Categories
Greinar

Fjárfestum í heilbrigði þjóðarinnar

Deila grein

19/09/2021

Fjárfestum í heilbrigði þjóðarinnar

Ég hef alltaf dáðst að því fólki sem helg­ar ævi sína því að lækna fólk og hjúkra. Við meg­um sem þjóð vera af­skap­lega þakk­lát fyr­ir allt það fólk sem fet­ar þessa braut. Við höf­um lík­lega aldrei fundið jafn sterkt fyr­ir því hvað við eig­um gott heil­brigðis­kerfi og á þess­um þungu mánuðum sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur ásótt okk­ur. Heil­brigðis­starfs­fólk hef­ur staðið sig með ein­dæm­um vel þrátt fyr­ir mikið álag.

Við vilj­um blandað kerfi op­in­bers rekstr­ar og einka­rekstr­ar

Við í Fram­sókn erum fylgj­andi því að heil­brigðis­kerfið sé heil­brigð blanda af op­in­ber­um rekstri og einka­rekstri. Ég heyri radd­ir um mik­il­vægi blandaðs kerf­is, ekki síst inn­an úr heil­brigðis­kerf­inu sjálfu. Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem alla daga vinna með líf fólks í hönd­um sín­um. Það hlýt­ur að vera mikið álag á lík­ama og sál að vinna í svo miklu ná­vígi við erfiða sjúk­dóma og af­leiðing­ar slysa. Þess vegna er mik­il­vægt að kjör heil­brigðis­starfs­fólks séu góð og stytt­ing vinnu­vik­unn­ar sé raun­veru­leg. Hluti af því að bæta aðstæður er að kerfið sé blandað.

Heild­stæð og fram­sýn stefna

Ég heyri and­stæðinga þess að við byggj­um upp sterkt blandað kerfi op­in­bers rekst­ar og einka­rekstr­ar oft segja að það sé ekki eðli­legt að stóra sjúkra­húsið okk­ar sé með erfiðu aðgerðirn­ar en á einka­reknu stof­un­um séu ein­fald­ari og „létt­ari“ aðgerðir. Fram­leiðnin (þótt mér þyki alltaf erfitt að tala um fram­leiðni þegar rætt er um líf fólks og heilsu) verði meiri og því mögu­lega meiri velta. Eitt af verk­efn­um næstu rík­is­stjórn­ar er að leiða sam­an full­trúa heil­brigðis­stétta, sér­fræðinga, frjálsra fé­laga­sam­taka og þeirra sem nota þjón­ustu spít­al­anna til að móta heild­stæða og fram­sýna stefnu þegar kem­ur að heil­brigði þjóðar­inn­ar.

Hugs­um um heilsu þjóðar­inn­ar

Við í Fram­sókn vilj­um fjár­festa í heil­brigði. Í því felst að auka verður áherslu á for­varn­ir, geðheil­brigði og hreyf­ingu. Við þurf­um að búa til þær aðstæður og hvatn­ingu að fólk hugsi um heilsu sína og þannig minnka álagið á sjúkra­hús­in þegar líður á æv­ina.

Heils­an er það dýr­mæt­asta sem við eig­um. Því er mik­il­vægt að hver og einn sé meðvitaður um heilsu sína. Meiri áhersla á for­varn­ir og fræðslu er fjár­fest­ing sem skil­ar sér í aukn­um lífs­gæðum ein­stak­lings­ins og minna álagi á sjúkra­stofn­an­ir.

Með þessi áherslu­mál ósk­um við í Fram­sókn eft­ir stuðningi í kosn­ing­un­um 25. sept­em­ber næst­kom­andi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. september 2021.