Categories
Greinar

Frá B-lista. Áfram veginn!

Deila grein

25/05/2018

Frá B-lista. Áfram veginn!

Ef þú, kjósandi góður, mundir staldra við uppi á Hámundarstaðarhálsi, horfa til allra átta og ímynda þér að hér væri engin byggð. Engar blómlegar jarðir með lömb í haga, engir bleikir akrar eða slegin tún. Engar víkur með húsaþyrpingum og bátum í höfn. Eftir sem áður stæði landið fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar. En ekkert skvaldur, engin hlátrasköll eða börn að leik, ekkert fólk.

Það sem gerir byggðarlagið okkar að samfélagi eru íbúarnir. Hér er iðandi mannlíf til sjávar og sveita. Hér er blómstrandi atvinnu-og menningarlíf. Í Dalvíkurbyggð er aftur að fjölga fólki og nýjar byggingar rísa. Hér ríkir bjartsýni og jákvæðni.

Okkar stærsta auðlind í Dalvíkurbyggð er fólkið. Hér gengur hver maður undir annars hönd til að láta vélina ganga smurt. Allir eru mikilvægir hlekkir í keðjunni. Já, mannauðurinn í Dalvíkurbyggð gerir okkur svo sannarlega rík.

Á fjögurra ára fresti göngum við til kosninga til sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til að vinna að framfaramálum byggðarlagsins, móta stefnur til framtíðar og framfylgja samþykktum sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til ábyrgðar fyrir sveitarfélagið, fyrir okkur.

Við á B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks höfum fundað víða og kynnt stefnumál okkar bæði í ræðu og riti. Við þökkum kærlega fyrir góðar undirtektir við okkar málflutningi. Við þökkum fyrir nytsamlegar ábendingar og líflegar umræður. Við viljum að samfélagið okkar blómstri og þróist sífellt til betri vegar okkur öllum til heilla. Við viljum hlusta á íbúana, unga sem aldna. Við viljum vinna fyrir ykkur.

Við óskum eftir víðtækum stuðningi í kosningunum laugardaginn 26.maí. Með því að setja X við B eru auknar líkur á því að B-listinn verði leiðandi afl eftir kosningar. Við teljum það afar brýnt og heitum því að vinna af heilindum og metnaði fyrir byggðarlaginu og íbúum þess. Setjum X við B á kjördag. Áfram veginn – XB

Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti B-lista Framsóknarmanna og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð.