Categories
Greinar

Frekjupólitík og kosningatap

Deila grein

26/05/2015

Frekjupólitík og kosningatap

Vigdís HauksdóttirÁ síðasta kjörtímabili var ruðst inn í 14 ára samkomulag um röðun virkjanakosta undir dyggri stjórn Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra. Tók hún virkjunarkosti úr nýtingarflokki og setti í biðflokk og öfugt. Vatnsaflsvirkjanir eru langhagkvæmasti og umhverfisvænsti kosturinn. Árnar streyma áfram endalaust í hundruð ára og eru ótakmörkuð auðlind. Háhitasvæði eru takmörkuð auðlind og duga í 25-80 ár eftir svæðum. Áhrif jarðvarmavirkjana eru lítið rannsökuð hér á landi og útblástur frá þeim veldur mengun.

Þessi umhverfissjónarmið viku á síðasta kjörtímabili. Umhverfisráðherrann Svandís sem fékk á sig Hæstaréttardóm vegna Þjórsármála, sagðist vera í pólitík en þyrfti ekki að lúta lögum – gerði það að tillögu sinni að ráðast inn á friðlýst svæði og fólkvanga á Reykjanesi og setti virkjunarkosti þar í nýtingu. Allt í samráði við þáverandi iðnaðarráðherra sem þurfti að »sýna sig« á heimavelli. Auk þess var bætt um betur og þónokkrir virkjunarkostir á Kröflusvæðinu á heimasvæði þáverandi formanns VG, Steingríms J. Sigfússonar, settir í nýtingarflokk. Gjaldið var eftirgjöf VG í ESB-málinu og þar með stærstu kosningasvik stjórnmálaflokks hér á landi.

Hér á eftir fara valdir kaflar úr bók Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, sem lýsir því sem gerðist á bak við tjöldin í pólitískum hrossakaupum á síðasta kjörtímabili – sem á ekkert skylt við umhverfisvernd. Gefum Össuri orðið: »Mánudagur 5. mars. Hefðbundinn ráðherrafundur sem byrjar í friðsemd snýst upp í hvassar hnippingar milli mín og Jóhönnu Sigurðardóttur út af rammanum og ESB. Það byrjar með því að forsætisráðherra og Oddný G. Harðardóttir, sem er líka iðnaðarráðherra í bili, segja að þær hafi lokið samningum við VG og niðurstaðan feli í sér frestun á virkjunum í Hágöngum og Skrokköldu og rök Orra Vigfússonar um laxastofna eigi að útskýra frestun Þjórsár. Hins vegar ætti að taka Eldvörp á Suðurnesjum inn í nýtingarflokk. Það er væntanlega til að styrkja Helguvíkurdæmið. Stöllurnar vilja taka málið í gegnum ríkisstjórn á morgun – og leggja áherslu á að allir ráðherrarnir tryggi að þingflokkurinn styðji málið. Með »allir ráðherrar« eiga þær náttúrlega við mig. Þær vita vel að ramminn fer aldrei svo breyttur í gegnum þingflokkinn nema ég beiti mér fyrir því. Jóhanna segir að VG geti ekki lifað við aðra niðurstöðu. Það mundi leiða til slita á ríkisstjórninni. Ég dreg hins vegar ekki í efa orð hennar um að þessi niðurstaða sé samstarfsflokknum jafn mikilvæg og aðildarumsóknin okkur. Ég vil að Jóhanna, sem formaður flokksins, fái ESB-málið á hreint við VG áður en ramminn haldi áfram. Hún hafi sjálf lagt þessi mál að jöfnu og þá finnst mér rétt að þau haldist í hendur.« Össur heldur áfram og rifjar upp laugardaginn 24. mars 2012: »Innan VG er hópur sterkra umhverfissinna sem m.a. tengist Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur og Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra þingflokksins, sem mun frekar yfirgefa VG en láta Þjórsárvirkjanir yfir sig ganga. Hópurinn er þegar hundfúll út í ráðherra VG fyrir að hafa fallist á að taka Eldvörpin á Suðurnesjum inn í nýtingarflokk og tengja réttilega við fyrirhugað álver í Helguvík. Ráðherrum VG, sem sækja fast að ramminn verði afgreiddur með breytingum sem Jóhanna hefur fallist á, líst ekki á blikuna þegar stór hluti þingflokks Samfylkingarinnar bakkar ekki upp tillögu formannsins. Það er í fyrsta skipti sem það hefur gerst. Ofan á hlaðast svo hótanir um refisaðgerðir frá Evrópu sem vekja sterkar öldur innan flokksins. VG er með böggum hildar yfir stöðunni. Sjálfur hef ég ekki farið dult með að vilja seinka rammanum til að hafa hann sem vogarafl til að tryggja starfsfrið hjá VG gagnvart ESB-umsókninni fram eftir ári.« Þann 18. júní 2014 hafði Össur skrifað þetta í dagbók sína og birtir í bók sinni: »Út af stendur ramminn. Hann verður ekki afgreiddur fyrr en í haust. Fyrir VG er hann jafn mikils virði og ESB er okkur. Það er á flestra vitorði að ég lít á rammann sem tryggingu fyrir því að VG stöðvi ekki ESB-málið.«

Höfuðdjásn Vinstri grænna, að friða Ísland, og höfuðdjásn Samfylkingarinnar, að ganga í Evrópusambandið, var í húfi hjá báðum flokkum – og báðir flokkar lögðu allt undir.

Ágæti lesandi – þessum pólitísku hrossakaupum Samfylkingarinnar og VG er nú verið að snúa til baka. Þjóðþingið er um það bil að leggjast á hliðina – slík er frekjupólitík stjórnarandstöðunnar í málinu. Öllum brögðum er beitt og allir dagskárliðir misnotaðir. Fyrir þessu fer fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem leggur allt undir í málinu. Undir kápunni hennar glittir í gamla Steingrím J. »umhverfissinna« og stóryrði eins og gamaldag stóriðjupólitík, spúandi álverksmiðjur, gamaldags karlapólitík, gamla stóriðjudólgastefnan, blind dólgastóriðjusjónarmið, forneskjur á þingi, risaeðlur sem vilja gömlu tímana í umhverfismálum og subbuleg vinnubrögð eru aftur orðin orðfæri þingmannsins.

Þessir flokkar voru kosnir eftirminnilega frá völdum í alþingiskosningunum 2013 en neita að sleppa völdum.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2015.