Þúsundir námsmanna eru að útskrifast þessa dagana og horfa með björtum augum til framtíðar. Ísland er eitt fárra ríkja í veröldinni þar sem nemendur höfðu greitt aðgengi að menntun í gegnum heimsfaraldurinn. Staða skólanna var misjöfn en allir kennarar og skólastjórnendur lögðu mikla vinnu á sig svo að nemendur þeirra fengju framgang í námi. Hugarfarið hjá okkar skólafólki hefur verið stórkostlegt. Víða annars staðar í veröldinni hafa skólar ekki enn verið opnaðir, og ekki gert ráð yfir því fyrr en jafnvel í haust. Gæðin sem liggja í íslensku menntakerfi eru mikil og styrkurinn kom svo sannarlega fram í vor.
Verkefnið framundan er af tvennum toga. Annars vegar þarf menntakerfið að geta tekið á móti þeim mikla áhuga sem er á menntun og hins vegar þarf að skapa ný tækifæri fyrir þá sem eru án atvinnu.
Mikil aðsókn er í nám í haust og ákvað ríkisstjórnin að framhaldsskólum og háskólum yrði tryggt nægt fjármagn til að mæta eftirspurninni. Fjárveitingar verða nánar útfærðar þegar fjárþörf skólanna liggur endanlega fyrir. Áætlanir gera ráð fyrir fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi um allt að 2.000 og um 1.500 á háskólastigi. Umsóknum um háskólavist fjölgar um 23% milli ára og mikil aðsókn er í fjölbreytt starfs- og iðnnám framhaldsskólanna. Innritun nýnema yngri en 18 ára í framhaldsskóla hefur gengið vel. Aðsókn eldri nema er mest í fjölbreytt starfsnám framhaldsskólanna og unnið er að þeirri innritun í samvinnu við Menntamálastofnun. Gangi spár eftir gæti nemendum á framhaldsskólastigi fjölgað um allt að 10%. Undirbúningur hófst strax í byrjun mars og það er lofsvert hversu vel stjórnendur og kennarar í menntakerfinu hafa brugðist við.
Samhæfingarhópur um atvinnu- og menntaúrræði vinnur hörðum höndum að því að styrkja stöðu þeirra sem eru án atvinnu. Eitt brýnasta samfélagsverkefni sem við eigum nú fyrir höndum er að styrkja þennan hóp og búa til ný tækifæri. Öllu verður tjaldað til svo að staðan verði skammvinn. Samfélögum ber siðferðisleg skylda til að móta stefnu sem getur tekið á atvinnuleysi. Leggja stjórnvöld því mikla áherslu á að auka færni á íslenskum vinnumarkaði ásamt því að lágmarka félags- og efnahagslegar afleiðingar COVID-19-faraldursins. Þar er menntun eitt mikilvægasta tækið og því hefur sjaldan verið nauðsynlegra en nú að tryggja aðgengi að menntun.
Staða Íslands var sterk þegar heimsfaraldurinn skall á og því hvílir enn frekari skylda á stjórnvöldum að horfa fram á við og fjárfesta í framtíðinni. Kjarni málsins er að vita hvaða leiðir skila árangri, sem efla íslenskt samfélag til langs tíma. Brýnt er að tækifæri framtíðarinnar séu til staðar og unnið verður dag og nótt til að tryggja sem mesta verðmætasköpun í samfélaginu okkar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2020.