Þingflokkur Framsóknar gengur bjartsýnn til verka á þessu hausti með samvinnu og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Flokkurinn hefur sett fjölmörg verkefni á oddinn sem mörg hver snúa að bættum hag fjölskyldna og skilvirkari þjónustu við þær. Hraðar þjóðfélagsbreytingar skapa fjölskyldum stöðugar áskoranir sem mikilvægt er að mæta af festu.
Félags- og barnamálaráðherra vinnur að umbótum á fæðingarorlofskerfinu til að auka rétt foreldra með lengingu orlofs, hækkun á mánaðarlegum hámarksgreiðslum og endurskoðun á forsendum greiðslna. Á árinu 2021 mun samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengjast úr níu í tólf mánuði. Þá munu framlög til barnabóta aukast á næsta ári þegar skerðingarmörk hækka sem þýðir að fleiri njóta barnabóta.
Nú stendur yfir víðtæk endurskoðun á málefnum barna með aðkomu þverpólitískrar þingmannanefndar, sem undirrituð leiðir, og munu fyrstu frumvörpin úr þeirri vinnu koma til þingsins í vetur. Vinnan gengur m.a. út á að tryggja betri samfellu í núverandi þjónustu og brjóta niður múra milli kerfa. Markmiðið er að fyrirbyggja vanda og tryggja að fullnægjandi þjónusta sé fyrir hendi þegar hennar er þörf, óháð efnahag. Börn eiga ekki að bíða árum saman eftir þjónustu sem skipt getur sköpun fyrir þeirra framtíð.
Heilbrigðisstefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á rætur í þingsályktun Framsóknar frá árinu 2016. Það eru sjálfsögð mannréttindi að allar fjölskyldur eigi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stöðu eða búsetu. Þá heldur vinna við róttækar breytingar í húsnæðismálum áfram og nú með sérstakri áherslu á köld svæði á landsbyggðinni.
Heildstæðar aðgerðir mennta- og menningarmálaráðherra hafa skilað sér í stóraukinni aðsókn að kennaranámi sem undirbyggir enn öflugra menntakerfi til framtíðar. Í haust verður lagt fram frumvarp sem mun umbylta lánaumhverfi námsmanna. Breytingarnar fela í sér meiri stuðning og jafnræði til náms með 30% niðurfellingu á lánum ásamt sérstökum stuðningi við barnafólk. Þessar tímamótabreytingar verða þær mestu sem gerðar hafa verið á Lánasjóði íslenskra námsmanna í 30 ár. Í vetur mun ráðherra einnig leggja fram heildstæða menntastefnu til ársins 2030 fyrir Alþingi. Framúrskarandi menntun er lykilforsenda þess að Ísland geti mætt áskorunum framtíðarinnar og skapað ný tækifæri til að efla samfélagið. Á Íslandi eiga allir að hafa jafnan aðgang að framúrskarandi menntun, því allir geta lært og allir skipta máli.
Víðtæk samvinna er nú sem áður lykillinn að árangri. Þar liggur grunnurinn að farsælu samfélagi.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2019.