Categories
Greinar

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Deila grein

11/09/2015

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Elsa-Lara-mynd01-vefurHver getur ekki nefnt dæmi um einstætt foreldri á leigumarkaði sem nær ekki endum saman og ræður ekki við að borga háa leiguna eða námsmanninn sem kemst ekki inn á stúdentagarða vegna langra biðlista og leigir því herbergi úti í bæ og borgar þar himin háa leigu.

Því miður er hægt að nefna mörg önnur dæmi sama eðlis. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gerir sér grein fyrir að bregðast þarf við þessum vanda og í Fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 má sjá fyrstu aðgerðirnar í þeim efnum. Þar er gert ráð fyrir að 2,6 milljörðum króna verði varið til húsnæðismála. Þar af 1,5 milljarði í stofnframlög vegna uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði og 1,1 milljarði í húsnæðisbætur.

Nauðsynlegt er að sátt náist um þessi mikilvægu mál í þinginu og að pólitískum klækjaleikjum verði ýtt til hliðar. Sameinumst nú við þessar þörfu aðgerðir fyrir íslensk heimili.

Fjölgum leigufélögum, lækkum leiguverð
Í frumvarpi um stofnstyrki sem lagt verður fram á haustþingi, er lagður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Lögð er áhersla á að fjölga hagkvæmdum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum. Þessi framlög auk annarra aðgerða eins og auknar húsnæðisbætur og endurskoðun á byggingareglugerð, eiga að leiða til þess að einstaklingur með lágar tekjur, borgi ekki meira en 20 – 25 % af tekjum sínum í leigu.

Byggjum 2300 íbúðir á 4 árum
Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, byggt og rekið félagslegt húsnæði.

Þau verða að hafa það að langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju – og eignamörkum. Stefnt er að því að byggja 2300 íbúðir á næstu fjórum árum, þó að hámarki 600 íbúðir á ári. Í Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 eru fyrstu skrefin stigin og fjármagni veitt í stofnframlög fyrir 400 íbúðir.

Búsetuöryggi á leigumarkaði
Samkvæmt frumvarpinu verður tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum. En við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda.
Það er óhætt að segja að unnið sé í þágu heimilanna. Það höfum við gert og við höldum ótrauð áfram.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 11. september 2015.