Categories
Greinar

Forysta Framsóknar

Deila grein

16/12/2016

Forysta Framsóknar

jonsig51cÍ tilefni af aldarafmæli Framsóknarflokksins hefur Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, tekið saman svipmyndir af helstu forystumönnum flokksins frá stofnun hans.

***

Forysta Framsóknar

Undir árslok 2016 er þess minnst að Framsóknarflokkurinn verður aldargamall. Að því tilefni hafa verið teknar saman stuttar svipmyndir af nokkrum helstu forystumönnum flokksins.

Þættir um formenn Framsóknarflokksins taka hér langmest rými. Auk þeirra eru hér stuttir þættir um fyrsta ráðherra flokksins og tvo aðra flokksmenn sem urðu forsætisráðherrar, annar þeirra reyndar í utanþingsstjórninni svonefndu en hún var mynduð án umboðs frá Framsóknarflokknum. Vegna samhengis eru þessir þættir teknir með þó að ýmis rök standi gegn því.

Ýmislegt kemur fram í þessum svipmyndum sem lýtur að almennri sögu flokks og þjóðar, en minnt skal á að slíkar ævimyndir einstakra manna veita að vísu sýn út á víðara svið en hafa í eðli sínu afmarkað gildi.

Aðallega er hér stuðst við rit Þórarins Þórarinssonar alþingismanns og ritstjóra og Vilhjálms Hjálmarssonar alþingismanns og ráðherra um sögu Framsóknarflokksins, Sókn og sigrar, en einnig við ritin Stjórnarráð Íslands eftir Agnar Kl. Jónsson og Forsætisráðherrar Íslands, svo og við Alþingismannatal 1845-1995, Kennaratal og ritið Ísland á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson. Þá er stuðst við bækling Þorsteins M. Jónssonar skólastjóra og alþingismanns, Stofnsaga Framsóknarflokksins, nokkur önnur minningarit, ævisögur og sjálfsævisögur, svo og við ritgerð Þórhalls Ásgeirssonar um fyrsta skeið Framsóknarflokksins. Nokkrar aðrar heimildir, höfundar og heimildarmenn eru nefnd sérstaklega þar sem við á. Um nokkra þætti hefur verið leitað til nákominna ættingja um upplýsingar og matsatriði. Auk þess lásu nokkrir langreyndir og kunnugir Framsóknarmenn þættina yfir, veittu ráðgjöf og leiðréttingar. En höfundur ber auðvitað einn alla ábyrgð á frásögu, efnismeðferð, mati og ályktunum.

Tveir síðustu þættirnir, um Steingrím Hermannsson og Halldór Ásgrímsson, eru nokkurs konar fyrsta ágrip enda svo skammt liðið frá atburðum að um eiginlegt mat verður varla að ræða.

 

olafur-briem            I           Ólafur Briem

Ólafur Briem (28. janúar 1851 – 19. maí 1925) var aldursforseti þeirra alþingismanna sem stofnuðu Framsóknarflokkinn og fyrsti formaður flokksins. Fyrsta bókaða fundargerð flokksins er frá 16. desember 1916 og er það talinn stofndagur flokksins. Formannskjör fór fram þremur dögum síðar, 19. desember.

Að hætti þessa tíma var Framsóknarflokkurinn fyrstu árin aðeins þingflokkur. Þingflokkurinn hafði ýmis tengsl við aðra aðila, en mest var það þá persónuleg kynni og önnur störf þingmannanna. Þingmennska var aðeins hlutastarf á þessum tíma og lengi síðan. Þingmennirnir sem stofnuðu Framsóknarflokkinn höfðu setið um mislangt skeið á Alþingi og höfðu tekið meiri eða minni þátt í stjórnmálasamtökum áður. Stofnendurnir á Alþingi voru bændur og kennarar af Norður- og Austurlandi og úr Reykjavík. Þeir höfðu einkum tengsl við samtök í landbúnaði og fiskveiðum, svo sem Búnaðarfélag Íslands, og við kaupfélögin og Samband íslenskra samvinnufélaga, en kaupfélögin voru víða að rísa á legg á þessum tíma. Kaupfélögin voru alhliða þróunar- og framtakssjóðir í hverju héraði og lögðu víða grunn að markaðskerfi. Mikill hluti þjóðarinnar bjó í sveitum og sjávarþorpum. Rísandi stétt sjálfseignarbænda lét til sín taka og ungmennafélögin hrifu ungu kynslóðina.

Framsóknarflokkurinn á sér rætur í almannasamtökum víða um landið. Í aðdraganda flokksins hafði verið efnt til framboða sem kenndu sig við bændur og til Þingvallafundar, en hins vegar voru engin eiginleg flokksfélög stofnuð fyrr en rúmum áratug síðar. Frá byrjun stefndu flokksmenn að því að skírskota til kjósenda sem víðast á miðju stjórnmálanna en ekki aðeins til bænda og búaliðs. Aðrir áhugamenn um málefni flokksins voru ekki síst hópur sem kallaður var Tímamenn og stóðu að útgáfu blaðsins Tímans.

Framsóknarflokkurinn var hluti þeirrar öldu sjálfstæðis- og þjóðerniskenndar sem ungmennafélögin báru fram um land allt. Þetta kemur skýrt fram í fyrstu stefnuskrá flokksins, meðal annars um sjálfstæðismál og í banka- og peningamálum, menntamálum og í atvinnu-, orku- og verslunarmálum. Lýst er þjóðernislegri framfarastefnu með félagslegum úrræðum, samvinnustefnu og áherslu á skóla, innviði og verklegar framkvæmdir fyrir atvinnulíf og byggðir. Ennfremur segir þar að flokkurinn vilji aftra illvígum deilum en stuðla að heiðarlegu landsmálastarfi.

Þjóðræknisviðhorf Framsóknarmanna eru mótuð af þjóðfrelsisbaráttu og vakningu Íslendinga. Ungmennafélögin voru bein og viðurkennd fyrirmynd og undirrót. Hugmyndir þeirra voru mótaðar af áhrifum frá lýðskólahreyfingunni, að hluta frá danska menningarfrömuðinum og skáldinu Frederik Grundtvig og með rætur í þjóðernishyggju evrópskra smáþjóða. Kaupfélögin voru stofnuð og efldust í þessum sama anda. Þessi þjóðhyggja er frjálshuga (nationalliberal), hófsöm og kristin. Framsóknarmenn hafa jafnan kallað hana ,,hugsjónir ungmennafélaganna”. Á 4. áratugnum varð aldrei neinn misskilningur um muninn á þjóðhyggju Framsóknarmanna og kenningum þjóðernisöfgamanna.

Ólafur Briem var sonarsonur Gunnlaugs Briem sýslumanns Eyfirðinga. Í þeim frændgarði voru meðal annarra Tryggvi Gunnarsson kaupstjóri, bankastjóri og alþingismaður, Hannes Hafstein ráðherra og Páll Briem amtmaður. Ólafur var fæddur að Espihóli í Eyjafirði. Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg Eiríksdóttir sem var Fljótshlíðingur og Eggert Briem sýslumaður, en hann var þjóðfundarmaður 1851. Ólafur var kvæntur Halldóru Pétursdóttur frá Álfgeirsvöllum í Skagafirði. Þau áttu tvö börn.

Ólafur varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík 1870. Hann var bóndi í Skagafirði frá 1885 og bjó á Álfgeirsvöllum á Efribyggð 1887-1920 og var oddviti sveitarinnar. Hann var umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða á árunum 1888-1920 og settur sýslumaður nokkrum sinnum. Ólafur var stjórnarformaður Sambands íslenskra samvinnufélaga SÍS á árunum 1920-1925. Eftir að hann lét af þingmennsku var hann starfsmaður Fjármálaráðuneytisins í Reykjavík.

Ólafur Briem var alþingismaður Skagfirðinga 1886-1919. Hann var forseti Alþingis 1895 og forseti neðri deildar árin 1914-1919. Hann var formaður Framsóknarflokksins 1916 til 1919 þegar hann ákvað að hverfa af Alþingi.

Ólafur Briem var hálfsjötugur þegar hann tók við formennsku í þessum nýja þingflokki. Hann naut virðingar og stuðnings allra annarra þingmanna flokksins meðan hann vildi gegna þessu starfi. Þorsteinn M. Jónsson skólastjóri á Akureyri var meðal stofnenda flokksins. Hann lýsir Ólafi svo: ,,Hann var hógvær, varfærinn, prúðmenni og snyrtimenni.” Ólafur blandaði sér lítt í deilur og lét menn stundum bíða eftir ákvörðun sinni, en Þorsteinn segir að hann mælti síðan ,,með svo skýrum rökum að erfitt var flestum að andmæla honum”.

 

sigurdur-jonsson            II         Sigurður Jónsson

Sigurður Jónsson (28. janúar 1852 – 16. janúar 1926) var fyrsti ráðherrann úr röðum Framsóknarmanna og einn stofnenda flokksins. Sigurður var landskjörinn alþingismaður 1916 til 1926. Hann var atvinnu- og samgöngumálaráðherra 4. janúar 1917 til 25. febrúar 1920.

Sigurður Jónsson fæddist á Litlu-Strönd við Mývatn en ólst upp í Ystafelli í Köldukinn og var bústjóri þar frá fermingaraldri og síðan bóndi þar 1889-1917. Foreldrar hans voru hjónin Þuríður Helgadóttir og Jón Árnason á Skútustöðum. Sigurður var kvæntur Kristbjörgu Marteinsdóttur úr Bárðardal og áttu þau sex börn. Með bústörfum annaðist Sigurður kennslustörf og hélt unglingaskóla. Á árunum 1911-1915 ferðaðist hann um víða og flutti fyrirlestra um samvinnumál. Sigurður var oddviti og sýslunefndarmaður. Að loknu ráðherrastarfi tók hann aftur við búi í Ystafelli.

Það vakti í fyrstu kurr meðal sumra áhrifamanna í höfuðstaðnum að bóndi án skólagöngu yrði ráðherra. Málefni Sigurðar í ríkisstjórninni voru vandasöm og sumar aðgerðir hans sættu harðri gagnrýni kaupmanna í Reykjavík, en þeir Jón Magnússon forsætisráðherra stóðu þétt saman. Miklir erfiðleikar og vöruskortur steðjuðu að vegna heimsstyrjaldarinnar og sættu Íslendingar afarkostum Breta varðandi skipastól, siglingu, útflutningsverð og öll viðskipti. Ríkisstjórnin gekkst vegna þessa fyrir stofnun Landsverslunar til að sjá um aðdrætti, vörubirgðir, dreifingu og verðlag. Landsverslunin leitaði víða til nýstofnaðra kaupfélaga um samstarf og varð þeim þannig lyftistöng. Einnig beitti ríkisstjórnin sér fyrir eflingu Landsbanka Íslands, en Íslandsbanki var í eigu útlendinga og hafði ratað í erfiðleika. Eitt helsta stefnumið stjórnarinnar var fullveldi þjóðarinnar og þeim áfanga náðu Íslendingar 1. desember 1918.

Sigurður Jónsson var jafnan prúðmannlegur í málflutningi. Þorsteinn M. Jónsson segir um Sigurð að ,,hann sagði vel frá og var jafnan glaður og reifur … samvinnuþýður, höfðinglegur og hið mesta prúðmenni í framkomu.”

 

 sveinn-olafsson           III         Sveinn Ólafsson

Sveinn Ólafsson (11. febrúar 1863 – 20. júlí 1949) tók við formennsku fyrir Framsóknarflokknum á Alþingi þegar Ólafur Briem lét af þingmennsku. Sveinn var formaður 1920 – 1922. Hann lét af formennsku að eigin ósk og þrátt fyrir eindregin tilmæli samflokksmanna að hann héldi áfram. Hann var mjög frábitinn því að hafa forystu með höndum eða að sækjast eftir nokkru slíku.

Sveinn var fæddur í Firði í Mjóafirði í Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Katrín Sveinsdóttir sem var úr Norðfirði og Ólafur Guðmundsson bóndi í Firði, ættaður úr Fellum. Sveinn var fyrst kvæntur Kristbjörgu Sigurðardóttur sem var úr Suður-Þingeyjarsýslu, en missti hana og kvæntist síðar Önnu Þorsteinsdóttur frá Eydölum. Sveinn átti þrjú börn.

Sveinn Ólafsson var gagnfræðingur frá Möðruvallaskóla og stundaði nám á lýðháskólum í Noregi. Framhaldsnám sótti hann í kennaraskóla í Kaupmannahöfn. Sveinn var kennari í Mjóafirði 1884-1913. Hann var bóndi í Mjóafirði frá 1887 og á jörðinni í Firði 1901-1949. Þar eystra bjuggu margir bændur með landbúskap og útræði nokkuð jöfnum höndum. Sveinn var verslunarstjóri á Borgarfirði eystra 1899-1901, umboðsmaður Múlasýslujarða um skeið og vann við Íslandsdeild Norðurlandasýningar á Englandi 1886.

Sveinn Ólafsson var alþingismaður Sunnmýlinga 1916-1933. Hann var oftar en einu sinni beðinn að taka að sér ráðherraembætti en hafnaði því jafnan.

Sveinn í Firði varð kunnur fyrir blaðagreinar um þjóðmál og framfarir. Þorsteinn M. Jónsson skólastjóri sat með honum á alþingi og kynntist honum vel. Hann segir um Svein: ,,einhver best menntaði bóndi sinnar samtíðar … talaði afburðagott mál … kjarkmikill, hreinlyndur”. En Þorsteinn bætir því við að Sveini ,,… þótti Alþingi vera bruðlunarsamt”, og fyrir kom að hann greiddi einn atkvæði gegn fjárveitingatillögum ef honum þótti of frjálslega farið með fé almennings.

 

thorleifur-jonsson            IV        Þorleifur Jónsson

Þorleifur Jónsson (21. ágúst 1864 – 18. júní 1956) var þriðji formaður Framsóknarflokksins á Alþingi. Hann naut mikillar virðingar í flokknum sem utan hans. Þorsteinn M. Jónsson samþingsmaður hans og flokksbróðir segir um Þorleif að hann var ,,ljúfmenni, vinsæll … frjálslyndur og víðsýnn í skoðunum”. Hann vék úr formennsku að eigin frumkvæði þegar Tryggvi Þórhallsson var orðinn forsætisráðherra Framsóknarflokksins.

Þorleifur var fæddur í Hólum í Hornafirði. Foreldrar hans voru hjónin Þórunn Þorleifsdóttir frá Hólum og Jón Jónsson bóndi í Hólum en hann var frá Hofi í Álftafirði. Þorleifur var kvæntur Sigurborgu Sigurðardóttur sem var úr Nesjum. Þau áttu tíu börn.

Þorleifur stundaði nám á Möðruvöllum og var um skeið ráðsmaður hjá móður sinni í Hólum og kennari í sveitinni. Hann var bóndi í Hólum 1890-1935 og átti þar heima til dauðadags 1956. Þorleifur var hreppstjóri og gegndi oft sýslumannsstörfum um skeið.

Þorleifur Jónsson var alþingismaður Austur-Skaftfellinga 1908-1934. Hann fór í framboð sem andstæðingur Uppkastsins fræga, vann frækilegan kosningasigur og var ósigrandi síðan í kjördæminu meðan hann gaf kost á sér. Þorleifur var formaður Framsóknarflokksins á árunum 1922-1928. Þessi ár voru mikill uppgangstími flokksins, og á þessum tíma tók flokkurinn á sig fyrstu mynd sem stjórnmálasamtök í nútímaskilningi.

 

tryggvi-thorhallsson            V         Tryggvi Þórhallsson

Séra Tryggvi Þórhallssson (9. febrúar 1889 – 31. júlí 1935) var fyrsti forsætisráðherra úr röðum Framsóknarmanna. Andrés Kristjánsson fræðslustjóri komst svo að orði að Tryggvi hafi verið ,,mótunarmaður” Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Tryggvi var glæsilegur leiðtogi þjóðarinnar á Alþingishátíðinni 1930, en þá má segja að Íslendingar hafi fyrst komið fram sem fullvalda þjóð meðal þjóða. Í ræðu sinni þá sagði hann meðal annars að ,,við Íslendingar munum og finna til meiri máttar í sjálfum okkur er við nú hefjum nýja þúsund ára sögu Íslands”.

Tryggvi Þórhallsson var fæddur í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Valgerður Jónsdóttir úr Bárðardal, en hún var fósturdóttir Tryggva Gunnarssonar kaupstjóra, bankastjóra og alþingismanns, sem var frá Laufási við Eyjafjörð, og séra Þórhallur Bjarnarson Prestaskólastjóri, alþingismaður og biskup, sem líka var frá Laufási við Eyjafjörð. Tryggvi var kvæntur Önnu Guðrúnu Klemensdóttur landritara, alþingismanns og ráðherra Jónssonar, úr Eyjafirði. Þau áttu sjö börn. Dóra, systir Tryggva, var eiginkona Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta Alþingis, forsætisráðherra og forseta Íslands.

Tryggvi Gunnarsson var dóttursonur Gunnlaugs Briem á Grund í Eyjafirði og móðurbróðir Hannesar Hafstein ráðherra og skálds. Þeir séra Þórhallur og Tryggvi Gunnarsson voru meðal síðustu náinna fylgismanna Jóns forseta Sigurðssonar og heimagangar hjá honum, og Tryggvi annaðist um heimflutning líkamsleifa þeirra hjóna Ingibjargar og Jóns eftir þeirra dag, keypti dánarbúið og flutti hingað heim. Séra Þórhallur var mjög víðsýnn, umburðarlyndur og framtakssamur. Hann var meðal annars áhugamaður um búskap og hélt stórbýli að Laufási við Laufásveg í Reykjavík. Hann var formaður Búnaðarfélags Íslands 1901-1907. Hann hafði orðið fyrir áhrifum frá danska menningarfrömuðinum Frederik Grundtvig og átti mikinn hlut að því að breyta konungskirkjunni í þjóðkirkju Íslendinga.

Á árunum 1905-1907 gekkst Þórhallur fyrir löggjöf um sölu konungs- og kirkjujarða, um endurnýjun tekjustofna kirkjunnar og síðan margháttaða aðstoð við unga sjálfseignarbændur. Þessi löggjöf skóp íslensku sjálfseignarbændastéttina og er ein þeirra samfélagsbyltinga sem hafa reynst farsælar í sögunni. Við þetta mótuðust viðhorf framleiðsluaukningar, bjartsýni, framfarahugar og þjóðrækni og voru ráðandi fram á 4. áratug aldarinnar og reyndar lengur.

Tryggvi Þórhallsson lauk guðfræðiprófi 1912 og starfaði síðan um stutt skeið sem biskupsritari. Hann vígðist að Hesti í Borgarfirði 1913 og þjónaði þar til 1917. Séra Tryggvi var innblásinn ungmennafélagi, formaður Ungmennafélags Reykjavíkur og í ritnefnd Skinfaxa. Árið 1916 var hann settur dósent við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Samkeppnispróf fór síðan fram 1917 og hlaut annar umsækjandi þá embættið.

Síðla árs 1917 gerðist séra Tryggvi ritstjóri Tímans sem þá hafði nýlega hafið göngu sína. Hann var ritstjóri til ársins 1927. Hann leiddi stjórnarandstæðinga á árunum fyrir stjórnarskiptin 1927, en þá var í skilningi nútíma þingræðis fyrsta flokksleg stjórnarandstaða á Íslandi gegn flokkslegri ríkisstjórn. Á þessum árum hljómuðu víða kjörorð Tryggva: ,,Allt er betra en íhaldið”. Hann var kjörinn alþingismaður Strandamanna 1923 eftir frægan kosningasigur og sat á Alþingi til 1934. Tryggvi var formaður flokksins 1927-1932, en þá sagði hann af sér. Hann vék nokkru síðar úr flokknum og gekk til liðs við Bændaflokkinn sem þá klofnaði út úr Framsóknarflokknum.

Hugarheimur og stjórnmálahugsun séra Tryggva Þórhallssonar mótaðist auðvitað af þeim viðhorfum og væntingum sem ríktu á æviárum hans. Á þessum tíma var staða landbúnaðarins, sveita- og þorpasamfélagsins, alltönnur en síðar varð. Íbúar í sveitum og minnstu sjávarþorpum voru tæpur helmingur þjóðarinnar 1925 og tæp 40% landsmanna árið 1934. Á árunum 1925-1934 fjölgaði landsmönnum um 15%, þannig að bein mannfækkun í sveitunum varð miklu minni á þessum tíma. Ung stétt sjálfseignarbænda var fyrirferðarmikil í forystu samfélagsins. Býlin voru að mestu leyti sjálfbær, en fyrir utan innanlandsmarkað voru búvörur á þessum tíma um 16% af verðmæti útflutnings frá Íslandi.

Á árunum fyrir heimskreppuna ríkti mikil bjartsýni um framtíð landbúnaðarins, og í upphafi kreppunnar sáu menn það helst úrræði fyrir bágstadda þéttbýlisbúa að hefja búrekstur og útræði. Víða um land voru búskapur og útræði alveg samþætt. Og ungmennafélögin hrifu ungu kynslóðina hvarvetna með sér í þjóðrækni og metnaði á þessum árum. Menn sáu alls ekki fyrir þá miklu framleiðsluaukningu sem bylting í vélvæðingu og rafvæðing átti eftir að valda. Og engan óraði fyrir sérgreiningu og markaðsvæðingu landbúnaðarins eða þeirri algeru umbyltingu landsbyggðarinnar sem einkennir nútímann og allir telja sjálfsagt mál nú.

Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra frá ágúst 1927 til júní 1932. Jafnframt var hann atvinnu- og samgöngumálaráðherra. Ríkisstjórnina skipuðu þrír Framsóknarmenn, en Alþýðuflokkurinn veitti henni lengst af stuðning á Alþingi. Þessir flokkar báðir vildu beita ríkisvaldinu í myndarlegum verklegum framkvæmdum og einnig í margháttuðum samfélagsbreytingum. Ríkisstjórnin var mjög framtakssöm. Mörg mál voru borin fram og verulegar framfarir urðu á vettvangi atvinnumála, ekki síst í landbúnaði og afurðavinnslu, í vega-, brúa- og hafnamálum, strandsiglingum, símalagningu og vélvæðingu. Unnið var meðal annars að Landspítala, eflingu Landhelgisgæslu, byggingu Þjóðleikhúss, stofnun útvarps, berklavörnum og héraðsskólum, gagnfræðaskólum og húsmæðraskólum um land allt. Miklar deilur urðu um málefni Íslandsbanka sem riðaði til falls, en í stað hans var Útvegsbanki stofnaður og Búnaðarbanki hóf störf, en ríkisvaldið tók sér forræði fyrir fjármálamarkaðinum. Lokaskeið stjórnarinnar mótaðist af verðfallinu við upphaf heimskreppunnar. Á Alþingishátíðinni undirritaði Tryggvi fyrsta milliríkjasamning Íslendinga.

Framsóknarmenn og jafnaðarmenn áttu samleið um margvísleg umbótamál, en þeir gátu engan veginn náð saman um að leiðrétta misvægi atkvæða og kjördæmaskipan. Framsóknarmenn litu svo á að hver byggð eða hérað skyldi eiga sinn rétt til sætis á Alþingi. Þetta skipti þá meira máli en mannfjöldi á hverju svæði. Jafnaðarmenn höfðu annarra hagsmuna að gæta, og þeir litu svo á að atkvæðisréttur allra kjósenda ætti yfirleitt að vera sem jafnastur. Upp úr þessum ágreiningi kom vantrauststillaga á ríkisstjórnina, en Tryggvi svaraði henni með skyndilegu þingrofi 14. apríl 1931. Lögfræðinga greindi fyrst á um lögmæti þingrofsins, en sammæli hefur orðið að það stóðst, einkum eftir úrslit kosninganna á eftir.

Miklar æsingar urðu á götum úti við þingrofið og var dögum saman setið um heimili þeirra Önnu og Tryggva í miðborg Reykjavíkur. Óeirðirnar og fjandskapur sem börn þeirra urðu fyrir urðu varanlegt áfall í fjölskyldunni, og eftir á var vitað að þetta tók mjög á heilsu Tryggva. Hann var ferða- og fundaglaður maður, mælskumaður mikill og mannblendinn í besta lagi, glaðsinna og alþýðlegur með höfðinglegu yfirbragði. Tryggvi naut mikillar aðdáunar í Framsóknarflokknum, og þeir Laufás-mágarnir Tryggvi og Ásgeir réðu yfirleitt því sem þeir vildu í flokknum. Tryggvi hafði mjög nána samvinnu við Jónas Jónsson frá Hriflu á ritstjóraárum sínum, og þeir störfuðu einnig þétt saman í ríkisstjórninni. Hömlulitlar blaðadeilur og skammir á fundum voru þjóðarósiður á þessum árum og Tryggvi fékk sinn skammt rækilega úti látinn.

Framsóknarflokkurinn efldist mjög á þessum árum. Árið 1919 hlaut hann 13,3% atkvæða, 1927 29,8%, 1931 35,9% og meirihluta á Alþingi, en 1933 23,9% og 1934 21,9% eftir klofning flokksins. Framan af var Framsóknarflokkurinn aðeins lítt formlegur þingflokkur, og utan Alþingis gætti þá mjög hóps sem kallaður var Tímamenn. Eftir að þeir Tryggvi og Jónas voru kjörnir til þings runnu þessir straumar saman að mestu. Í Tímanum 5. janúar 1918 birtist þessi skilgreining: ,,Flokkur Tímans … er það sem í útlöndum er nefnt vinstrimannaflokkur.”

Efnt var til flokksþings 1931 og aftur vorið 1933. Þá hafði Jónas Jónsson með nýrri kynslóð náð undirtökum í samtökum Framsóknarmanna. Þá sat að völdum samstjórn Framsóknarmanna með Sjálfstæðisflokknum undir forsæti Framsóknarmannsins Ásgeirs Ásgeirssonar. Jónas krafðist þess að flokkurinn hyrfi frá stuðningi við stjórnina en hæfi samstarf við Alþýðuflokkinn. Tryggvi taldi allt of hart fram gengið, en gat ekki vegna veikinda beitt sér til sátta eins og hann hefði ella viljað. Tveir þingmenn flokksins neituðu að beygja sig fyrir flokkssamþykktum og var vikið úr flokknum.

Tryggvi taldi hér drengskap brugðið og of langt gengið í skerðingu á sjálfræði og ábyrgð alþingismanna. Hann stóð við orð sín og gekk sjálfur úr flokknum með þeim brottreknu. Nokkru áður hafði hann tekið þátt í stofnun málgagns sem hét ,,Framsókn”. Stofnaður var Bændaflokkur og var Tryggvi kjörinn formaður hans. Hann leiddi þann flokk síðan 1933-1935. Tilraunin með Bændaflokkinn mistókst og Tryggvi féll fársjúkur í kosningunum 1934. Ungur mótframbjóðandi Framsóknarflokksins í kjördæminu, Hermann Jónasson, vakti hrifningu og boðskapur hans um samstarf vinnandi stétta í kreppunni hreif. Til þess var tekið að Tryggvi tók ósigrinum vel og óskaði sigurvegaranum allra heilla.

Tryggvi Þórhallsson var formaður Búnaðarfélags Íslands frá 1925 til dauðadags 1935. Hann var formaður Kreppulánasjóðs frá 1933 og til dauðadags. Það var viðamikið og mjög slítandi verkefni, en að mestu lokið áður en Tryggvi lést. Og hann var aðalbankastjóri Búnaðarbanka Íslands 1932 og til dauðadags.

Tryggvi Þórhallsson þjáðist mjög af skeifugarnarsári allt frá 1927, en á þessum tíma kunnu menn lítt við slíku að gera. Miklar ferðir hans í störfum, annríki, umsvif og margháttuð samskipti urðu honum smám saman æ þyngri vegna magasársins. Síðustu tvö árin versnaði honum mjög. Hann gekkst loks undir uppskurð, fjörutíu og sex ára að aldri, en hjartað bilaði.

Tryggvi þótti traustvekjandi og gunnreifur málafylgjumaður. Hann var ákaflega vinsæll og eftir dag hans lifðu góðar endurminningar um hann. Hann var áhugasamur sagnfræðingur og orð fór af þekkingu hans á Sturlungu. Hann skrifaði merk rit um Gissur Einarsson siðbótarbiskup og um ættir Strandamanna. Hann var léttur í lund og skörulegur í framgöngu, ljúfmannlegur og mannasættir. Hann þurfti oft að fara langar ferðir til að miðla málum þegar erfitt var um niðurstöðu um framboð í kjördæmunum. Tryggvi var alla ævi bindindismaður.

Tryggvi Þórhallsson þótti hneigður til mildi og sátta. Jón Baldvinsson forseti Alþýðusambandsins og leiðtogi jafnaðarmanna kallaði Tryggva ,,einn hinn mesta drengskaparmann, er ég hefi kynnzt.”

 

asgeir-asgeirsson            VI        Ásgeir Ásgeirsson

Ásgeir Ásgeirsson (13. maí 1894 – 15. september 1972) var sem forsætisráðherra 1932 til 1934 jafnframt formaður Framsóknarflokksins 1932-1933, en þá fylgdust þessi hlutverk að. Ásgeir var líklega eitthvert mesta glæsimenni, vinsælda- og veraldarmaður íslenskra stjórnmála á 20. öld og sannkallaður hefðarmaður í mörgum skilningi. Hann var forseti Alþingis á Alþingishátíðinni 1930 og heillaði alla með framkomu sinni, reisn, ljúfmennsku og glæsimennsku, jafnt Íslendinga sem tigna erlenda gesti. Hann varð forsætisráðherra, háttsettur embættismaður og loks þjóðkjörinn forseti Íslands.

Ásgeir fæddist í Kóranesi á Mýrum. Foreldrar hans voru hjónin Jensína Björg Matthíasdóttir og Ásgeir Eyþórsson kaupmaður þar og síðar bókhaldari í Reykjavík. Þau voru bæði úr Reykjavík. Ásgeir var kvæntur Dóru Þórhallsdóttur biskups Bjarnarsonar, systur séra Tryggva forsætisráðherra. Þau Dóra áttu son og tvær dætur.

Ásgeir lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1915 og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn og Uppsölum 1916-1917. Hann var biskupsritari, bankastarfsmaður og kennari og varð fræðslumálastjóri 1926.

Ásgeir Ásgeirsson var alþingismaður Vestur-Ísfirðinga 1923 – 1952. Hann var forseti Alþingis 1930-1931. Sumarið 1931 varð hann fjármálaráðherra, sumarið 1932 forsætis- og fjármálaráðherra og gegndi því starfi til sumarsins 1934. Þá tók hann aftur við embætti fræðslumálastjóra, enda var þingmennska aðeins hlutastarf á þessum tíma. Árið 1938 varð hann bankastjóri við Útvegsbankann og starfaði þar til sumars 1952. Þá var hann kjörinn forseti Íslands, settist að á Bessastöðum á Álftanesi og gegndi forsetaembættinu sjálfkjörinn allt til 1968. Þau hjón þóttu framúrskarandi fulltrúar ungs lýðveldis meðal þjóðanna.

Ásgeir tók afstöðu í trú- og kirkjumálaumræðum samtíðar sinnar og vildi beita sér fyrir umburðarlyndi og nýjum opnum viðhorfum til uppeldismála. Hann ritaði meðal annars bæklinginn ,,Kver og kirkja” sem út kom 1925 en þar mælti hann með nýjum fræðsluaðferðum og frjálslyndi. Ásgeir varð snemma kunnur að hófsemi, tillitssemi og kurteisi í öllum samskiptum. Sumir höfðu það á móti honum að hann hafði ævinlega hefðarbrag á sér og var stundum kallaður ,,heiðursfélagi í Sjálfstæðisflokknum”. Hann leiddi ákafadeilur alveg hjá sér og greip aldrei til hæpinna bragða í umræðum. En hann varð kunnur að kurteislegum og hljóðlátum viðbrögðum á fundi, velti vöngum og læddi út úr sér svari sem setti andstæðing alveg út af laginu, lét suma missa stjórn á sér í bræði og kom öðrum til að kíma eða hlæja.

Innan Framsóknarflokksins tók Ásgeir Ásgeirsson sér stöðu með mági sínum Tryggva, og nutu þeir lengi yfirburðastöðu innan flokksins. Sem forsætisráðherra beitti Ásgeir sér fyrir jafnvægisstefnu í fjármálum og efnahagsmálum og náði árangri við erfið skilyrði í samstarfi við Sjálfstæðismenn. Aftur og aftur lenti þeim saman Ásgeiri og Jónasi Jónssyni frá Hriflu, og urðu af því fáleikar sem versnuðu með tímanum. Mennirnir voru svo ólíkir að það gneistaði kalt á milli þeirra. Jónas taldi að Ásgeir hefði tekið þátt í aðför að sér, en það var misskilningur. Læknar sem hugðust koma rothöggi á Jónas létu Ásgeir vita af málinu á síðustu stundu en hann réð eindregið frá og átti ekki þátt í þessu. En Ásgeir hlaut að taka á móti gagnrýni og árásum Jónasar þegar hann var sjálfur orðinn skotspónn sem forsætisráðherra. Ásgeir lærði á Jónas og átti það til að skemma alveg fyrir Jónasi á fundum, með hlýlegum ummælum og stríðniblandinni gamansemi.

Ásgeir Ásgeirsson fór ekki varhluta af öfund og andúð frekar en aðrir. Um hann var sagt að hann væri eins og vindurinn: ,,enginn veit hvaðan hann kemur eða hvert hann fer”. Það átti fyrir Ásgeiri að liggja að yfirgefa Framsóknarflokkinn um leið og hann hvarf af stóli forsætisráðherra. Hann var fyrst utan flokka enda ekki forsendur í kjördæmi hans fyrir Bændaflokkinn. Hann var þá ásakaður um að halda sínu en skilja samherjana eftir. Hann átti meðal annars hægrisinnaða stuðningsmenn í kjördæminu og þegar hann skipti um flokk og spurði þá um stuðning, sagði einn þeirra: ,,Jú, jú, ætli ég fylgi þér ekki allan hringinn”. Síðar gerði hann málefnasamning við Alþýðuflokkinn. Sagt var að þegar hann fór fyrst í kosningar á vegum Alþýðuflokksins hafi einn dyggur stuðningsmaður sagt honum að nú gæti hann ekki fylgt honum áfram því að ,,bolsana” vildi hann ekki kjósa. Ásgeir lét sem ekkert væri og spjallaði góða stund um heima og geima. Að því loknu fer Ásgeir að tala um hákarlalegur sem þessi kjósandi hafði stundað sem ungur maður. Öldungurinn færðist í aukana. Þá spyr Ásgeir allt í einu: ,,En hvernig var það? Skiptuð þið ekki aflanum alltaf jafnt á hákarlinum?” Öldungurinn leit á Ásgeir: ,,Jú, ég fylgi þér áfram”.

Ásgeir Ásgeirsson fór fyrirlestraferð um Bandaríki Norður-Ameríku árið 1935 og kynnti sér margt í þeirri ferð. Hann var formaður gengisnefndar 1927-1935 og í gjaldeyriskaupanefnd 1941-1944. Hann var í viðskiptanefnd við Bandaríkin 1941, í samninganefnd utanríkisviðskipta, fulltrúi í sendinefnd Íslands á fjármálaráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna í Bretton Woods í Bandaríkjunum 1944, og síðar í viðskiptanefnd við Stóra-Bretland og fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1946-1952. Ásgeir var mjög víðlesinn maður um margvísleg efni. Hann varð til dæmis mjög vel að sér um hagfræðileg efni og hagfræðikenningar, fjármál og bankamál og um alþjóðaviðskipti og gjaldeyrismál. Telja verður að Ásgeir hafi á stríðsárunum lagt grunninn að tilhögun nútíma-utanríkisviðskipta og einnig að íslenskri öryggis- og varnamálastefnu ásamt þeim Sveini Björnssyni ríkisstjóra og síðar fyrsta forseta Íslands og Vilhjálmi Þór sem fyrst var viðskiptafulltrúi Íslands vestan hafs og síðar utanríkisráðherra og seðlabankastjóri.

Ásgeir naut yfirburðavinsælda og stuðnings í kjördæmi sínu. Fylgi við hann varð mjög snemma alveg persónulegt og hafið yfir flokkadrætti enda hegðaði hann framkomu sinni og málflutningi í samræmi við það. Það er enn til marks um áhrif og vinsældir Ásgeirs Ásgeirssonar að hann náði kjöri sem forseti Íslands 1952. Vitað er að margir Framsóknarmenn kusu Ásgeir þá, og var sagt að ,,nú tekur til Laufástryggða” eins og Guðbrandur Magnússon, gamall forystumaður í flokknum, komst að orði og vísaði þá til fjölskyldu Þórhalls Bjarnarsonar biskups í Laufási í Reykjavík. Stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, höfðu tekið þá sameiginlegu ákvörðun að styðja séra Bjarna Jónsson dómkirkjuprest, ástsælan og virtan kennimann, og helstu leiðtogar flokkanna gengu fram fyrir skjöldu í kosningabaráttunni. En þegar til átti að taka átti Ásgeir svo marga vini og velunnara meðal Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna að fylkingarnar riðluðust og hann var kjörinn.

Eitt síðasta stjórnmálaverk Ásgeirs Ásgeirssonar var myndun ,,Viðreisnarstjórnarinnar” 1959. Kunnugum ber saman um að hann tók þá frumkvæði beint og persónulega og kom stjórnarmynduninni sjálfur til leiðar. Framsóknarmönnum féll þetta afarþungt og kunnu honum litlar þakkir fyrir. Þeir höfðu þá lagt áherslu á að ná breiðu samstarfi um róttækar breytingar út úr kerfi fjölgengis, uppbóta og millifærslna, í anda ,,Umbótabandalags” Framsóknar og Alþýðuflokks. Ásgeir sá að þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var öruggari og nægði í þingræðiskerfinu, en mun einnig hafa haft í huga að þessir flokkar tveir voru einhuga í stuðningi við óbreyttan varnasamning við Bandaríkjamenn.

Ásgeir Ásgeirsson var óvenjulega snjall og glæsilegur fyrirmaður að hætti sinnar tíðar. Margir tortryggðu hann að sama skapi. Hann var umburðarlyndur og hófsamur miðjumaður. Ásgeir var dáður og vinsæll þjóðhöfðingi. Sem stjórnmálamaður, málamiðlari og samningamaður og líka sem fulltrúi þjóðarinnar á alþjóðavettvangi á Ásgeir Ásgeirsson sér fáa eða enga jafningja.

 

sigurdurkristinssonsh            VII       Sigurður Kristinsson

Sigurður Kristinsson (2. júlí 1880 – 14. nóvember 1963) var formaður Framsóknarflokksins 1933-1934. Sigurður var ekki stjórnmálamaður og leit ekki þannig á sjálfan sig. Hann var fulltrúi atvinnulífsins, landsbyggðarinnar og samvinnuhreyfingarinnar á vettvangi flokksins. Á flokksþingi Framsóknarmanna vorið 1933 urðu miklar deilur og augljóst að flokkurinn var í mikilli kreppu og hálfgerðri upplausn. Átök urðu um skipulagsmál flokksins, um kosningar til forystu og trúnaðarstarfa, og um stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn, en ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar sat þá enn að völdum.

Í ljós kom á flokksþinginu að ný kynslóð var að taka völdin í flokknum. Almennt var viðurkennt að flokksþingið væri öðrum þræði stórsigur Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Í þessum sviptingum varð það ráð nýkjörinnar miðstjórnar, í samræmi við flokkslög sem þá voru sett, að velja Sigurð Kristinsson, sem ekki sat á Alþingi og hugði ekki á framboð, formann Framsóknarflokksins. Menn töldu að hann gæti öðrum fremur reynt að halda liðinu saman. Sýnir þetta hve óvenjulega mikið traust menn báru til Sigurðar.

Sigurður Kristinsson var fæddur í Öxnafellskoti í Eyjafirði. Foreldrar hans voru hjónin Salóme Hólmfríður Pálsdóttir frá Hánefsstöðum í Svarfaðardal og Kristinn Ketilsson bóndi í Öxnafellskoti og á Hrísum, af eyfirskum og þingeyskum ættum. Sigurður var kvæntur Guðlaugu Hjörleifsdóttur frá Undirfelli í Vatnsdal, og áttu þau tvo syni.

Sigurður brautskráðist frá Möðruvallaskóla 1901. Hann starfaði við Túliníusarverslun á Búðum í Fáskrúðsfirði 1902-1906 og síðan við Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri. Hann varð kaupfélagsstjóri KEA 1918 þegar Hallgrímur, bróðir hans, hélt til starfa fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga í Kaupmannahöfn  og Reykjavík. Hann tók við forstjórastarfi Sambandsins sumarið 1923, þegar Hallgrímur hafði skyndilega fallið frá. Um fjögurra mánaða skeið snemmsumars 1931 var Sigurður atvinnumálaráðherra.

Sigurður var forstjóri Sambandsins SÍS frá 1923 til ársloka 1945. Síðan var hann stjórnarformaður Sambandsins 1948-1960. Hann leiddi samvinnuhreyfinguna á mótunar- og vaxtartíma og veltiárum fyrir 1930 og síðan í gegnum heimskreppuna, útflutningshrun og innflutningshöft og enn síðar í gegnum styrjaldar- og hernámsár og stríðsgróðatíma og loks inn í nýja hafta- og ójafnvægistíma. Menn sögðu að það mætti sjá rekstraraðstæður, vanda og árangur á Sigurði sjálfum, hvernig brúnin lá á honum og ,,hvort hann hefði horast mikið síðan á síðasta fundi.” Allir vissu að hann vann jafnan yfirlangan vinnudag, unni sér aldrei hvíldar og tók mál hreyfingar og fyrirtækja inn á sig. Hann naut óskoraðs trausts allra þeirra sem við hann skiptu.

 

jonas-jonsson-fra-hriflu            VIII      Jónas Jónsson

Jónas Jónsson frá Hriflu (1. maí 1885 – 19. júlí 1968) var margbrotinn og skapmikill yfirburðamaður sem olli deilum langt fram yfir dauða sinn. Margir hafa skrifað um Jónas, meðal annarra Þórarinn Þórarinsson ritstjóri og alþingismaður, Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur og ritstjóri og Jón Helgason rithöfundur og ritstjóri.

Sagt hefur verið að Jónas hafi losað alþýðu Íslands af klafa menntunarleysisins. Hann sópaði ungum hæfileikamönnum að sér á bestu árum sínum. Síðar varð hann viðskila við vaxandi kynslóðir mennta- og listamanna. Jónas gerði sögulega og einstæða uppreisn gegn lokuðu forréttinda- og embættakerfi. Hann fékk miklu áorkað en tapaði stríðinu að lokum.

Foreldrar Jónasar Jónssonar voru hjónin Rannveig Jónsdóttir úr Köldukinn og Jón Kristjánsson bóndi í Hriflu í Bárðardal, en hann var úr Aðaldal. Jónas var kvæntur Guðrúnu Stefánsdóttur bónda Sigurðssonar úr Köldukinn og áttu þau tvær dætur. Jónas var einn fyrsti Íslendingurinn sem komst til æðstu metorða án stúdentsprófs, mægða eða frændgarðs. Hann var menntaður í Möðruvallaskóla á Akureyri, í fræðslumiðstöð lýðháskólanna í Askov og Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn, og í Ruskin College í Oxford á Englandi.

Jónas Jónsson var frá byrjun 1916 einn af leiðtogum Framsóknarflokksins, mjög áberandi en alls ekki ráðandi. Hann var áhugamikill hugmyndafræðingur í flokki sem var í eðli sínu andvígur fastmótaðri hugmyndafræði. Jónas var innblásinn ungmennafélagi, þjóðhyggjumaður (nationalliberal), samvinnumaður, hneigður til félagshyggju og landbúnaðarsinni (agrarian). Hann var fjölmenntaður og hafði víða alþjóðasýn. Þótt hann væri undir áhrifum Grundtvigssinna var hann róttækur umbrotamaður (kulturradikal) í fyrstu. Hann vann meðal annars að stofnun Alþýðusambands Íslands, var ritstjóri Skinfaxa fyrir ungmennafélögin og síðar lengi umsvifamikill í skrifum í Tímanum. Jónas var kennari að Ljósavatni 1905-1906 og við Kennaraskólann 1909-1918. Jónas var skólastjóri Samvinnuskólans 1918-1927 og 1932-1955. Hann var alþingismaður 1922-1949, ráðherra 1927-1931 og aftur 1931-1932. Að ýmsu leyti hafði hann sérstöðu innan Framsóknarflokksins og var miklu róttækari en aðrir, óþolinmóður, ýtti við mönnum og fékk suma á móti sér.

Jónas Jónsson mótaðist og lifði á löngu liðnum tíma. Líkt og samtímamenn hafði hann sterkar skoðanir á heimilum og hlutverkum kvenna, og þættu þær næsta frumstæðar nú. Hann hafði háleitar hugsjónir um menntamál og skólakerfi sem voru brýnar á fyrri árum hans, en stóðust engan veginn allar til lengdar. Jónas gerði siðferðilegar uppeldiskröfur til skáldskapar og lista enda vandlætingamaður. En þetta var í hróplegri andstöðu við þróun almennra menningarviðhorfa á ævitíma hans. Jónas hafði brennandi stjórnmálavilja fyrir hönd sveitanna, landbúnaðar og sveitamenningar. Á fyrsta skeiði aldarinnar var þetta vel við hæfi, en þróun atvinnuhátta og framleiðslu stefndi síðan í alltaðrar áttir. Jónas taldi að hvert hérað ætti að eiga sína eigin fulltrúa á Alþingi. Smám saman varð þessi afstaða óréttlát. Jónas mun hafa verið einhver áhrifamesti og skemmtilegasti kennari þjóðarinnar, fyrst í Kennaraskólanum og síðar í Samvinnuskólanum.

Þegar Jónas Jónsson varð ráðherra 1927 vissu andstæðingarnir um andstöðu við hann innan Framsóknarflokksins. Þeir kusu Jónas þá sem eftirlætis-óvin sinn og lögðu áherslu á að brjóta hann á bak aftur. Þessi seminaristi átti ekki að vera að derra sig. Um leið reyndu andstæðingarnir þá að gera lítið úr séra Tryggva Þórhallssyni forsætisráðherra. En Jónas harðnaði við hverja raun og jók ögranir sínar í hverju skrefi. Í máli eftir mál tók hann nánast einráður hart til aðgerða og beinna afskipta, meðal annars gegn valdahópum háskólamanna. Það vakti mikla hneykslun að Jónas skyldi leyfa sér að hafa skoðun á því hvernig háskólagengnir embættismenn gegndu starfsskyldum sínum. Jónas var því einatt undir verulegu álagi sem reyndi á skapbresti hans, og voru sumar aðgerðir hans eftir því. Hann hafði rök og ástæður fyrir athöfnum, en sumt orkaði tvímælis. Þetta var uppreisn gegn embættakerfi sem rakti rætur til Friðriks konungs þriðja.

Alla tíð vildi Jónas skerpa átakalínur. Innan Framsóknarflokksins vildi hann ala upp vaska taumhlýðna liðsforingja sem hann gæti treyst algerlega á. Hann beitti ráðherravaldi hiklaust í þeirri frumstæðu stjórnsýslu sem þá var. Margir töldu að hann gengi of langt stundum. Mest var það í blaðaskrifum og fundadeilum, en orðvíg og orðhefndir voru þá mjög stundaðar og flestallir samsekir. Jónas gat verið orðheppinn, neyðarlegur, stundum rætinn, háskalega fyndinn og ritfær með eindæmum. Fyrir kom að menn sveið undan orðum hans, gleymdu seint og sum voru ekki fyrirgefin.

Jónas Jónsson varð að sæta þeim örlögum að vera sviptur völdum og forystu aðeins fjörutíu og níu ára gamall, rétt þegar hann stóð á hátindi krafta og áhuga. Lengst af var Jónas baráttumaður innan Framsóknarflokksins. Laufás-mágarnir séra Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra og Ásgeir Ásgeirsson, forsætisráðherra og síðar forseti, réðu yfirleitt þegar þeir vildu. Bændahöfðingjarnir í þingliðinu treystu þeim. Framan af héldu þeir Tryggvi og Jónas vel hópinn, en að því kom að leiðir skildi þegar Tryggvi gat ekki vegna veikinda jafnað andstæður sem upp voru komnar í liðinu. Stíf afstaða Jónasar til stjórnarmyndunar og nokkurra annarra deilumála á þessum árum, svo og drættir í viðmóti hans og málflutningi, fældu marga samstarfsmenn frá Jónasi, um leið og margir kjósendur löðuðust til fylgis við hann. Í þessum sviptingum klofnaði Framsóknarflokkurinn.

Jónas var kosinn flokksformaður 1934, en var á sama ári vikið til hliðar frá virkri forystu. Yngri menn voru þegar teknir fram yfir hann. Sárindi hans voru þeim mun meiri sem hann vissi að eigin flokksbræður áttu hlut að máli þótt samstarfsflokkur væri réttilega borinn fyrir höfnuninni. Í valdabaráttu sinni steig hann mikilvæg skref í mótun flokksskipulags og lýðræðiskerfis sem urðu varanleg í landinu. Loks var með leynifundum efnt til samsæris í Framsóknarflokknum gegn Jónasi, hann felldur fyrirvaralaust úr formannsstóli 1944 og síðan fóru hreinsanir fram innan flokksins. Jónasi tókst um skeið að halda þingsæti sínu, en hann einangraðist frá flokknum og hvarf af Alþingi 1949 eftir 27 ára þingsetu.

Engin leið er að meta Jónas Jónsson frá Hiflu nema haft sé í huga að hann átti í miklum deilum, sótti hart og sætti hörðum árásum. Hann var árásargjarn og dómharður, en líka vinsæll og mjög dáður. Gagnrýni hans á menningarástand og gróðaöfl var rangtúlkuð sem árásir á alþýðu þéttbýlisins. Hann setti inngöngutakmarkanir við Menntaskólann í Reykjavík vegna heilsuverndar og húsnæðisaðstöðu, ekki að ástæðulausu. Þrátt fyrir aðrar ákvarðanir hans Menntaskólanum til eflingar var þetta talið lýsa einhvers konar hatri. Jónas gekkst fyrir nýjum skólum um land allt, Menntaskólanum á Akureyri, héraðsskólum og gagnfræðaskólum.

Jónas vildi veita ungum læknum fjölmenn héruð. Aðrir læknar gengu af göflunum, en forystumenn þeirra misbeittu stöðu sinni gróflega og vændu hann um geðveiki. Ungur geðlæknir tók málið að sér og lagði að jöfnu margs konar geðhrif, reiði, þreytu og streitu við sjúklegt hugarástand. Jónas endursendi þau spjótalög með snilldarlegum hætti í frægri blaðagrein sem heitir ,,Stóra bomban”. Lögmenn ýfðust gegn honum þegar hann ýtti á eftir skiptum dánar- og þrotabúa og reyndu að hnekkja umboði ráðherrans. Hann veitti mörgum ungum jafnaðarmönnum starfstækifæri en þeir sökuðu hann síðar um ráðríki. Hávaðaskærur urðu milli hans og listamanna þegar nýstárleg viðhorf ungrar kynslóðar urðu ráðandi í myndlist. Hæst risu þessar deilur árið 1942, en þá svaraði Jónas sem formaður Menntamálaráðs vantraustsyfirlýsingu listamanna með umdeildri myndlistarsýningu í miðborg Reykjavíkur. Byltingarsinnaðir menntamenn sáu rautt. Hann lenti í sárum illdeilum með persónulegu ívafi, meðal annars við gamla góðvini. Þá hljóp hann á sig ekki síður en hinir. Jónas var afskiptasamur, persónulegur og ákaflega ráðríkur. En nemendur hans og margir samherjar voru á einu máli um að hann gat líka verið umhyggjusamur, hjálpsamur, hlýr og örvandi.

Áhugasvið Jónasar Jónssonar voru óvenjuvíðtæk og hugur hans ævinlega fullur af hugmyndum, tillögum og fróðleiksfýsn. Hann hafði áhuga á fólki, athöfnum þess og lífsstefnu. Eftir hann liggur mikill fjöldi blaðagreina og ritgerða um ótrúlega margvísleg efni, menntir og menningu, þjóðmál, bindindismál, skóla-, uppeldis- og kennslumál, atvinnuvegi, listir, bókmenntir og skáldskap, alþjóðamál, stjórnmálabaráttu, æviágrip og minningar. Kennsluhefti hans um Íslandssögu mótuðu söguskoðun heilla kynslóða með hrífandi frásögn og mannlýsingum og þjóðernislegri innrætingu, í samræmi við ráðandi hugmyndir kynslóðar hans sjálfs. Jónas var brennandi í andanum að berjast fyrir skoðunum og samherjum sínum og gegn mótstöðumönnum og málstað þeirra. Löngu eftir að beinum stjórnmálaafskiptum hans lauk hafði hann enn áhrif með skrifum sínum. Framan af árum var hann meistari í sálnaveiðum og valdabaráttu, en hann fékk líka þá reynslu síðar að yngri kynslóðir litu á hann sem fulltrúa liðinna tíma.

Jónas Jónsson skaraði aldrei eld að eigin köku og barst ekki á. Jónas framfylgdi samfelldri þjóðlegri menningarstefnu. Hann stórefldi alþýðufræðslu, mótaði almennt skólakerfi, skólastarf og margar menningarstofnanir. Hann var einhver besti kennslubókahöfundur Íslendinga. Jónas Jónsson mótaði meira en aðrir þá flokkaskipan og stjórnmálakerfi sem hér varð lengi ráðandi. Hann mótaði og stýrði virtum verslunar- og félagsmálaskóla. Jónas var kennari af Guðs náð, vekjari og hugsjónamaður og veitti mörgum hæfileikamönnum óvenjuleg tækifæri og innblástur. Jónas hafði skýra sýn hvert hann vildi stefna, en hann var streitugjarn, bauð sjaldan málamiðlanir og einangraðist smám saman.

Stórskotalið hægri manna og róttækra menntamanna saman þurfti til að hrinda Jónasi frá Hriflu af stalli í skoðanamyndun á Íslandi. Svo áhrifaríkur og fyrirferðarmikill var hann.

 

hermann-jonasson            IX        Hermann Jónasson

Hermann Jónasson (25. desember 1896 – 22. janúar 1976) var glæsimenni, íþróttamaður, kappsfullur glímukóngur, skógræktarmaður, skörulegur og svipmikill. Hann var hygginn maður, íbygginn, hagmæltur og hafði góða kímnigáfu. Ýmsum þótti nóg um hve vel Hermann auðgaðist enda hafði hann mörg járn í eldinum. Sagt var að eiginlega væri hann klókur góðbóndi og hrossakóngur í sér, og í senn gætinn og kjarkmikill. Nákunnugir sögðu að Hermann hefði oft fengið hugboð um atburði svo að með ólíkindum væri.

Foreldrar Hermanns Jónassonar voru hjónin Pálína Guðný Björnsdóttir úr Blönduhlíð og Jónas Jónsson bóndi og trésmiður á Syðri-Brekkum í Blönduhlíð, en hann var líka þaðan úr sveitinni. Hermann var kvæntur Vigdísi Oddnýju Steingrímsdóttur Guðmundssonar trésmíðameistara úr Reykjavík. Hermann átti þrjú börn.

Hermann Jónasson var forsætisráðherra frá 1934 til 1942 og aftur 1956 til 1958. Hann lauk lögfræðiprófi 1924. Hermann var lögreglustjóri 1929 til 1934 og alþingismaður Strandamanna og síðar Vestfirðinga frá 1934 til 1967. Auk þess var hann bæjarfulltrúi í Reykjavík um skeið, ráðherra 1950 til 1953 og starfaði sem lögmaður. Tvisvar var hann kjörinn til ráðherrastarfa fyrir Framsóknarmenn en valdi þá aðra í sinn stað.

Hermann Jónasson tók að sér að berjast fyrir þingsæti í Strandasýslu 1934 gegn fyrrverandi leiðtoga Framsóknarmanna, séra Tryggva Þórhallssyni. Hermann sigraði og kom það mörgum á óvart. Tryggvi var fárveikur, en það sópaði að Hermanni og hann túlkaði viðhorf um að Framsóknarflokkurinn ætti að skírskota til allra helstu samfélagshópa og móta samstarf vinnandi stétta. Hann varð síðan forsætisráðherra eftir kosningarnar, eftir að formanni Framsóknarflokksins, Jónasi Jónssyni, hafði verið hafnað við stjórnarmyndunina.

Hermann var áhugasamur veiðimaður. Hann var kærður fyrir að hafa skotið æðarfugl í fjörunni við Reykjavík, en málið fór í handaskolum þrátt fyrir umbúnað stjórnmálaandstæðinga. Hermann hafði óblandna ánægju af þessu alla ævi og orti fræga vísu að því tilefni. Sem héraðsdómari kvað Hermann upp umdeildan dóm yfir Magnúsi Guðmundssyni ráðherra. Dóminum var snúið eftir áfrýjun, en Hæstaréttardómurinn sýnir að um lögfræðileg álitamál var að ræða. Hugsanlega hefur málið orðið til þess að Hermann fjarlægðist Jónas Jónsson þáverandi formann Framsóknarflokksins. Hermann þótti sýna dáð og snerpu þegar hann stýrði fámennu og vanbúnu lögregluliði í óeirðum við bæjarstjórnarfund í Reykjavík 9. nóvember 1932. Hermann stóð einarðlega gegn óskum Stór-Þýskalands um lendingaraðstöðu á Íslandi, en bar líka meðábyrgð á brottvísun Gyðinga frá landinu. Um þær skelfingar er meira vitað eftir á en fyrir.

Hermann Jónasson var forystumaður þjóðarinnar á erfiðum árum heimskreppunnar og í upphafi heimsstyrjaldar og hernáms. Hann stóð í fylkingarbrjósti að velflestum framfaramálum þess tíma. Ríkisstjórn vinnandi stétta sem mynduð var 1934 vann stórvirki, en höft og múrar í nágranna- og viðskiptalöndum og Spánarstríðið knúðu sams konar viðbrögð fram hérlendis. Skipulagshyggja í ætt við nýkaupauðgisstefnu (neomercantilism) og verndarhöft urðu ráðandi. Þrátt fyrir aðstæður voru á þessum árum mikilvæg skref stigin í fiskveiði- og landbúnaðarmálum, afurðasölumálum, velferðarmálum, réttindamálum launþegasamtaka, rafvæðingu, iðnaðar- og samgöngumálum og á fleiri sviðum.

Vorið 1940 kallaði hernámið á mjög hröð og viðamikil viðbrögð enda eitthvert örðugasta skyndiverkefni sem íslensk ríkisstjórn hafði tekist á við en samfélagið lék á reiðiskjálfi, undirlagt ótta. Þá var þjóðinni í einu höggi hrundið inn í nútímann. Allar samfélagsaðstæður röskuðust og kom meðal annars til mikilla stéttaátaka árið 1942. Og Hermann tók virkan þátt í sameiginlegri stefnumótun fyrir stofnun Lýðveldisins Íslands 17. júní 1944.

Á árinu 1942 urðu harkaleg samstarfsslit með Framsóknarmönnum og Sjálfstæðismönnum, og voru leiðtogar Sjálfstæðismanna sakaðir um eiðrof. Sjálfstæðismenn hlupu á sig, en Framsóknarmenn sátu fastir í gamalli kjördæmaskipan sem búsetubreytingar höfðu raskað. Lengi eimdi eftir af þessu í samskiptum flokkanna, en þetta blandaðist síðar líka við andstöðu Hermanns gegn því ráðningabanni sem dóms- og menntamálaráðherra Sjálfstæðismanna vildi beita sósíalista.

Hermann Jónasson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins við sögulegt uppgjör á flokksþingi vorið 1944. Eftir flokksþingið birti hann bækling um málefnastöðu flokksins og almennar horfur í stjórnmálum og þjóðfélagsmálum. Í þessum bæklingi kemur fram að hann hefur fylgst mjög vel með innanlands og erlendis og er vel kunnugur ýmsum þeim nýmælum og sjónarmiðum sem áttu eftir að ráða för á komandi árum. Hann telur nauðsynlegt að takmarka frelsi fjármagns og fjármálamarkaða. Hann segir: ,,Skipulagið takmarkar frelsið… En skipulagsleysið, sem leyfir fullt frelsi – að vísu fárra – um skeið, eyðileggur allt frelsi að lokum um langan tíma.”

Hermann var formaður Framsóknarflokksins frá 1944 til 1962. Sem formaður naut hann ómældra vinsælda og persónulegrar hylli. Hann þótti hreinskiptinn og drengilegur í samskiptum, stundum glettinn, stökk á yngri árum jafnfætis upp á borð og stóð á höndum á virðulegum skrifstofuborðum. Hann fór stundum í sjómann eða glímu við nýja þingmenn, átti til að spyrja þá um hagi þeirra og áhugamál og hjálpaði þeim með þingmál. Þingmenn flokksins kunnu sérstaklega að meta að hann var umburðarlyndur og virti þeim vel að þeir hefðu eigin skoðanir og hvatti þá frekar en latti. Þeir Hermann og Eysteinn Jónsson, alþingismaður, ráðherra og ritari flokksins, störfuðu mjög vel saman í forystunni og virtu ólík sjónarmið sín í millum þegar svo bar undir. Eysteinn var þá stundum í brúnni en Hermann að rýna fram á leiðina. Heilsa þrekmennisins Hermanns brast upp úr sextugu og hann dró sig loks í hlé að eigin ósk.

Hermann var um skeið utan ríkisstjórnar á 6. áratugnum þótt Framsóknarmenn tækju þátt í stjórnarsamstarfi. Hann réð því að dr. Kristinn Guðmundsson varð utanríkisráðherra og vann með honum að því að ljúka því óheillaskeiði sem kennt hefur verið við ,,ástand” vegna samskipta erlendra hermanna við suma landsmenn. Á þessum árum leitaði Hermann bandamanna til þess að vekja aftur raunhæfan lýðræðislegan valkost á móti ofurveldi Sjálfstæðisflokksins. Hann vildi að Framsóknarflokkurinn væri valkostur til vinstri í íslenskum stjórnmálum gegn valdi hægrimanna. Hann kynntist upprennandi leiðtogum í hópi jafnaðarmanna og náði góðum tengslum við þá, einkum Gylfa Þ. Gíslason alþingismann.

Úr þessu varð svokallað Umbótabandalag, sem sumir nefndu ,,hræðslubandalagið” þar eð það var myndað meðal annars til að hindra að Sjálfstæðisflokkurinn næði meirihluta á Alþingi. Þetta var sameiginleg kosningastefnuskrá og sameiginlegt framboð Framsóknarmanna og Alþýðuflokksins í kosningunum 1956 og byggðist meðal annars á umdeildri túlkun kosningalaga. Nú skyldi stefnt að því að afnema uppbætur, höft, víðtækar millifærslur og flókið fjölgengi íslenskrar krónu, sérgreina hlutverk og stjórn seðlabankans og losa viðskiptabanka frá flokkslegum afskiptum. Stjórnað skyldi í samstarfi við stéttasamtökin í landinu. Áræði, framsýni og framfarahugur ráða för. Sameiginleg stefnulýsing flokkanna tveggja, ,,um alhliða viðreisn efnahagslífsins” og um ,,viðreisnarstefnu”, er merkileg, en nokkrum árum síðar birtust sambærileg stefnumið aftur í róttækari mynd og hlutu þá líka nafnið ,,viðreisn”.

Tilraun Umbótabandalagsins í kosningunum mistókst, en Hermann myndaði vinstristjórnina 1956. Stjórnin galt þess að ágreiningur var í hinum stjórnarflokkunum um samstarfið. Vinstristjórnin náði ekki samstöðu um efnahags- og viðskiptastefnu Umbótabandalagsins. Stjórnarandstæðingar reyndu að hindra lántökur í Bandaríkjunum, en Vilhjálmi Þór seðlabankastjóra tókst að tryggja lán til virkjana og rafvæðingar og uppskar persónulegan rógburð andstæðinga fyrir. Stjórnin taldi óeðlilegt að hér dveldist erlendur her á friðartíma og vildi gera nýjan samning um starfrækslu og umsjá varnarmannvirkja. Átök við Súez-skurð og í Ungverjalandi komu í veg fyrir framgang þeirra fyrirætlana. Hermann hafði frá lokum styrjaldarinnar jafnan sett fyrirvara gegn þeirri stefnu sem Íslendingar fylgdu í öryggis- og varnarmálum, en frá sjónarmiði hans var einsýnt nú að bíða friðvænlegari og öruggari tíma.

Meginmál vinstristjórnarinnar, sem hélt henni saman, var hins vegar útfærsla landhelginnar í tólf sjómílur 1. september 1958. Í árslok það ár hafnaði Alþýðusambandið tillögum ríkisstjórnarinnar um eins mánaðar frestun launahækkana, en þá sagði Hermann af sér og stjórnin vék. Upp úr þessu starfaði minnihlutastjórn Alþýðuflokksins um stutt skeið. Síðan stýrði Ásgeir Ásgeirsson forseti sjálfur myndun ,,Viðreisnarstjórnar” Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Endalok vinstristjórnarinnar urðu Hermanni sár vonbrigði, og það slitnaði alveg milli hans og jafnaðarmanna þegar ,,Viðreisnarstjórnin” var mynduð. Kappsmaðurinn Hermann taldi það ósigur og brigð að sum mikilvægustu verkefni Umbótabandalagsins hyrfu þannig í aðrar hendur.

Hermann Jónasson sameinaði með glæsilegum hætti ungmennafélagsanda og frjálslynda umbótastefnu Framsóknarflokksins. Hann sagði að stefna flokksins væri í aðaldráttum hvorki til vinstri né hægri heldur ,,beint áfram” í framtaki, samvinnu, þjóðrækni og framförum. Hann tók það nærri sér að vikið var frá því að berjast gegn óðaverðbólgunni árið 1942, en hann hafði lagt alla áherslu á þau mál vegna framtíðarinnar. Framsóknarmenn mátu þá stjórnmálastöðuna rangt, og nokkru síðar fengu þeir ekki rönd við reist þegar stríðsgróðanum var eytt með hraði.

Framsóknarmenn nutu nokkuð stöðugs kjörfylgis á formannstíma Hermanns Jónassonar, með um fjórðung atkvæða. Fylgi flokksins tók dýfu 1956 en þá var kosningabandalag Umbótabandalagsins samkvæmt sérstökum lagaákvæðum. Fylgið jókst síðan nokkuð á ,,Viðreisnarárunum”, upp í rúm 28% árið 1963.

Þáttur Hermanns í hugmyndum Umbótabandalagsins staðfestir enn frjálslyndi hans og framfarahug. Það þurfti myndugleika til að bera slíkt fram á þeim tíma. Samstarfið í vinstristjórninni hefur síðan reynt á þrek hans, enda þraut stjórnina í raun örendið löngu áður en hún fór frá. Hermann átti þátt í útfærslu landhelginnar 1952 sem ráðherra í ríkisstjórn flokksbróður síns, Steingríms Steinþórssonar. Honum féll það þungt að útfærslu landhelginnar 1958 var ekki fylgt eftir næstu árin. Og eftir að hafa tekið þátt í fundum hafréttarráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna 1960 vakti Hermann athygli á því að í umræðum á alþjóðavettvangi væru menn komnir ,,út fyrir” tólf mílna mörkin.

 

            X         Björn Þórðarson

Björn Þórðarson (6. febrúar 1879 – 25. október 1963) var forsætisráðherra 1942 – 1944 og annaðist um stofnun Lýðveldisins Íslands á Þingvöllum 17. júní 1944. Björn hafði ekki verið stjórnmálamaður eða alþingismaður og var ekki formaður Framsóknarflokksins. Auk þess starfaði utanþingsstjórnin sem Björn stýrði án umboðs frá Framsóknarflokknum. Því eru sterk rök gegn því að hann sé með í þessu yfirliti. Aftur á móti var hann stuðningsmaður Framsóknarflokksins og frambjóðandi í Alþingiskosningum 1927 á vegum flokksins en náði ekki kjöri.

Björn var fæddur í Móum á Kjalarnesi. Foreldrar hans voru hjónin Ástríður Jochumsdóttir frá Skógum í Þorskafirði og Þórður Runólfsson bóndi í Móum og hreppstjóri, en hann var Kjalnesingur. Björn var kvæntur Ingibjörgu Ólafsdóttur Briem alþingismanns og fyrsta formanns Framsóknarflokksins á Álfgeirsvöllum í Skagafirði.

Björn Þórðarson lauk lögfræðiprófi við Kaupmannahafnarháskóla 1908. Hann varð doktor í lögum frá Háskóla Íslands 1927 og fjallar ritgerð hans um ,,Refsivist á Íslandi”. Hann var um stutt skeið fulltrúi bæjarfógeta á Fjóni í Danmörku 1908, og síðan málaflutningsmaður í Reykjavík 1908-1919 og settur sýslumaður á nokkrum stöðum og fulltrúi í Stjórnarráðinu á þessum sömu árum. Dr. Björn var ritari Hæstaréttar 1920-1928. Hann var lögmaður í Reykjavík árin 1929-1942, en það var embætti sýslumanns og héraðsdómara. Dr. Björn var sáttasemjari í vinnudeilum 1926-1942. Hann var skipaður forsætisráðherra 16. desember 1942 og fór auk þess með heilbrigðis- og kirkjumál. Hann tók einnig við störfum félagsmálaráðherra 19. apríl 1943 og dóms- og menntamálaráðherra 21. september 1944. Dr. Björn fékk lausn frá ráðherrastörfum 16. september 1944 en sat áfram til 21. október 1944.

Að embættistíma sínum loknum vann dr. Björn Þórðarson mest við ritstörf, ekki síst á sviði sagnfræðirannsókna. Fjallaði hann í ritum sínum meðal annars um sögu Alþingis, sögu Landsyfirréttarins, ýmis önnur sérsvið íslenskrar sögu og um Þjóðabandalagið.

Dr. Björn Þórðarson var í hópi þeirra áhrifamanna sem kallaðir voru ,,lögskilnaðarmenn” og vildu bíða stríðsloka og semja um sjálfstæði Íslands og stofnun lýðveldis eftir að Danir hefðu á ný full ráð og sjálfræði af sinni hálfu. Sem forsætisráðherra vann hann samt sem áður af fullum heilindum að stofnun Lýðveldisins Íslands á þeim tíma og með þeim hætti sem Alþingi og stjórnmálaflokkarnir höfðu ákveðið, Framsóknarmenn eins og aðrir. Þetta var margþætt og viðamikið verkefni, og fól meðal annars í sér ýmis samskipti og málaleitanir við stórveldin og nágrannaríki á býsna erfiðum tíma. Öllu þessu gegndi dr. Björn með sóma, og hafði ríkisstjórnin þó í mörgu að snúast innanlands á sama tíma og hömluð mjög af því að hafa ekki á stuðning meirihluta Alþingis að treysta í neinum einstökum málum eða aðgerðum.

Dr. Björn þótti sýna mikla visku og hyggindi við hátíðarathöfnina á Þingvöllum 17. júní 1944. Þá barst óvænt heillaóskaskeyti frá Kristjáni X Danakonungi. Skeytið hófst með heillaóskum, en síðan hóf konungur máls á ýmsum athugasemdum og mótbárum gegn ákvörðunum og athöfnum Íslendinga. Dr. Björn kvaddi sér hljóðs og las í heyranda hljóði úr skeytinu, en aðeins upphafsorðin með heillaósk konungs og lét mannfjöldann síðan hrópa margfalt húrra fyrir konungi og dönsku konungsættinni, svo að undir tók í klettaveggjunum.

Dr. Björn mun hafa litið á ríkisstjórn sína sem bráðabirgðastjórn vegna stöðu flokkanna og þráteflis á Alþingi. Hann var vammlaus, mjög formfastur og trúr fornum dygðum. Lögfræðingur sem starfaði með honum og þekkti hann gjörla persónulega sagði um dr. Björn að hann væri ,,hógvær vinstri maður, trúr guði sínum, konungi og þjóð”.

 

steingrimur-steinthorsson            XI        Steingrímur Steinþórsson

Steingrímur Steinþórsson (12. febrúar 1893 – 14. nóvember 1966) varð forsætisráðherra vorið 1950 við óvenjulegar aðstæður. Síðvetrar þetta ár voru mikil óvissa og átök í íslenskum stjórnmálum. Minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins sat að völdum, en sagði af sér í marsbyrjun eftir vantraust á Alþingi. Stjórnarmyndunarþófið hélt áfram, og að því kom 11. mars að forseti Íslands fól Vilhjálmi Þór forstjóra og fyrrverandi utanríkisráðherra að mynda utanþingsstjórn. Vilhjálmur var Framsóknarmaður. Eftir tilmæli stjórnmálaforingja frestaði forseti ákvörðun sinni, og mynduðu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ríkisstjórn á tveimur sólarhringum. Staða mála milli flokkanna var með þeim hætti að hvorugur formaðurinn gat orðið forsætisráðherra, en gott samkomulag varð að Steingrímur Steinþórsson forseti Alþingis tæki starfið að sér.

Steingrímur Steinþórsson var fæddur í Álftagerði við Mývatn. Foreldrar hans voru hjónin Sigrún Jónsdóttir alþingismanns Sigurðssonar á Gautlöndum og Steinþór Björnsson bóndi frá Bjarnarstöðum í Mývatnssveit. Steingrímur var kvæntur Guðnýju Theódóru Sigurðardóttur sjómanns í Reykjavík. Steingrímur átti fimm börn.

Steingrímur Steinþórsson lauk  búfræðiprófi 1915 frá Hvanneyri og lokaprófi frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1924. Hann vann á búi foreldra sinna á Litlu-Strönd við Mývatn um skeið og á Hvanneyri. Hann var kennari við Bændaskólann á Hvanneyri 1924-1928 og skólastjóri Bændaskólans á Hólum 1928-1935. Hann var nýbýlastjóri og forstjóri landbúnaðardeildar atvinnudeildar Háskóla Íslands um skeið. Hann var skipaður í Skipulagsnefnd atvinnumála sem oftast var nefnd ,,Rauðka”. Hann var búnaðarmálastjóri 1935-1962 nema þann tíma sem hann var ráðherra. Steingrímur var alþingismaður Skagfirðinga 1931-1933, 1937-1942 og 1946-1959. Hann var forseti Alþingis 1949-1950. Steingrímur var forsætisráðherra 1950 til 1953 og landbúnaðar- og félagsmálaráðherra 1953 til 1956.

Meginstefna ríkisstjórnarinnar var að aflétta höftum og auka frjálsræði í viðskiptum og efnahagslífi. Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar varð að lækka gengi íslenskrar krónu um 43% en jafnframt varð samkomulag um tengdar aðgerðir fyrir sparifjáreigendur og til húsnæðismála. En erfiðleikar héldust áfram við í sjávarútveginum, og var meðal annars brugðið á það ráð að veita bátaútveginum ráðstöfun á helmingi gjaldeyristekna hans og var þetta kallað bátagjaldeyrir. Mikill órói var á vinnumarkaði og víðtæk verkföll, þar á meðal langt togaraverkfall. Ríkissjóður stóð mjög tæpt og fór svo á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1952 að bæði Steingrímur forsætisráðherra og Eysteinn Jónsson fjármálaráðherra lýstu yfir því að þeir segðu af sér ef þingið hróflaði tekjustofnum ríkissjóðs frekar en orðið var. Miklar deilur urðu um varnamál, en varnasamningur var gerður við Bandaríkjamenn á vettvangi Atlantshafsbandalagsins 1951. Margvísleg vandamál komu upp í sambúðinni við varnaliðið, meðal annars vegna ,,ástandsins” og vegna bandarískra verktaka. Unnið var að virkjunum og rafvæðingu í dreifbýli. Þá urðu og deilur um Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna, en fyrir það fé var áburðarverksmiðja byggð og hóf rekstur 1954.

Loks er að nefna að ríkisstjórnin steig mikilvægt skref með útfærslu landhelginnar 15. maí 1952. Þá var landhelgin færð frá þremur í fjórar sjómílur frá landi, en ekki skipti minna máli að ný grunnlína var dregin umhverfis landið frá ystu nesjum, eyjum og skerjum og þvert yfir mynni fjarða og flóa. Bretar svöruðu með hafnbanni sem stóð til 1956. En 1953 tókust síðan samningar við Ráðstjórnarríkin um útflutning sjávarafurða þangað.

Steingrímur Steinþórsson var mikilúðlegur og þungbrýnn maður, þéttur á velli og þéttur í lund. Hann var í fyrstu eindreginn stuðningsmaður Jónasar Jónssonar en kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með stífni og kröfugerð Jónasar þegar enn harðnaði innan flokksins. Steingrímur var öflugur leiðtogi á sviði landbúnaðarmála og sótti mál sín jafnan fast. Sem félagsmálaráðherra átti hann þátt í nýskipan húsnæðismála og atvinnuleysistryggingum. Sem forsætisráðherra mótaði hann þá verkaskiptingu að aðrir leiðtogar stjórnarflokkanna skyldu vinna undirbúnings-, málefna- og samningavinnu í öllum einstökum verkefnum, en hann lagði í staðinn áherslu á samræmingu og málamiðlun í ríkisstjórninni. Hann var sanngjarn og drenglyndur og fékk þá umsögn þeirra sem með honum unnu að hvert orð stæði. Samstarfsmenn hans í ríkisstjórninni töldu að Steingrímur hefði haft mjög góð áhrif á allan samstarfsanda.

 

eysteinn-jonsson            XII       Eysteinn Jónsson

Eysteinn Jónsson (13. nóvember 1906 – 11. ágúst 1993) er minnisstæður fyrir áhuga, samviskusemi og röskleika í því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann valdist ungur til trúnaðar, en ýtti sér aldrei fram sjálfur. Hann tók kornungur við fjármálastjórn íslenska ríkisins á erfiðum árum heimskreppunnar og ávann sér óvenjulegt traust. Árum saman var hann annar fremsti leiðtogi Framsóknarmanna en síðan um nokkurra ára skeið formaður flokksins.

Foreldrar Eysteins voru hjónin Sigríður Hansína Hansdóttir Beck frá Reyðarfirði og séra Jón Finnsson prestur í Hofsþingum í Álftafirði, en hann var frá Loðmundarfirði. Eiginkona Eysteins var Sólveig Eyjólfsdóttir múrarameistara Jónssonar í Reykjavík. Þau áttu sex börn. Eysteinn starfaði á ungum aldri við verslun og sjómennsku. Eysteinn lauk Samvinnuskólaprófi vorið 1927 og stundaði framhaldsnám við Pitman College í Lundúnum. Hann starfaði í Stjórnarráðinu 1927-1930 og var skattstjóri í Reykjavík 1930-1934. Hann vann þá sérstaklega að verkefnum sem tengdust ríkisbókhaldi og gerð ríkisreiknings.

Eysteinn Jónsson var alþingismaður Suður-Múlasýslu og síðar Austurlands frá 1933 til 1974. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1934 og síðan 1943-1969. Fjármálaráðherra var Eysteinn 1934-1939, viðskiptamálaráðherra 1939-1942, menntamálaráðherra 1947-1949 og aftur fjármálaráðherra 1950-1958. Hann var forseti Alþingis 1971-1974.

Eysteinn var virkur og áhugasamur samvinnumaður. Hann taldi samvinnuna samhjálp til sjálfsbjargar. Hann var formaður Kaupfélags Reykjavíkur 1931-1934 og síðar fulltrúi KRON á vettvangi Sambands íslenskra samvinnufélaga SÍS. Hann var formaður Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur 1932-1934. Eysteinn var ritari Framsóknarflokksins 1934-1962. Sjálfsagt þótti að Eysteinn tæki við formennsku fyrir Framsóknarflokknum 1962 og var hann formaður til 1968 en vék þá að eigin ósk. Eysteinn var varaformaður stjórnar SÍS 1946-1975 og stjórnarformaður 1975-1978. Hann var formaður Náttúruverndarráðs 1972-1978 og formaður nefndar um neyðarráðstafanir vegna Heimaeyjargossins 1973.

Lengst af var Eysteinn Jónsson ritari Framsóknarflokksins, en ritarastarfið var þá nokkurs konar verkstjórn inn á við í öllu flokksstarfi. Um þetta höfðu þeir nána og virka samvinnu, Eysteinn og Hermann Jónasson formaður flokksins. Reyndar fólst líka í þessu að formaðurinn gæti helgað sig meginmálum og langtímavinnu, en ritarinn þurfti þá að snúast í öllum verkefnum frá degi til dags. Í erfiðu ríkisstjórnarsamstarfi gat þetta leitt ýmiss konar fyrirhöfn og eftirrekstur yfir ritarann, og fyrir kom að óánægja þingmannanna bitnaði þá alveg á honum. Starfsreynsla Eysteins mótaði þá skoðun hans að óhjákvæmilegt væri að Alþingismenn gætu haft þingstörfin að aðalstarfi. Hann skrifaði bækling um Framsóknarflokkinn og stefnu hans sem lengi var stuðst við.

Eysteinn Jónsson tók að sér fyrir hönd Framsóknarflokksins að vinna að öryggis- og varnamálum með Sjálfstæðismönnum og Alþýðuflokknum. Miklar viðsjár urðu í landinu á árunum eftir heimsstyrjöldina vegna þessara mála. Eysteinn hafði alla forgöngu um aðild Framsóknarmanna og tókst að tryggja stuðning við stofninngöngu í Atlantshafsbandalagið 1949 og við varnarsamninginn við Bandaríkjamenn 1951. Hann sagði frá því að óskir Norðmanna og Dana hefðu haft úrslitaáhrif á endanlega afstöðu hans sjálfs. Í Framsóknarflokknum mættu þessar nýju aðstæður inngróinni og djúpsettri þjóðerniskennd og þjóðhyggju. Enginn skildi þetta eða virti betur en einmitt Eysteinn sjálfur. Austfirskir kjósendur og flokksmenn allir mátu Eystein svo mikils að úr þessu varð ekki harkaleg bylta í flokknum, þrátt fyrir viðbrögð margra. Eysteinn sagði frá því síðar að þetta hafi verið allra erfiðasta verkefnið sem hann hafi tekið að sér á þessum árum. Framganga hans í þessum málum var talin sýna samviskusemi hans, ósérhlífni og einurð.

Eysteinn Jónsson bar ekki aðeins meginábyrgð á fjármálum ríkisins og gjaldeyrismálum þjóðarinnar á kreppuárunum, heldur líka á erfiðleikatíma eftirstríðsáranna og kaldastríðsáranna. Stríðsgróða og gjaldeyrissjóðum hafði þá verið eytt. Í efnahagslífi og samfélagi ríkti mikið ójafnvægi og víðtækar togstreitur. Framleiðslubreytingar leiddu til hraðrar byggðaröskunar svo að lá við landauðn sums staðar, en í þéttbýlinu tók alvarlegur húsnæðisskortur á móti. Vinna fyrir erlent herlið kom í veg fyrir langvarandi atvinnubrest, og braggahverfi hýstu fjölmenni.

Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur skiptust á um völdin á þessum árum og báru sameiginlega ábyrgð á höftum, skömmtun og leyfisveitingum. Fyrir kom vöruskortur í almennum verslunum, enda skorti Íslendinga gjaldeyri árum saman. Um nokkurt árabil var gripið til skömmtunar á almennum vörum, bönn lágu við frjálsum fjárfestingum og innflutningshöft voru meginregla. Engin samstaða náðist um gengisbreytingar, hvorki meðal stjórnmálamanna né á vinnumarkaði. Þá varð lengi togstreita um innflutningsleyfi, hvort úthluta skyldi samkvæmt viðskiptasögu heildsölufyrirtækja eða láta hverjum neytanda eftir að ráðstafa sinni hlutdeild eftir ,,höfðatölureglu” og þá ekki síst á milli einkafyrirtækja og samvinnufélaganna. Eðlilegir viðskiptahættir riðluðust um langt skeið.

Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn tóku höndum saman um og upp úr 1950 til þess að ráða bót á ástandinu. Samstjórn þeirra setti sér að losa um höftin og bönnin og efla frjálsa verslun, innflutning og útflutning. Árum saman náðist aðeins takmarkaður árangur. Ójafnvægið var of alvarlegt í hagkerfinu og engin samstaða varð um gengisfellingar. Eysteinn orðaði það svo að ríkisstjórnin reyndi að mæta gjaldeyrisskortinum með því að ,,læsa kaupmáttinn inni” með ýmsum aðgerðum sem minna á nýkaupauðgisstefnu (neomercantilism). Smám saman varð til flókið fjölgengiskerfi, með sérstökum bátagjaldeyri og fleiri sérákvæðum. Óhjákvæmilegt varð að auka ríkisafskipti um allan helming, og þá kom til þess að pólitískar ákvarðanir yrðu teknar um hvaðeina. Fyrirgreiðsla og togstreitur urðu ráðandi á flestum sviðum atvinnumála og þjóðlífs með flokkakrækjum og stjórnmálaspillingu. Óánægja varð almenn í báðum stjórnarflokkunum, og Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn kvörtuðu endalaust hvorir undan öðrum.

Margir kölluðu stjórnarsamstarfið ,,helmingaskipti” og þótti bera vitni um að Framsóknarmenn væru of harðdrægir í samstarfi. Um þetta kvörtuðu margir Sjálfstæðismenn bæði oft og lengi og margir Framsóknarmenn bentu á annað á móti. Eysteinn taldi að Framsóknarmenn yrðu að taka á öllu afli sínu til þess að halda Sjálfstæðismönnum við samkomulag. Merkilegt má það heita að aldrei var kvartað undan samstarfi við Eystein og jafnan sagt að hann væri sanngjarn og strangheiðarlegur enda þótt hann væri bæði einbeittur og einarður.

Helmingaskiptastjórnirnar náðu líka árangri á mörgum sviðum. Virkjunum og rafvæðingu fleygði fram og vegagerð. Stigin voru grundvallarskref í iðnvæðingu með áburðarverksmiðju og undirbúningi fyrir sementsverksmiðju. Og mikilvægur áfangi náðist í landhelgismálum. Bretar tóku hart á móti og settu hafnbann á íslensk skip í breskum höfnum. Íslendingum tókst að opna viðskiptatengsl við Ráðstjórnarríkin í staðinn. Málið rann inn í alþjóðlegan farveg kalda stríðsins, en Íslendingar urðu ekki fyrir þeim hnekki sem Bretar stefndu að.

Að loknu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðismenn gerðu Framsóknarmenn merkilega tilraun í vinstra samstarfi 1956-1958. Þeir sáu að nýjar leiðir varð að fara til árangurs, en vinstristjórnin náði ekki heldur tökum á efnahags- og fjármálum vegna andstöðu í samstarfsflokkunum. Eysteinn fór sem fyrr með fjármál ríkisins og átti meðal annars þátt í undirbúningi útfærslu landhelginnar í tólf sjómílur, í myndarlegri byggðastefnu, umbótum í húsnæðismálum og viðbótum við framleiðslutæki til lands og sjávar.

Eysteinn Jónsson tók við formennsku í Framsóknarflokknum 1962 þegar heilsubrestur knúði Hermann Jónasson til að víkja. ,,Viðreisnarstjórnin” hafði lengi góðan byr í seglum. Eysteinn vakti athygli á því að úrræði ríkisstjórnarinnar væru alls ekki þau einu sem til greina kæmu og alls ekki öll þau bestu. Hann benti á alhliða framfarastefnu með áherslu á jöfnuð og byggðaþróun. Þetta kallaði Eysteinn ,,hina leiðina”. Eiginleg ,,viðreisnarár” voru 1959-1963, en síðan tóku síldarárin miklu við og síldarvöðurnar tóku eiginlega við stjórninni í landinu. Loks varð efnahagshrun á árunum 1967-1968 og kallaði einn stjórnarliðinn horfur þá ,,hrollvekju”. Í kosningunum 1967 náðu Framsóknarmenn ekki þeim árangri sem þeir höfðu vænst, fengu um 28% atkvæða og Eysteinn lét af formennsku að eigin ósk 1968.

Eysteinn starfaði áfram á Alþingi af fullum kröftum og áhuga. Hann varð forseti Alþingis þegar ný vinstristjórn undir forystu Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins, tók við völdum 1971. Hann tók virkan þátt í stefnumótun, til dæmis við gerð og opnun hringvegarins um landið og við útfærslu landhelginnar í fimmtíu sjómílur og nýtt þorskastríð sem þá hófst.

Eysteinn Jónsson lagði áherslu á að Framsóknarflokkurinn skírskotaði ekki aðeins til landsbyggðar og dreifbýlis heldur til allra samfélagshópa. Hann vildi vinna að því að breikka grunn Framsóknarflokksins til vinstri og ná betur til frjálslyndra jafnaðar- og félagshyggjumanna. Á síðustu árum sjöunda áratugarins og fyrstu árum þess áttunda kvaddi ný kynslóð sér hljóðs í Framsóknarflokknum sem annars staðar í samfélaginu. Í flokknum fengu þessi öfl nafnið ,,Möðruvellingar” og vildu beita sér fyrir róttækri skipulagshyggju og breyttri utanríkisstefnu. Eysteinn lagði jafnan mikla áherslu á góð tengsl og samskipti við ungt fólk og vildi ýta ungum mönnum til áhrifa og frama í stjórnmálunum. Sama varð raunin á þessum árum. Eysteinn harmaði það mjög að sundur slitnaði með forystu Framsóknarflokksins og Möðruvellingum, en gerði sér jafnframt grein fyrir því að engum einum var um að kenna.

Síðustu stjórnmálaár sín beitti Eysteinn sér einkum að náttúruvernd og er einn helsti höfundur þess málaflokks í íslenskum stjórnmálum. Náttúruvernd og útivist, ekki síst skíðaganga, voru honum hugleikið efni, og hann átti meðal annars hugmyndina að því útivistarsvæði sem síðar varð í Bláfjöllum við Reykjavík. Hann var bókhneigður maður og mjög vel að sér í sögu Íslendinga og einn af þeim mönnum sem kunnu Sturlungu til hlítar. Eysteinn hélt áfram skyldustörfum fyrir samvinnumenn og gegndi meðal annars mikilvægu hlutverki í skólanefnd Samvinnuskólans og í nefnd um framtíð verslunarmenntunar.

Eysteinn Jónsson sat innst við elda stjórnmálanna á erfiðum tímum. Aldrei var sagt að hann hefði notfært sér aðstöðu sína til annars en að knýja fram hugsjónamál og stefnumið Framsóknarmanna. Hann hlóð aldrei undir sjálfan sig í neinu. Eysteinn var innblásinn hugsjónamaður en vildi að hugsjónir væru ,,í vinnufötum” eins og hann orðaði það sjálfur. Einkenni hans voru ósérhlífni, óeigingirni, samviskusemi og einurð.

 

            XIII      Ólafur Jóhannesson

Ólafur Jóhannesson (1. mars 1913 – 20. maí 1984) var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hann bar að flestra dómi höfuð og herðar yfir íslenska stjórnmálaforingja á 8. áratug liðinnar aldar, svonefndum ,,Framsóknaráratug”. Hann var stöðuglyndur, yfirvegaður, óhagganlegur þegar hann hafði ákveðið sig, hafði yfirburða þekkingu á stjórnskipan Íslands og á þeim málefnum sem tekist var á um. Hann sýndi og sannaði oftar en einu sinni þrek og festu þannig að aðrir skipuðu sér ósjálfrátt að baki honum. Þetta átti við langt út fyrir raðir Framsóknarmanna.

Ólafur Jóhannesson fæddist í Stóra-Holti í Fljótum. Foreldrar hans voru hjónin Kristrún Jónsdóttir sem var Fljótamaður og Jóhannes Friðbjarnarson bóndi og kennari í Stóra-Holti en hann var Eyfirðingur. Ólafur var kvæntur Dóru Guðrúnu M. Á. Guðbjartsdóttur hafnsögumanns Ólafssonar úr Reykjavík. Þau áttu þrjú börn.

Ólafur lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1939, varð héraðsdómslögmaður 1942 og stundaði framhaldsnám í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Ólafur starfaði sem lögmaður og endurskoðandi hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, rak málflutningsskrifstofu og var framkvæmdastjóri og lögfræðilegur ráðunautur hjá Sambandinu. Ólafur sat í stjórn Seðlabankans og Seðlabankaráði 1957-1964. Hann var prófessor í lögum við Háskóla Íslands frá 1947 uns hann tók við embætti forsætisráðherra 1971 og gegndi oft dómstörfum í Hæstarétti. Eftir hann liggja fræðirit, einkum á sviði stjórnskipunarréttar.

Ólafur Jóhannesson var alþingismaður fyrir Norðurland vestra 1959-1979 og síðan fyrir Reykvíkinga til 1984. Hann var forsætis-, dóms- og kirkjumálaráðherra 1971-1974, dóms-, kirkjumála- og viðskiptaráðherra 1974-1978, forsætisráðherra öðru sinni 1978-1979 og loks utanríkisráðherra 1980-1983. Ólafur var miðstjórnarmaður í Framsóknarflokknum frá 1949, varaformaður flokksins frá 1959 og þótti sjálfsagður eftirmaður Eysteins Jónssonar þegar hann lét af flokksformennsku 1968. Ólafur dró sig að eigin ákvörðun í hlé frá formennskunni 1979.

Ólafur hafði langt stjórnmálastarf að baki þegar hann tók að sér forystu fyrir Framsóknarflokknum. Meðal annars hafði hann fyrir hönd flokksins verið nokkurs konar umsjónarmaður með vinnu Umbótabandalagsins fyrir og í kosningunum 1956. Í vinstristjórninni 1971-1974 tókst honum að halda liðinu saman enda þótt fyrir lægi að leiðtogar eins stjórnarflokksins vildu slíta og ganga til liðs við Alþýðuflokkinn sem allra fyrst. Hráskinnaleikur og hnífakaup voru Ólafi fjarri skapi og mætti hann slíku stundum af kaldri fyrirlitningu.

Vinstristjórn Ólafs náði mörgum góðum áföngum. Byggðastefnu var framfylgt og Framkvæmdastofnun komið á fót. Hringvegi var lokið umhverfis landið. Nýrra öflugra framleiðslutækja var aflað, einkum fyrir sjávarútveginn, og bylting varð í fiskiðnaði. Grunnskólalög voru sett. Miklar deilur urðu um varnasamstarfið við Bandaríkjamenn og náðu þær inn í Framsóknarflokkinn. Landhelgin var færð í fimmtíu sjómílur 1. september 1972 og brast þá á harðvítugt þorskastríð við Breta. Ákvarðanir, þreifingar og aðgerðir Landhelgisgæslu mæddu mjög á Ólafi meðan landhelgisdeilan stóð yfir. Síðar hafði hann svipuðu hlutverki að gegna þegar landhelgin var færð í 200 sjómílur 1975.

Vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar náði ekki að móta jafnvægisaðstæður í efnahagsmálum og færðist verðbólga í aukana. Eldgosið í Heimaey, sem hófst 23. janúar 1973, var ægilegt áfall, og líka áreynsla fyrir þjóðarbúið og raskaði mörgu. Framganga Ólafs í því máli var rómuð að verðleikum. Síðla á árinu margfaldaðist olíuverð. Samstarfsflokkur í stjórninni reyndi að sundra stjórnarsamstarfinu með því að krefjast þess að landhelgisdeilunni yrði vísað til alþjóðadómstóls. Ólafur þekkti öll lagarök í því máli og sá í gegnum vefinn. Hinn 30. júní 1974, skömmu eftir þjóðhátíð á Þingvöllum, ákvað hann að rjúfa þing og efna til kosninga. Honum var ljóst að stjórnarandstaðan var með nýjan þingmeirihluta á prjónunum. Ólafur lét ekkert raska ró sinni í umræðunum og lést ekki skilja að aðrir æstu sig. Hann fór að sem Tryggvi Þórhallsson hafði gert 1931 og hélt málinu alveg að sér uns hann kunngerði þingrofið með óafturkræfum hætti. Jafnframt lagði Ólafur drög að því að Framsóknarflokkurinn yrði ekki einangraður með líkum hætti og varð eftir stjórnarslitin 1958. Þeir sem til sáu og heyrðu fundu að Ólafur hafði full tök á atburðarásinni.

Ólafur varð áfram ráðherra í nýrri ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum. En hann var óánægður með hik og hálfkák sem einkenndi margar athafnir þeirrar stjórnar, ekki síst efnahagsaðgerðir. Miklar vinnudeilur urðu og fyrsta verkfall opinberra starfsmanna varð Framsóknarmönnum þungbært en þeir höfðu átt mikið fylgi í þeim röðum. Framsóknarflokkurinn beið alvarlegan ósigur í Alþingiskosningunum 1978, fékk um 17% atkvæða en naut fylgis fjórðungs kjósenda í öðrum kosningum á þessum tíma. Aftur tók við stjórnarmyndunarþóf. Ólafur lét sem hann væri annars hugar en lék nokkra leiki. Þegar til átti að taka var honum einmitt falin stjórnarmyndunin. Þetta stjórnarsamstarf varð skammvinnt enda logaði hávær andstaða gegn því í Alþýðuflokknum alveg frá byrjun.

Á síðara hluta 7. áratugarins og á 8. áratugnum gekk ný kynslóð fram á sviðið í íslenskum stjórnmálum. Kynslóðaskil voru mjög skýr í þjóðlífinu, bæði hér og á Vesturlöndum yfirleitt. Róttækni og nýmæli voru á hverju strái og gömul sannindi vefengd. Innan Framsóknarflokksins hófst fjölmenn hreyfing sem síðar var kennd við húsið Möðruvelli við Menntaskólann á Akureyri. Leiðtogar hreyfingarinnar gerðu eindregnar kröfur um róttæka félagshyggju og skipulagshyggju, ríkisafskipti og stórtæka byggðastefnu og gerbreytta stefnu í utanríkis- og varnamálum með uppsögn varnasamningsins. Helsti foringi Möðruvellinga var Ólafur Ragnar Grímsson prófessor, síðar alþingismaður, ráðherra og forseti Íslands. Í fyrstu fékk þessi nýja hreyfing byr undir vængi innan flokksins. En foringjum hennar þótti sem mál væru ekki knúin með þeim dugnaði og harðfylgi sem þeir töldu æskilegt. Smám saman fór að koma til hnippinga og ágreinings. Í ljós kom að víða sátu menn fyrir óviðbúnir að láta hlut sinn þegar í stað eða kyngja skoðunum sem þeim voru ókunnar eða alveg á móti skapi.

Þegar á leið urðu úr þessu harðar byltur í flokksstarfinu aftur og aftur. Ólafur Jóhannesson hélt sig þétt við vinahóp sinn í flokknum en bægði öðrum frá með fálæti. Hann aftók með öllu að beygja sig fyrir kröfum Möðruvellinga eða að koma til móts við þá. Hurfu þeir þá margir úr Framsóknarflokknum og stóðu að framboðum gegn flokknum frá 1974. Þetta var mikil blóðtaka í flokksstarfinu, einkum meðal ungra Framsóknarmanna. Flestum varð þó smám saman ljóst að þessu varð ekki afstýrt.

Í ársbyrjun 1976 hófust óvenjulega harkalegar beinar og persónulegar árásir á Ólaf Jóhannesson í dagblaði í Reykjavík. Var hann ásakaður sem dómsmálaráðherra um að hefta sakamálsrannsókn og talinn ábyrgur um nokkurs konar yfirhylmingu og hlífð við afbrotamenn. Í febrúarbyrjun var málið fært inn á Alþingi og útvarpað samstundis, en slíkt var nýmæli þá. Um allt samfélagið ómuðu sögusagnir og samsæriskenningar, staðhæfingar og spillingaráburður. Í almennum umræðum tengdust ásakanirnar alræmdum ógæfumálum sem sættu sakarannsókn á sama tíma. Hundruð áskrifenda sögðu málgagni Framsóknarmanna, Tímanum, upp þar eð blaðið væri á vegum misindismanna. Mánuðum saman stóð þetta gjörningaveður.

Ólafur brást mjög hart við. Í umræðunum á Alþingi talaði hann blaðalaust enda enginn fyrirvari gefinn. Var sú ræða mjög rómuð og hafði mikil áhrif. Auk annars sárnaði Ólafi að annars vegar voru nokkrir nánir samherjar hans sakaðir með honum, en á hinn bóginn að Sjálfstæðismenn og talsmenn annarra flokka brugðust ekki við með drengilegum hætti. Ólafi var mjög brugðið. Þetta voru verstu ásakanir sem hann hefði getað hugsað sér, að vera vændur um svik, yfirhylmingu og spillingu eða þá um slíkt andvaraleysi og sinnuleysi að annað eins gæti átt sér stað í skjóli hans. Ólafur mátti aldrei vamm sitt vita. Heiðarleiki og einfaldar kristnar lífsreglur voru honum í blóð bornar. Þegar óveðrinu slotaði loks gekk hver maðurinn á fætur öðrum til Ólafs og fullvissaði hann um samhug, viðurkenningu og virðingu. En málið breytti Ólafi, hann kólnaði við þetta og varð tortryggnari en áður.

Vorið 1979 lagði Ólafur fram tímamótafrumvarp um efnahagsmál, takmörkun vísitölubindingar launa, peningamagn og heimildir til verðtryggingar fjárskuldbindinga og sparifjár. Ekki náðist samkomulag í ríkisstjórninni um málið, og brá Ólafur þá stjórnskipunarþekkingunni fyrir sig og flutti málið í eigin nafni sem Alþingismaður. ,,Ólafslög” komu til framkvæmda í nokkrum áföngum og urðu tímamót í íslenskum lána- og peningamálum, en áralangir frestir og hálfvelgja urðu reyndar við innleiðingu einstakra þátta þeirra og framfylgju. Ólafslög eru mikilvægur áfangi í íslenskri hagstjórn, jafnvel þótt yfirleitt hafi einnig á vantað að þeim væri mætt með viðeigandi ákvörðunum á sviði ríkisfjármála. Því hefur mikil verðbólga löngum síðan mjög torveldað þann árangur sem að var stefnt.

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri komst svo að orði um Ólaf Jóhannesson: ,,…hafa flestir lært að meta að verðleikum vilja hans til góðra verka, skapfestu og æðruleysi, hvað sem á dundi.” Ólafur Jóhannesson var hæggerður maður og fátalaður. Hann ávann sér traust með hægðinni og með djúpsettum ráðum, seiglu og þreki. Hann var seintekinn og lokaður í viðkynningu, en í litlum hópi átti hann til að læða út úr sér ummælum með lúmskri kímni og háði. Hann gat verið seinn í viðbragði, fyrirleit fagurgala og sýndarmennsku, heilsteyptur og gjörhugull.

 

framsokn_00251            XIV     Steingrímur Hermannsson

Steingrímur Hermannsson (22. júní 1928 – 1. febrúar 2010) var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hann var rafmagnsverkfræðingur að mennt og tamdi sér nútímaleg og lausnamiðuð vinnubrögð og viðhorf. Steingrímur naut óvenjulega mikilla persónulegra vinsælda meðal þjóðarinnar með einlægni sinni, frjálslegri framkomu og viðleitni til þess að mæta fólki alls staðar á fleti jafningja. Það vakti hrifningu að hann gat kannast opinberlega við eigin mistök eða misskilning, og hins vegar átti hann létt með að veita öðrum tækifæri til að njóta athygli og ýta undir að aðrir fengju þakkir fyrir sameiginleg verk.

Steingrímur fæddist í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Vigdís Oddný Steingrímsdóttir úr Reykjavík og Hermann Jónasson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, en hann var Skagfirðingur. Steingrímur var fyrst kvæntur Söru Jane Donovan frá Bandaríkjunum en þau skildu. Síðar kvæntist hann Guðlaugu Eddu Guðmundsdóttur skólastjóra Gíslasonar, en hún er Árnesingur. Steingrímur eignaðist þrjú börn í hvoru hjónabandi.

Steingrímur stundaði verkfræðinám vestan hafs og lauk M.Sc-prófi frá California Institute of Technology. Hann starfaði sem verkfræðingur við Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Áburðarverksmiðjuna, fyrir utanríkisráðuneytið á Keflavíkurflugvelli og um skeið við bandarískt fyrirtæki í Los Angeles í Kaliforníu. Hann var framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins 1957-1978 og atvinnumálanefndar ríkisins um skeið. Steingrímur var alþingismaður Vestfirðinga 1971-1987 og fyrir Reykjaneskjördæmi 1987-1994. Hann var dóms-, kirkjumála- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgöngumálaráðherra 1980-1983 og síðan forsætisráðherra 1983-1987, þá utanríkisráðherra til 1988 og aftur forsætisráðherra 1988-1991. Steingrímur var síðan seðlabankastjóri 1994-1998. Hann var ritari Framsóknarflokksins frá 1971 og formaður flokksins 1979-1994.

Steingrímur Hermannsson var hreinskilinn og afskaplega opinskár stundum, svo að öðrum þótti jafnvel nóg um. Sumir sögðu að hann væri gálaus, sjálfhverfur og mótaður af eftirlæti í föðurhúsum. Andstæðingar gerðu mikinn þyt þegar í ljós kom að mistök höfðu orðið í flokkun fylgiskjala við ársreikning Rannsóknarráðs. Var Steingrímur sakaður um að hafa ruglað einkakostnaði saman við. En allir vissu reyndar að hann kom alls ekki að frágangi fylgiskjala eða reikningsskilum.

Steingrímur Hermannsson var mannasættir. Eitt megineinkenni hans í forystustörfum var samningalipurð, þolinmæði við samstarfsmenn, óendanlegur dugnaður og elja, og loks vilji hans til að leyfa öðrum að njóta stundum sviðsljóssins. Ekki veitti þjóðinni af þessum kostum hans því að þóf og óreiða voru talsverð í íslenskum stjórnmálum á 9. áratug liðinnar aldar. Með verkstjórn sinni stuðlaði Steingrímur mjög að þeim óvenjulega áfanga sem náðist þegar forystumenn vinnumarkaðarins og bænda gerðu svokallaða þjóðarsátt um stöðugleika og jafnvægi í febrúar 1990. Þá náðist verðbólga úr 20% í 5% á hálfu ári. Um það var rætt að fáir aðrir forsætisráðherrar nær eða fjær hefðu þolað að gefa öðrum sviðsljósið með viðlíka hætti og þarna varð.

Til þess var tekið að Steingrímur Hermannsson gat flutt langar ræður um flókin og viðamikil efni blaðalaust, skipulega og án óþarfra endurtekninga eða hiks. En oft var hermt eftir honum vegna þess að hann talaði með sérkennilegum seim í röddinni.

Steingrímur gekk að hverju verki með hugarfari verkfræðingsins og sá öll verkefni í athöfnum og úrlausnum. Framan af ævinni var hann hugfanginn af tækni, verklegum framkvæmdum og síðan hagnýtum rannsóknum. En eftir því sem lengra leið tók hann að benda á aðrar hliðar mála og vara við oftrú á stórframkvæmdir sem ekki miðuðust við fyllsta tillit til náttúru landsins og hreinleika andrúmslofts og vatns.

Það kom í hlut Steingríms að taka á móti þeim Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Mikael Gorbatsjef ríkisleiðtoga Ráðstjórnarríkjanna við fund þeirra í Höfða í Reykjavík í október 1986. Ýmsum ofbauð hve skammur tími var gefinn til undirbúnings fundarins, en forsætisráðherrahjónin gengu beint til verksins. Íslendingar veittu Eystrasaltsþjóðunum mikilvægan stuðning í frelsisbaráttu þeirra. Með dyggum stuðningi forsætisráðherrans fékk Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra alla hrifninguna af því. Steingrímur beitti sér fyrir löggjöf um embætti umboðsmanns Alþingis 1987 og fyrir stofnun Umhverfisráðuneytis. Og það kom líka í hlut hans að hefja viðræður við Evrópusambandið, sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu, sem síðar lauk með aðild Íslands að Evrópska Efnahagssvæðinu. En Steingrímur var andvígur hugmyndum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Um þetta varð nokkur ágreiningur innan Framsóknarflokksins.

Steingrímur Hermannsson taldi að ævinlega væru næg verkefni fyrir umbótasinnuð öfl sem gengju að verki án fordóma, öfga eða lokaðra fræðikenninga. Hann varð fyrir miklum áhrifum sem ungur maður við háskólanám vestan hafs og flutti þaðan heim með sér fersk sjónarmið frjálslyndra umbótaafla og hreyfði við ýmsu því sem orðið var staðnað hér. Hann vakti nýja athygli á því að um fleiri og betri kosti er að velja en aðeins hægristefnu annars vegar eða lokaðar sósíalistahugmyndir hins vegar. Aftur á móti var Steingrímur ekki hneigður fyrir hugmyndafræði og varaðist að sveipa málflutning sinn í slíkan búning. Á formannsárum Steingríms var kjörfylgi Framsóknarmanna um fimmtungur kjósenda, en persónulegar vinsældir hans miklu meiri.

Steingrími féll vel að umgangast ungt fólk og örva það til dáða. Hann var óþreytandi í félagsstarfi og reiðubúinn til að hlusta og taka tillit til þeirra sem hann starfaði með. En stundum var hann talinn horfa um of til vinsælda í orðum og athöfnum. Hann ávann sér traust og hollustu manna með því að umgangast alla á sama hátt hvort sem voru samherjar eða aðrir.

Steingrímur Hermannsson var röskleikamaður og útivistarmaður, skógræktarmaður og skíðamaður. Hann hafði gaman af drengilegum leik, en vildi sjálfur fá að bera hærri hlut. Á forystuárum sínum skaraði Steingrímur fram úr sem fulltrúi frjálslyndrar umbótastefnu.

 

framsokn_00252            XV      Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson (8. september 1947 – 18. maí 2015) var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Sterkustu einkenni hans voru traust, festa, skyldurækni og orðheldni. Ferill hans mótaðist meðal annars af mikilvægum ákvörðunum sem hann hlaut að taka um mál sem ollu miklum og langvarandi deilum en kröfðust ábyrgðar og þreks. – Skammt er liðið frá æviferli Halldórs þannig að enn verður ekki lagt mat á öll verk hans.

Halldór fæddist á Vopnafirði. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Ingólfsdóttir frá Vopnafirði og Ásgrímur Halldórsson kaupfélagsstjóri á Höfn í Hornafirði en hann var frá Borgarfirði eystra. Halldór óx úr grasi á Höfn. Hann var kvæntur Sigurjónu Sigurðardóttur úr Kópavogi. Þau áttu þrjú börn.

Halldór Ásgrímsson var Samvinnuskólamaður. Hann var löggiltur endurskoðandi og stundaði framhaldsnám við háskóla í Björgvin og Kaupmannahöfn. Hann var lektor við Háskóla Íslands 1973-1975 og vann þar við skipulagningu endurskoðunarnáms. Halldór sat í seðlabankaráði 1976-1983. Halldór var alþingismaður fyrir Austurland 1974-1978 og 1979-2003 og fyrir Reykjavík 2003-2006. Hann var varaformaður Framsóknarflokksins 1980-1994 og síðan formaður flokksins til 2006. Halldór var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, ráðherra norræns samstarfs 1985-1987 og 1995-1999, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006. Eftir að stjórnmálastörfum hans lauk var hann framkvæmdastjóri Norrænu Ráðherranefndarinnar 2006-2013.

Halldór Ásgrímsson hafði ekki stefnt að stjórnmálastörfum þegar Framsóknarmenn á Austurlandi leituðu til hans með stuttum fyrirvara. Viðhorf Halldórs mótuðust í heimahögunum eystra, í samvinnuhreyfingunni, störfum við sjómennsku og í námi og störfum sem endurskoðandi fyrir atvinnufyrirtæki. Áhugi hans á atvinnumálum og rekstri fyrirtækja mótaði ábyrgðartilfinningu hans sem stjórnmálamanns. Halldór sá atvinnulífið ekki með augum stjórnmálamannsins, heldur stjórnmálin með augum atvinnulífsins.

Halldór Ásgrímsson vék sér aldrei undan erfiðleikum eða óvinsælum ákvörðunum ef hann taldi um skynsamlegt nauðsynjaverk að ræða. Hann lagði alla orku sína í verkefni sem hann taldi mikilvæg en vöktu mörg hver harðar deilur. Ráð hans var jafnan vel ígrundað og djúpt hugsað, og honum varð ekki hnikað frá því sem hann taldi réttlátt, hyggilegt eða sanngjarnt. Hann gekkst fyrir tímamótalöggjöf um aflamarkskerfi í sjávarútvegi 1983 sem gerbreytti aðstæðum í þessari undirstöðuatvinnugrein. Hann vann lengi að undirbúningi stórvirkjana við Kárahnjúka á Austurlandi. Hann fylgdist ákaflega vel með framvindu Evrópusambandsins og komst að þeirri niðurstöðu að full aðild Íslendinga gæti, með æskilegum aðildarsamningi, stuðlað að hagsmunum og réttindum þjóðarinnar. Og hann átti þátt í róttækum breytingum á íslenskum bankamálum og fjármálakerfi með einkavæðingu og aðlögun að fjölþjóðlegu regluverki. Tilboð barst í Landsbanka Íslands hf frá aðila tengdum Sjálfstæðisflokknum, en niðurstaða varð að bjóða báða ríkisviðskiptabankana með almennu útboði. Örfá tilboð bárust og aðeins tvö voru talin tæk, en fallið frá fyrri skilyrðum um fjölþjóðlega þátttöku og dreifingu hluta. Tilboðin voru talin nátengd báðum ríkisstjórnarflokkunum og margir töldu þetta einkavinavæðingu og spillingu. Brátt hófst ofsafengið útrásarævintýri, og önnur áhrifaöfl réðu síðan, illu heilli, úrslitum um afdrif bankanna með víðtækum og skelfilegum afleiðingum fyrir alla þjóðina.

Halldór Ásgrímsson gerði sér snemma grein fyrir þeim samfélagsbreytingum sem orðnar voru og í vændum. Hann þóttist sjá áhrif nýrrar tækni og vélbúnaðar á framleiðslugetu og þar með á fækkun rekstrareininga og mannafla í hefðbundnum undirstöðuatvinnuvegum. Hann sá hverju þetta myndi breyta fyrir landsbyggðina, sjávarútveg og landbúnað, samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn. Innan Framsóknarflokksins aðhylltust margir sértækar aðgerðir og varðstöðu vegna byggðastefnu og dreifbýlis, en undir forystu Halldórs kusu aðrir að nálgast markmiðin með heildstæðum aðgerðum og áherslu á opna viðskiptaþróun og almenna hagþróun.

Halldór lagði áherslu á að þoka Framsóknarflokknum fram í fylkingarbrjóst í sókn til framtíðar, líka með þessar horfur í huga. Mótstöðumönnum innan flokksins þótti Halldór stundum þunghentur enda lítt hneigður til undansláttar. Ýmsir höfðu á orði að hann væri þungur og stífur. En hugsjón hans var að Framsóknarflokkurinn gengi ferskur og skarpur inn í nýja öld og ætti jafnbrýnt erindi sem áður við alla þjóðina. Þessu hlytu að fylgja breytingar og átök, en þannig sá Halldór Framsóknarmenn best gegna þjóðrækilegri skyldu sinni. Halldór var hugmyndafræðilega sinnaður og sannfærður um gildi félagslegs markaðsbúskapar með blönduðu hagkerfi. Hann lagði þunga áherslu á að opna ferli efnahagslífsins og treysta sem best framleiðni og samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Halldór náði eyrum margra flokksmanna, en öðrum líkaði verr og honum tókst ekki að knýja fram varanlegar breytingar á Framsóknarflokknum.

Halldór Ásgrímsson var leiðtogi Framsóknarmanna í löngu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðismenn. Eftir góðan sigur í kosningunum 1995, með 23% atkvæða, nutu Framsóknarmenn fylgis um 18% kjósenda á þessum árum. Oft var ágreiningur milli flokkanna og hlaut Halldór þá að halda á málum andspænis vinsælum leiðtoga samstarfsflokksins sem var bæði mjög vinsæll og ráðríkur en hafði alls ekkert aðhald í eigin röðum. Olli þetta því oftar en einu sinni að erfið málamiðlun var talin undanhald meðal Framsóknarmanna og óánægjan bitnaði þá á Halldóri. Eitt þessara mála snerti frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum og fleira tengt þeim. Um þetta varð þung bylta og forseti Íslands greip tækifæri til að virkja ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar um höfnunarvald. Annað slíkt mál snerti ákaflega óvinsæla og hæpna stuðningsyfirlýsingu við Bandaríkjamenn út af innrás í Írak, eftir að Alþingi hafði verið slitið og kosningar voru í algleymingi. Bæði málin voru eldfim og mættu harðri og langvinnri andstöðu innan Framsóknarflokksins.

Meðan þessi mál ollu mestum deilum veiktist Halldór og þurfti frá að hverfa um hríð. Hann kom aftur til starfa áður en hann hafði náð sér að fullu á ný. Þá var komin þreyta og urgur víða í flokknum. Það tók mjög á Halldór að finna að í flokknum virtust margir hafa misst móðinn. Fyrir sveitarstjórnakosningarnar 2006 hafði hann sagst mundu bregðast við ef flokkurinn biði ósigur. Klofningur var meðal Framsóknarmanna í Reykjavík, og niðurstöður sveitarstjórnakosninganna urðu áfall. Fjölmiðlar nýttu sér vandræðin til fulls og fengu upplýsingar eftir ýmsum leiðum. Eftir kosningarnar vék Halldór og dró sig alveg í hlé. Ný forysta flokksins náði engu taki og var sagt að hana vantaði trúverðuga tengingu við flokksfólkið. Beið Framsóknarflokkurinn alvarlegasta áfall í sögu sinni við Alþingiskosningarnar 2007 og fékk aðeins tæp 12% atkvæða.

Miklar deilur hafa lengi staðið meðal Íslendinga um sjávarútvegsmál, orku- og stóriðjumál og bankamál, og ágreiningur er og andstaða víða gegn hugmyndum um aðild að Evrópusambandinu, ekki síst innan Framsóknarflokksins. Halldór Ásgrímsson dró sig í hlé eftir að hann hætti stjórnmálastörfum og varði málstað sinn ekki opinberlega eftir það. En hann hafði lagt sig allan fram um nauðsynjamál og þjóðarhag og var sannfærður um að smám saman kæmi kjarni málanna í ljós.

 

—   oOo   —

 

Nokkrar helstu heimildir:

Agnar Kl. Jónsson. 1976. Lögfræðingatal. 3.útg.
Agnar Kl. Jónsson. 2004. Stjórnarráð Íslands 1904-1964 I-II. 2.útg.
Alþingistíðindi.
Andrés Kristjánsson. 1978. Íslenskir kaupfélagsstjórar.
Andrés Kristjánsson. 1985-1986. Í fóstri…, Bilin… Halldór E. Sigurðsson rekur     minningar sínar I-II.
Ásgeir Ásgeirsson. 1925. Kver og kirkja.
Ásmundur Helgason o.fl. 2004. Stjórnarráð Íslands 1964-2004 I-III.
Benedikt Jóhannesson o.fl. 2003. Forsætisráðherrar í hundrað ár. (Vísbending)
Bernharð Stefánsson. 1961-1964. Endurminningar I-II.
Dagur B. Eggertsson. 1998-2000. Steingrímur Hermannsson Ævisaga I-III.
Elías Snæland Jónsson. 2010. Möðruvallahreyfingin. Baráttusaga.
Eysteinn Jónsson. 1975. Framsóknarflokkurinn og stefna hans. 2.útg.
Eysteinn Jónsson. 1977. Í sókn og vörn: ræður og ritgerðir.
Framsóknarstefnan: Grundvöllur og markmið. 1978.
Guðjón Friðriksson. 1991-1993. Með sverðið…, Dómsmálaráðherrann, Ljónið… Ævisaga Jónasar Jónssonar frá Hriflu I-III.
Gylfi Gröndal o.fl. 1985. Á aldarafmæli Jónasar frá Hriflu.
Gylfi Gröndal. 1992. Ásgeir Ásgeirsson ævisaga.
Gylfi Þ. Gíslason. 1993. Viðreisnarárin.
Halldór Stefánsson. 1943. Refskák stjórnmálaflokkanna.
Helgi Skúli Kjartansson. 2010. Ísland á 20. öld. 2.útg.
Hermann Jónasson. 1944. Eftir flokksþingið.
Héðinn Valdimarsson. 1938-1939. Skuldaskil Jónasar Jónssonar við sósíalismann.
Indriði G. Þorsteinsson. 1977. Samtöl við Jónas.
Indriði G. Þorsteinsson. 1990. Fram fyrir…, Ættjörð… Ævisaga Hermanns Jónassonar forsætisráðherra I-II.
Jakob F. Ásgeirsson. 1988. Þjóð í hafti.
Jón Helgason. 1981. Stóra bomban.
Jón Sigurðsson. 2010. Kosningadagar 2007. (Stjórnmál og stjórnsýsla)
Jón Sigurðsson. 2013. Eigi víkja.
Jón Sigurðsson. 2013. Vilhjálmur Þór. (Andvari)
Jónas Jónsson. 1915 og oft síðan. Íslandssaga handa börnum.
Jónas Jónsson. 1939. Íslenskir samvinnumenn.
Jónas Jónsson. 1952-1968. Komandi ár I-VII. Ritsafn.
Jónína Michaelsdóttir. 1994. Áhrifamenn.
Ólafur T. Guðnason ofl. 2004. Forsætisráðherrar Íslands, ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár.
Ólafur Hannibalsson. 1997. Allt önnur saga ef… (Vísbending)
Ólafur Hannibalsson. 2007. Afdrifarík hagstjórnarmistök. (Vísbending)
Ólafur Jóhannesson. 2013. Forystumaður úr Fljótum. Æviminningar.
Ólafur Þ. Kristjánsson o.fl. 1985-1988. Kennaratal á Íslandi I-V.
Óskar Guðmundsson. 2011. Brautryðjandinn. Ævisaga Þórhalls Bjarnarsonar.
Pétur Ástvaldsson o.fl. 2003. Samtíðarmenn, ævi og störf kunnra Íslendinga I-II.
Sigurður A. Magnússon o.fl. 1983. Þeir settu svip á öldina. Íslenskir stjórnmálamenn.
Steingrímur Steinþórsson. 1979-1980. Sjálfsævisaga I-II.
Thorhallur Asgeirsson. 1942. Development of The Progressive Party of Iceland.
Tíminn, dagblað.
Vigdís Jónsdóttir o.fl. 1996. Alþingismannatal 1845-1995.
Vilhjálmur Hjálmarsson. 1983-1985. Ævisaga Eysteins Jónssonar I-III.
Þorkell Jóhannesson. 1965-1966. Lýðir og landshagir I-II.
Þorsteinn M. Jónsson. 1960. Stofnsaga Framsóknarflokksins.
Þór Vilhjálmsson o.fl. 1983. Ólafsbók.
Þórarinn Þórarinsson o.fl. 1966-2007. Sókn og sigrar: Saga Framsóknarflokksins I-V.

 

Viðtöl og samskipti við þessa menn:

Árni Benediktsson frkvstj. (1997-1999), Ásgeir G. Jóhannesson forstj. (2003-2015), Eyjólfur Eysteinsson útsölustj. (2015), Eysteinn Jónsson alþm., ráðh. og flokksform. (1978-1982), Geir Sigurðsson b. á Skerðingsstöðum í Dalas., síðar innhm. (1976), Guðmundur Steingrímsson alþm. (2015), Guðmundur Tryggvason b. í Kollafirði, starfsm. Framsóknarfl. (1956-1964), Guðrún Eggertsdóttir bókasfr. (2015), Halldór Ásgrímsson alþm., ráðh. og flokksform. (1959-2007), Hannes Jónsson félagsfr. og sendih. (1974-1976), Indriði G. Þorsteinsson rith. og ritstj. (1973-1981), Ingi Tryggvason alþm. (1975-2016), Ingvar Gíslason alþm. og ráðh. (1974-1978), Jón Helgason rith. og ritstj. (1977-1981), Jón Kristjánsson alþm. og ráðh. (1993-2016), Jón Skaftason alþm. (1974-1981), Kristján Benediktsson borgarftr., frkvstj. þfl. Framsóknarm. (1974-1976), Ólafur Jóhannesson alþm., ráðh. og flokksform. (1977-1980), Rannveig Þorsteinsdóttir alþm. (1963), Sigfús I. Sigfússon frkvstj. Framsóknarfl. (2005-2015), Sigurður Eyþórsson frkvstj. Framsóknarfl. (1998-2015), Stefán Valgeirsson b. og alþm. á Auðbrekku (1979-1980), Steingrímur Hermannsson alþm., ráðh. og flokksform. (1979-1981), Tryggvi Agnarsson lögm. (2015), Tryggvi Pálsson frkvstj. (2015), Valgerður Sverrisdóttir alþm. og ráðh. (1985-2016), Þórarinn Þórarinsson alþm. og ritstj. (1974-1981), Þráinn Valdimarsson frkvstj. Framsóknarfl. (1974-1981).

 

Höf. er flokksbundinn Framsóknarmaður frá 1974. Hann var 1974-1981 miðstjmaður og 1975-1978 varaform. SUF, og ritstj. Tímans 1977-1981. Hann var 1996-2003 form. málefnanefndar Framsóknarflokksins en hún undirbýr ályktanir og stefnulýsingar flokksins. Hann var viðskipta- og iðnaðarráðh. og flokksformaður 2006-2007.

 

Tekið saman haustið 2015, frágangur 2016 – JS