Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir skömmu, að leggja til að komið yrði á fót menntaneti á Suðurnesjum í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Menntamálaráðherra mun stýra þessu nýja menntaneti í samvinnu við heimamenn en forsætisráðherra sagði að svona verkefni hafi verið gert víðar með góðum árangri. Það er mikið gleðiefni að haldið sé áfram veginn til styrkingar náms á Suðurnesjum.
Nám er tækifæri
Fyrirhugað er að ráðstafa allt að 300 milljónum króna til kaupa á þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá hefur verið ákveðið að styrkja þær námsleiðir sem í boði eru hjá Keili gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum komi jafnframt inn með fjármuni á móti. Stjórnvöld hafa að undanförnu átt samtöl við forsvarsmenn sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, menntastofnanir og atvinnurekendur á svæðinu um aðgerðir til að bregðast við stöðu vinnumarkaðarins á svæðinu. Atvinnuleysi þar hefur farið vaxandi eftir að Kórónafaraldurinn hófst, fór hæst í kringum 25% í upphafi faraldursins, en var í september í kringum 17%. Það skiptir máli á tímum sem þessum að fólk hafi greiðan aðgang að aukinni menntun til þess að styrkja sig á atvinnumarkaði til framtíðar.
Fjölbreytni og sveigjanleiki
Fjölbreytt námsframboð og sveigjanlegt námsumhverfi, sem skapað er í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, er nauðsynlegt svo að atvinnulíf og samfélag vaxi og dafni. Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið á Suðurnesjum frá stofnun árið 1976. Menntaskólinn Ásbrú (Keilir), Fisktækniskólinn og MSS eru stofnanir sem orðið hafa til vegna frumkvæðis einkaaðila, sveitarfélaga á Suðurnesjum og fyrirtækja á svæðinu. Þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir, starfsþjálfun og endurmenntun hefur verið áþreifanleg. Nú eru þessar menntastofnanir orðnar rótgrónar í samfélaginu og hafa sannað gildi sitt. Menntunarstig fólks á svæðinu hefur hækkað, sérstaklega kvenna. Það er ekki síst bættu aðgengi að námi að þakka sem og fjölbreyttum námsleiðum og sveigjanlegum kennsluháttum. Höldum áfram þessa leið.
Breyttar kröfur vinnumarkaðarins
Sjálfvirknivæðing undanfarinna ára og hraðar tæknibreytingar munu ekki hægja á sér. Með þeim breytingum er einsýnt að kröfur um fjölbreytta menntun á framhaldsskólastigi sem og ákall eftir nútímalegum og sveigjanlegum kennsluháttum muni halda áfram að aukast. Ný tækifæri eru handan við hornið. Í skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna kemur fram að líkur á sjálfvirknivæðingu starfa minnka með hærra menntunarstigi. Líklegt er að mörg störf sem krefjast lítillar menntunar muni hverfa eða taka miklum breytingum. Vægi framhaldsskólanáms verður því sífellt meira og þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir vex. Því þarf að auka áherslu á tæknigreinar og nýsköpun auk þess að halda áfram að bjóða upp á hefðbundið bóknám og iðngreinar. Menntun er máttur.
Áfram veginn!
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 7. október 2020.