Á yfirstandandi ári náði Mosfellsbær þeim merka áfanga að komast yfir 13 þúsund manns í íbúafjölda, sem er merkilegur áfangi.
Sér í lagi ef við spólum rúma tvo áratugi aftur í tímann eða í kringum aldamót, þá voru íbúar rétt um 6 þúsund. Á þeim tíma voru Leirvogstungu- og Helgafellshverfin enn fjarlægur draumur, sama má segja um Krikahverfið. Eini grunnskóli bæjarins var þá Varmárskóli og aðeins ein almenningssundlaug, okkar kæra Varmárlaug.
Á árinu 1999 leit Atvinnu- og ferðamálastefna fyrir Mosfellsbæ dagsins ljós, var hún gerð til fjögurra ára eða til ársins 2003, með yfirskriftina „Mosfellsbær – heit sveit með sögu“. Síðan hefur heilmikið vatn runnið til sjávar og Mosfellsbær tekið á sig gjörbreytta mynd, með rúmlega tvöfalt fleiri íbúa.
Það er því hægt að fullyrða að Mosfellsbær er sveitarfélag í miklum vexti, ef áætlanir ganga eftir þá mun vöxturinn áfram vera með svipuðum hraða næstu árin. Í dag stöndum við frammi fyrir því að mikil uppbygging á nýju hverfi mun hefjast innan skamms á Blikastaðalandinu. Eins og kynnt hefur verið þá verða fyrstu húsin sem rísa í Blikastaðalandinu á atvinnusvæði sem verður umfangsmeira en við eigum almennt að venjast í Mosfellsbæ. Nú er því lag að móta framtíðarsýn fyrir atvinnu- og nýsköpun í Mosfellsbæ til að skapa það umhverfi sem okkur hugnast helst í þeim málum til framtíðar. Með tilkomu nýrrar atvinnu- og nýsköpunarnefndar þá verða þau verkefni tekin föstum tökum og meðal fyrstu verkefna nefndarinnar verður að leiða vinnu við heildar atvinnu- og nýsköpunarstefnu fyrir Mosfellsbæ.
Þetta er einstakt tækifæri á tímum mikilla breytinga. Tæknibreytingar, umhverfismál, almenningssamgöngur, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar hafa haft og munu hafa áhrif á það hvernig fólk kýs að búa og starfa. Við eigum kost á því í þessari vinnu að velta fyrir okkur hvernig samfélag við viljum skapa. Hvað er það í okkar nærumhverfi sem skiptir okkur mestu máli? Hvernig mun Mosfellsbær líta út eftir önnur 20 ár og hvaða áherslur verða hjá íbúum þess tíma?
Í dag er fjöldi fyrirtækja með starfsemi í Mosfellsbæ og þurfum við að hlúa vel að þeim. Vissulega er litið á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnusvæði, en Mosfellsbær hefur fulla burði til að styrkja sína stöðu sína enn frekar sem eftirsóknarverður kostur fyrir fyrirtæki til að reka starfsemi sína. Tækifærin eru til staðar, það er okkar að stuðla að því að búa til farveg sem ýtir enn frekar undir nýsköpun og framtakssemi.
Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.
Greinin birtist fyrst á mosfellingi.is 27. október 2022.