Categories
Greinar

Framsókn lætur verkin tala

Deila grein

29/05/2018

Framsókn lætur verkin tala

Liðinn vetur hefur verið afar viðburðarríkur, svo ekki sé meira sagt. Kosningar í haust, þar sem allir lögðust á eitt um að ná árangri sem skilaði okkur átta þingmönnum. Stemmingin var einstök og ég vil þakka öllum enn og aftur fyrir kröftuga og skemmtilega kosningabaráttu.

Afkastamiklir ráðherrar Framsóknar

Framsóknarflokkurinn fékk þrjú ráðuneyti og ráðherrarnir okkar hafa sýnt, á stuttum tíma, að þeir hafi gríðarlegan metnað fyrir þeim verkefnum sem fyrir liggja í ráðuneytunum. Félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur lagt áherslu á að bæta umgjörð barnaverndarmála og fjölga úrræðum fyrir börn í vanda. Nýlega samþykkti Alþingi lög frá um notendastýrða persónulega þjónustu. Um er að ræða langþráð markmið og lögin munu boða byltingu á lífsgæðum fatlaðs fólks. Menntamálaráðherrann okkar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur talað fyrir eflingu iðn- og verknáms og mikilvægi þess að bæta umgjörð kennarastéttarinnar og hefur finnska leiðin verið nefnd í því samhengi. Ráðherra hefur einnig afnumið 25 ára regluna í framhaldsskóla og framlög til framhaldsskóla, háskólastarfs og rannsókna eru stóraukin. Ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála, er með í smíðum byggðaáætlun og samgönguáætlun sem kynntar verða á næstu vikum. Nú þegar hefur ríkisstjórnin líst yfir umtalsverðri aukningu fjárframlaga til viðgerða og viðhalds á vegum vítt og breytt um landið með áherslu á bætt umferðaröryggi.

Mine kære nordiske venner

Sú sem þetta ritar hefur vasast í mörgu í vetur en ég sit bæði í utanríkismálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd auk þess að vera formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Norrænt samstarf hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs. Það var stofnað árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til Norrænu ráðherranefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Íslandsdeildin lagði til dæmis fram tillögu á vorþingi ráðsins í apríl sl. sem felst í að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að hún hafi frumkvæði að norrænu rannsóknasamstarfi um súrnun sjávar, vistkerfi og mögulegar afleiðingar súrnunar sjávar á afkomu íbúa strandbyggða Norðurlanda og leggi til fjármagn til þessa verkefni á fjárlögum.

Átta þingmannamál

Mikið hefur verið sagt og skrifað um svokallað „umskurðarfrumvarp“ sem ég lagði fram í upphafi árs en þegar þetta er ritað þá er enn óvissa um hver afdrif þess verða á yfirstandandi þingi. Að auki hef ég lagt fram sjö önnur mál sem minna hefur borið á og þar af fengið eina þingsályktunartillögu samþykkta. Hún felur í sér að forsætisráðherra innleiði verklagsreglur um fjarfundi fyrir ráðuneytin, í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneytin. Frumvarp um breytingar á lögum um líffæragjöf er komið vel áleiðis í Velferðarnefnd og ég bind vonir við að það fáist samþykkt á vorþingi en mér sýnist að hin málin sem ég lagði fram fáist því miður ekki afgreidd, þau eru: Breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að þeir foreldrar sem búa langt frá fæðingastað fá viðbót við sitt fæðingarorlof í samræmi við þann tíma sem fólk þarf að vera fjarri heimili sínu og bíða fæðingar. Frumvarp um breytingar á lögum um barnalífeyri hefur ekki verið afgreitt, ekki heldur frumvarp um réttindi barna til að vita uppruna sinn og frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, sinni þeir námi eða vinnu á meðan á afplánun stendur. Nýlega lagði ég fram nýtt frumvarp varðandi aukið eftirlit með hættulegum dæmdum barnaníðingum, eftir að afplánun lýkur en það hefur ekki komist á dagskrá.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og góðu gengi í kosningunum framundan. Framsókn til framtíðar – XB!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist í Þjóðólfi maí 2018.