Categories
Greinar

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Deila grein

17/02/2014

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Anna-Kolbrun-ArnadottirLengi hefur heyrst að fjölga þurfi konum í áhrifastöðum, en það má einnig spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að fullyrða að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum? Báðar þessar fyllyrðingar eru réttar, það sem helst er athugavert við fullyrðingarnar er hugtakið áhrifastaða. Samfélagið með hjálp fjölmiðla skilgreinir oftar en ekki áhrifastöður sem stöður er snúa að viðskiptalífinu.

Áhrifastöður er víða að finna í samfélaginu og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er hindrun sem erfitt er að yfirstíga og skerðir atvinnumöguleika beggja kynja. Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum. Karlar eiga ekki séns og þeir karlar sem hætta sér inn á óhefðbundinn starfsvettvang hafa margir hverjir lýst fordómum sem þeir urðu fyrir vegna starfsvalsins. Vissulega vekur þetta einnig umhugsun um hvort (fleiri) drengir í framhaldsskóla hafi hug á því að sækja inn á svið umönnunar- eða kennslu þegar í sífellu er talað um kvennastörf. Eða hvort (fleiri) stúlkur hafi vilja til þess að sækja starf í verkgreinum þegar að talað er um hefðbundin karlastörf.

Þessum skrifum er ætlað að opna augu fólks fyrir því að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi