Categories
Greinar

Flýtimeðferð, já takk

Deila grein

02/03/2014

Flýtimeðferð, já takk

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefÍ gær birtist frétt á vef Hagsmunasamtaka heimilanna þess efnis að Neytendastofa hafi birt ákvörðun vegna kvörtunar yfir verðtryggðu húsnæðisláni Íslandsbanka. Með ákvörðuninni eru staðfest alvarleg brot bankans á ákvæðum laga um neytendalán og um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendastofa hefur hér með staðfest að lánveitendum verðtryggðra neytendalána hafi verið með öllu óheimilt að taka mið af 0% verðbólgu við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, heildarlántökukostnaðar og framsetningu á greiðsluáætlun.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að rannsóknir Hagsmunasamtaka heimilanna á lánasamningum neytenda hafa leitt í ljós að þeir eru í flestum tilvikum, sama eðlis og má því ætla að flest ef ekki öll verðtryggð neytendalán hér á landi, þar með talin húsnæðislán, brjóti í bága við umrædd lagaákvæði. Ekki er vitað um nein tilfelli þess að lánveitendur verðtryggðra neytendalána hafi á undangengnu tímabili tekið mið af raunverulegri verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnaði.

Samkvæmt niðurstöðu Neytendastofu hefur lánveitendum því verið óheimilt að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum frá þeim tíma og af fasteignaveðlánum einstaklinga frá ársbyrjun 2001,  þegar lögin voru útvíkkuð.

Þessi niðurstaða staðfestir það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa um langa hríð vakið athygli á, að framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hér á landi hefur verið ólögleg allt frá gildistöku laga nr. 121/1994 um neytendalán, að meðtöldum fasteignaveðlánum frá og með 2001.

Í ljósi þessara niðurstaðna finnst mér mjög mikilvægt að þau mál sem eru í gangi um lögmæti verðtryggingarinnar, fái flýtimeðferð í gegnum dómskerfið. Í sumar var samþykkt á Alþingi frumvarp sem tekur einmitt til þess, að gefa fordæmisgefandi málum er tengjast skuldamálum heimilanna hraðari meðferð í gegnum kerfið.

En þar segir að lagt er til að í þeim dómsmálum þar sem ágreiningur er uppi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga, skuli hraða meðferð slíkra mála og veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum. Í því felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Það er mín persónulega skoðun að dómsmál er varða lögmæti verðtryggingarinnar af neytendalánum fái þessa flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Þá fyrst vitum við raunverulega hverju við þurfum að bregðast við.

Ég leyfi mér að enda þessa færslu á þessum orðum. Lán hafa verið dæmd ólögleg fyrir dómstólum, það getur gerst aftur.

 

Elsa Lára Arnardóttir