomandi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. september 2021.