Categories
Greinar

Af atvinnumálum í Mosó

Deila grein

19/09/2024

Af atvinnumálum í Mosó

Nú þegar rétt um ár er síðan gildandi atvinnustefna fyrir Mosfellsbæ var samþykkt af bæjarstjórn er tilvalið að taka stöðuna á framvindu verkefna sem því tengjast.
Atvinnustefnan var tímabær fyrir okkar ört vaxandi sveitarfélag, til að skerpa á áherslum í atvinnumálum og ýta undir frekari framþróun og verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Svo ekki sé minnst á þau auknu tækifæri og lífsgæði fyrir íbúa sem fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf skapar.

Fyrst ber að nefna þróunarverkefni fyrir Álafosskvos, sem hefur verið í vinnslu síðan í vor í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið gengur út á að greina áfangastaðinn og finna tækifæri til að efla hann enn frekar.
Álafosskvos hefur að geyma mikla sögu og sterkan karakter sem bæjarbúar eru væntanlega flestir sammála um að þurfi að miðla enn betur, hvort sem það er til íbúa eða ferðamanna. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi þann 14. október nk., eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Innleiðing á atvinnustefnunni er komin vel á veg og er nú þegar tveimur verkefnum lokið. Annars vegar er það að gera upplýsingar um framboð atvinnulóða og lóðir samkvæmt skipulagi aðgengilegar á vef bæjarins. Hins vegar er það skilgreining á uppbyggingu atvinnu- og menningar í Álafosskvos í samvinnu við íbúasamtök og aðra hagsmunaaðila.
Fleiri verkefni eru svo komin vel af stað, má þar nefna markaðsáætlun fyrir sveitarfélagið, uppfærslu á viðeigandi upplýsingum á vef bæjarins o.fl.
Þróunarverkefnin á Varmársvæðinu og við Háholt 5 eru líka áhugaverð verkefni sem tala vel við atvinnustefnu bæjarins. Markmiðið þar er að kanna áhuga á samstarfi við uppbyggingu á svæðinu, sem býður upp á fjölda möguleika. Þarna er vafalaust spennandi tækifæri fyrir rétta aðila til að koma að uppbyggingu á sögufrægu svæði sem daglega iðar af mannlífi.

Á dögunum skrifuðu öflug fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna á Korputúni, sem er mjög ánægjulegt. Korputún er vistvottaður atvinnukjarni á 15 ha svæði sem væntingar standa til að byggist upp á um 10 ára tímabili. Svæðið er vel staðsett og mun bjóða upp á mjög góðar samgöngutengingar.

Það er allra hagur að í Mosfellsbæ þrífist blómlegt atvinnulíf, með því að beita sér getur sveitarfélagið haft áhrif og stutt undir frekari vöxt og uppbyggingu.
Við munum halda áfram með innleiðingu á atvinnustefnunni ásamt fleiri verkefnum sem hafa það að markmiði að gera Mosfellbæ að enn eftirsóknarverðari kosti þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 19. september 2024.

Categories
Greinar

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Deila grein

11/06/2024

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.

Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal

Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.

Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.

Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman

Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.

Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 6. júní 2024.

Categories
Greinar

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Deila grein

12/10/2023

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Nú á dögunum staðfesti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið, þótti starfandi meirihluta tímabært að mörkuð yrði skýr stefna í þeim málaflokki.

Mikil samstaða var um að farið yrði af stað í stefnumótunarvinnu í kjölfar síðustu kosninga og greinilegt að þörf var á skerpingu í atvinnumálum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar leiddi stefnumótunarvinnuna sem hófst í byrjun árs og lauk nú á sumarmánuðum, fékk nefndin utanaðkomandi ráðgjafa til að halda utan um verkefnið frá byrjun.
Það var mikið lagt upp úr því að stefnan yrði hnitmiðuð og auðlesin, markmiðin raunhæf og hægt að ýta sem flestum aðgerðum úr vör á næstu 1-3 árum. Ásamt því að árangur aðgerða yrði mælanlegur til að gera alla eftirfylgni skilvirkari og markvissari.

Vel heppnaður íbúafundur

Það komu fjölmargir að stefnumótunarvinnunni en mikilvægur partur af ferlinu var að opna umræðuna með íbúum og var vel heppnaður íbúafundur haldinn í Fmos á vormánuðum. Mætingin var mjög góð og umræður gagnlegar í meira lagi. Það bar þess greinilega merki að íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þótti þörf á því að bærinn kæmi markvisst að því að efla enn frekar atvinnulíf í sveitarfélaginu.

Öflugu atvinnulífi fylgir aukin þjónusta fyrir íbúa og frekari tækifæri, íbúafjöldinn í Mosfellsbæ er farinn að nálgast 14 þúsund og það væri kærkomið að sjá jafn kröftugan vöxt í atvinnuuppbyggingu samhliða hröðum íbúavexti. Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið sé skilgreint sem eitt atvinnusvæði þá skapar sérstaða Mosfellsbæjar fjöldamörg sóknarfæri sem í enn frekara mæli ber að nýta. Hér eru vissulega fjöldi öflugra fyrirtækja starfandi sem má ekki gleyma í þessu samhengi, en að sama skapi á sveitarfélagið mikið inni í atvinnumálum.

Öflug upplýsingamiðlun og markaðssetning

Megininntak atvinnustefnunnar er annars vegar hvernig sveitarfélagið geti stutt sem best við atvinnuuppbyggingu og hins vegar helstu áherslu atvinnugreinar. Það kemur fram að mikilvægt sé að huga vel að upplýsingamiðlun og þá helst varðandi framboð atvinnulóða og móttöku fyrirspurna, nauðsynlegt að ferlið sé sem einfaldast og að allar helstu upplýsingar séu aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar.

Hin hliðin á peningnum er öflug markaðssetning, í stefnunni er fjallað um frumkvæði sveitarfélagsins, t.d. með gerð markaðsáætlunar og skilgreiningu á ábyrgðaraðilum vegna þeirra verkefna sem bíða við innleiðingu á stefnunni.

Næstu skref

Nú tekur við innleiðingarferli á atvinnustefnunni þar sem hægt verður að hrinda fyrstu aðgerðum í framkvæmd og undirbúa jarðveginn fyrir frekari uppbyggingu. Stefnan hefur ekki verið birt, en það má búast við að hún verði birt á vef Mosfellsbæjar á næstunni. Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér innihaldið þegar að því kemur.

Að lokum vill undirritaður þakka öllum þeim sem komu að vinnunni við stefnumótunina fyrir hönd Atvinnu- og nýsköpunarnefndar, þar er okkar trú að þetta verði farsælt skref fyrir Mosfellsbæ sem blæs frekara lífi í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 12. október 2023.

Categories
Greinar

Framtíðarsýn í atvinnumálum

Deila grein

01/11/2022

Framtíðarsýn í atvinnumálum

Á yfirstandandi ári náði Mosfellsbær þeim merka áfanga að komast yfir 13 þúsund manns í íbúafjölda, sem er merkilegur áfangi.
Sér í lagi ef við spólum rúma tvo áratugi aftur í tímann eða í kringum aldamót, þá voru íbúar rétt um 6 þúsund. Á þeim tíma voru Leirvogstungu- og Helgafellshverfin enn fjarlægur draumur, sama má segja um Krikahverfið. Eini grunnskóli bæjarins var þá Varmárskóli og aðeins ein almenningssundlaug, okkar kæra Varmárlaug.
Á árinu 1999 leit Atvinnu- og ferðamálastefna fyrir Mosfellsbæ dagsins ljós, var hún gerð til fjögurra ára eða til ársins 2003, með yfirskriftina „Mosfellsbær – heit sveit með sögu“. Síðan hefur heilmikið vatn runnið til sjávar og Mosfellsbær tekið á sig gjörbreytta mynd, með rúmlega tvöfalt fleiri íbúa.
Það er því hægt að fullyrða að Mosfellsbær er sveitarfélag í miklum vexti, ef áætlanir ganga eftir þá mun vöxturinn áfram vera með svipuðum hraða næstu árin. Í dag stöndum við frammi fyrir því að mikil uppbygging á nýju hverfi mun hefjast innan skamms á Blikastaðalandinu. Eins og kynnt hefur verið þá verða fyrstu húsin sem rísa í Blikastaðalandinu á atvinnusvæði sem verður umfangsmeira en við eigum almennt að venjast í Mosfellsbæ. Nú er því lag að móta framtíðarsýn fyrir atvinnu- og nýsköpun í Mosfellsbæ til að skapa það umhverfi sem okkur hugnast helst í þeim málum til framtíðar. Með tilkomu nýrrar atvinnu- og nýsköpunarnefndar þá verða þau verkefni tekin föstum tökum og meðal fyrstu verkefna nefndarinnar verður að leiða vinnu við heildar atvinnu- og nýsköpunarstefnu fyrir Mosfellsbæ.
Þetta er einstakt tækifæri á tímum mikilla breytinga. Tæknibreytingar, umhverfismál, almenningssamgöngur, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar hafa haft og munu hafa áhrif á það hvernig fólk kýs að búa og starfa. Við eigum kost á því í þessari vinnu að velta fyrir okkur hvernig samfélag við viljum skapa. Hvað er það í okkar nærumhverfi sem skiptir okkur mestu máli? Hvernig mun Mosfellsbær líta út eftir önnur 20 ár og hvaða áherslur verða hjá íbúum þess tíma?
Í dag er fjöldi fyrirtækja með starfsemi í Mosfellsbæ og þurfum við að hlúa vel að þeim. Vissulega er litið á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnusvæði, en Mosfellsbær hefur fulla burði til að styrkja sína stöðu sína enn frekar sem eftirsóknarverður kostur fyrir fyrirtæki til að reka starfsemi sína. Tækifærin eru til staðar, það er okkar að stuðla að því að búa til farveg sem ýtir enn frekar undir nýsköpun og framtakssemi.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingi.is 27. október 2022.