Categories
Greinar

Fjármálalæsi er grunnfærni

Deila grein

21/02/2018

Fjármálalæsi er grunnfærni

Fjármálalæsi er grunnfærni sem er mikilvæg samfélagi okkar. Ljóst er að gott fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum og stuðlar að fjármálastöðugleika. Markmiðið er að efla  fjármálalæsi til þess að einstaklingar séu í betri aðstöðu að meta fjárhagslegastöðu sína og taka upplýstar ákvarðanir í kjölfarið. Lífsgæði verða meiri og því er mikilvægt  að auka veg fjármálalæsis í íslenska menntakerfinu.

Nýverið tók ég því þá ákvörðun að Íslandi yrði með í valkvæðum hluta PISA-könnunarinnar árið 2021 sem snýr að fjármálalæsi. PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á vegum Efnahags- og framfærastofnunarinnar á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúrufræði og læsi á stærðfræði. Auk þessara kjarnagreina geta löndin valið um að taka þátt í nokkrum viðbótarkönnunum sem eru annað hvort í formi spurningalista eða prófs. Fjármálalæsi er eitt af þessum valkvæðu sviðum og hefur verið í boði síðan árið 2012. 15-18 lönd hafa tekið þátt í þeim hluta PISA-könnunarinnar. Tilgangur þessa hluta PISA er að meta hæfni nemenda til að beita fjármálalegri þekkingu sinni og leikni í raunverulegum aðstæðum, þar með talið að taka fjármálalegar ákvarðanir.

Það er mikilvægt að búa börnin okkar undir þátttöku í sífellt flóknari heimi, þar sem örar tæknibreytingar og breytileg neyslumynstur eru hluti af daglegi lífi fólks. Við höfum séð hraða þróun í  verslun og fjármálaþjónustu þar sem neytendum býðst að greiða fyrir vörur og þjónustu á fjölbreyttari máta en áður hefur þekkst. Með nokkrum aðgerðum í snjallsímanum geta neytendur til dæmis hækkað yfirdráttarheimildina, skipt greiðslukortagreikningnum og keypt varning með mismunandi greiðslumiðlunum. Það eru óneitanlega margvísleg þægindi sem fylgja þjónustu sem þessum en áskoranirnar eru sömuleiðis af ýmsum toga. Þægindin geta verið skammvin ef greitt aðgengi að lánsfé verður til þess að fólk steypir sér í óhóflegar skuldir umfram greiðslugetu. Ungt fólk þarf að læra að stjórna áhættu, vera í stakk búið til að gera áætlanir til framtíðar geta greint mismunandi valkosti í fjármálum. Skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum á fyrri árum æviskeiðsins geta skilað sér margfalt til baka inn í efri árin. Það er þess vegna sem ég legg jafn ríka áherslu á að prófa fjármálalæsi ungs fólks með jafn viðamiklum hætti og PISA prófin eru. Þannig fáum við líka samanburð á hvar æska okkar stendur í fjármálalæsi miðað við önnur ríki. Fjármálalæsi er mikilvæg grunnfærni í hverju þjóðfélagi og við ætlum okkur að efla þá grunnfærni.

 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Menntamálaráðherra