Categories
Greinar

Forgangsröðum í þágu velferðar

Deila grein

05/05/2015

Forgangsröðum í þágu velferðar

Elsa-Lara-mynd01-vefurFlokksþing Framsóknarflokksins fór fram um miðjan apríl. Þingið var afar vel heppnað og þátttaka félagsmanna mjög góð. Ánægjulegt var að hitta félagsmenn, sem komu víðsvegar af landinu og tóku þátt í málefnavinnu flokksins, í hinum ýmsu málefnahópum. Á þinginu kom skýrt fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,  ætti að halda sínu góða verki áfram og forgangsraða í þágu velferðar. Vert er að geta þess að í síðustu fjárlögum fór ríflega 40 % af öllum útgjöldum ríkissjóðs til velferðar – og heilbrigðismála. Má þar m.a. nefna að barnabætur hækkuðu um 1,3 milljarð, húsaleigubætur hækkuðu um 400 milljónir, útgjöld til almannatrygginga hækkuðu um 10 milljarða og 150 milljónir fóru í auknar niðurgreiðslur á lyfjakostnaði.  Auk þessa hefur aldrei jafn mikið fjármagn verið sett inn í rekstur Landspítala og framlög til reksturs heilbrigðisstofnana jukust um 2 milljarða á milli ára. Óhætt er að segja að margt hafi verið vel gert í velferðar – og heilbrigðismálum, og þannig verðum við að halda áfram. Málefnin eru mörg sem vinna þarf að og margar stórar áskoranir bíða handan við hornið. Í því samhengi getur verið afar gagnlegt að líta í skýrslu Velferðarvaktarinnar, sem skilað var til félagsmálaráðherra fyrir nokkru síðan.

Styðjum við barnafjölskyldur

Í fjárlögum fyrir árið 2015 hækkuðu barnabætur um 1,3 milljarð á milli ára. Þessi aukning skilaði sér að mestu til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, enda var það markmið hækkunarinnar. Þetta var vel gert en nauðsynlegt er að horfa fram á veginn og halda góðu verki áfram. Ef horft er til skýrslu Velferðarvaktarinnar þá kemur þar fram að mikilvægt sé að styrkja vel við tekjulágar barnafjölskyldur, með því að einfalda og efla bótakerfið sem tekur til barnafjölskyldna. Það er m.a. hægt með því að greiða ótekjutengdar barnabætur og að auki tryggja barnafjölskyldum, í formi barnatryggingar, tilgreinda lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Tillögur Velferðarvaktarinnar eru þær að stjórnvöld skipi starfshóp, til að ná fram samstöðu um þessar tillögur.

Lágmarksframfærslan, hver er hún?

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur fram að nauðsynlegt sé að stjórnvöld skilgreini lágmarksframfærsluviðmið. Því er mikilvægt að ríki og sveitarfélög, ásamt ýmsum hlutaðeigandi aðilum, vinni saman að því að ná víðtækri samstöðu um hvaða viðmið eigi að liggja að baki þegar ákvarðanir um lágmarksbætur eru teknar. Þessar tillögur hafa nokkurn samhljóm við fyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri. En það var að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis, að fela félags – og húsnæðismálaráðherra, að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni skal vinna útreikningana í samráði við hlutaðeigandi aðila, má þar m.a. nefna ríki og sveitarfélög. Lagt er til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði síðan nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Þingsályktunartillagan er nú í efnislegri meðferð inni í velferðarnefnd þingsins.

Gjaldfrjáls grunnþjónusta

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur fram að standa þurfi vörð um velferðarþjónustu og menntakerfið með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa. Á það sérstaklega við um grunnþjónustu við börn svo barnafjölskyldur standi ekki frammi fyrir óvæntum og óyfirstíganlegum útgjöldum vegna þeirra þátta. Þessi tillaga Velferðarvaktarinnar er í algjöru samræmi við ályktun flokksþings Framsóknarmanna en þar segir að standa þurfi vörð um hagsmuni barna, með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa.

Allir þurfa þak yfir höfuðið

Allir þurfa að eiga öruggt heimili og mikilvægt er að börn búið við trygg húsnæðismál til lengri tíma. Samkvæmt tillögum Velferðarvaktarinnar þarf að taka upp nýtt kerfi, húsnæðisbætur, sem hafi það að markmiði, að jafna stöðu leigjenda, búseturéttarhafa og eigenda vegna húsnæðiskostnaðar.  Afar ánægjulegt er að sjá þann samhljóm sem birtist í þessum tillögum við tillögur framsóknarmanna í húsnæðismálum.  Frumvarp þessa efnis er á þingmálaskrá félags – og húsnæðismálaráðherra. Umrætt frumvarp er nú í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og bíður niðurstöðu útreikninga. Þegar frumvarpið verður að lögum þá mun það, án efa, hafa jákvæð efnahagsleg áhrif á stuðning við þær fjölskyldur sem eru á leigumarkaði. Því er mikilvægt að málið nái fram að ganga, sem allra fyrst.

Við hljótum öll að vera sammála um að gera vel í velferðarmálum. Okkur greinir kannski á um leiðir en látum það ekki trufla okkur. Gleðjumst yfir þeim áföngum sem við höfum náð um leið og við undirbúum næstu skref, til að gera enn betur. Forgangsröðum í þágu velferðar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 5. maí 2015.