Categories
Greinar

Gleðilegt sumar!

Deila grein

22/04/2021

Gleðilegt sumar!

Fyr­ir 50 árum stóð mik­ill mann­fjöldi á miðbakk­an­um í Reykja­vík. Sól­in skein og eft­ir­vænt­ing­in í loft­inu var áþreif­an­leg. Lúðrasveit Reykja­vík­ur lék á als oddi, og tón­list­in gladdi hvers manns hjarta enn meir. Skát­ar og lög­regluþjón­ar stóðu heiðursvörð og lands­menn í sínu fín­asta pússi. Varðskipið Ægir fylgdi danska varðskip­inu Vædd­eren til hafn­ar. Hand­rit­in voru kom­in!

Áhugi þjóðar­inn­ar kom eng­um á óvart, enda farm­ur­inn í Vædd­eren ómet­an­leg­ur; Flat­eyj­ar­bók, feg­urst og glæsi­leg­ust allra bóka, og Kon­ungs­bók Eddu­kvæða sem er fræg­ust fyr­ir inni­hald sitt, frek­ar en um­gjörðina.

Und­ir lok 16. ald­ar upp­götvuðu fræðimenn í Dan­mörku og Svíþjóð að á Íslandi væri að finna hand­rit að forn­um sög­um sem vörðuðu fortíð land­anna. Áhugi þeirra var mik­ill og smám sam­an komust frændþjóðir okk­ar yfir fjölda dýr­gripa. Er­ind­rek­ar þeirra fluttu suma úr landi, en krúnu­djásn­in – Flat­eyj­ar­bók og Kon­ungs­bók eddu­kvæða – færði Brynj­ólf­ur bisk­up Sveins­son Dana­kon­ungi að gjöf í þeirri von að rit­smíðarn­ar yrðu þýdd­ar og gefn­ar út. Sú varð ekki raun­in fyrr en löngu síðar en það má halda því fram, að gjöf­in hafi orðið hand­rit­un­um til bjarg­ar enda aðstæður til varðveislu ekki góðar á þeim tíma hér­lend­is.

Það var mik­ill áfangi þegar hand­rit­in komu heim, og 21. apríl 1971 er einn af mik­il­væg­ustu dög­un­um í okk­ar menn­ing­ar­sögu.

Í dag stönd­um við aft­ur á tíma­mót­um. Við lögðum horn­stein í Hús ís­lensk­unn­ar og kynnt­um sam­eig­in­lega nefnd Íslands og Dan­merk­ur í gær. Nefnd­in fær það hlut­verk að semja um nán­ara hand­rita­sam­starf Dana og Íslend­inga. Mark­miðið er að auka veg þessa fjár­sjóðs sem þjóðunum tveim­ur er treyst fyr­ir, efla rann­sókn­ir á hon­um og bæta miðlun menn­ing­ar­arfs­ins.

Þótt margt hafi breyst frá því eddu­kvæðin voru rituð á inn­takið enn brýnt er­indi við okk­ur. Mik­il­vægi vinátt­unn­ar, heiðarleika og trausts er vand­lega rammað inn í Há­va­mál og Völu­spá birt­ir í skáld­leg­um leift­ur­sýn­um heims­mynd og heims­sögu hinn­ar fornu trú­ar, sem í dag er inn­blást­ur lista­manna um all­an heim – rit­höf­unda, kvik­mynda­gerðarmanna og tölvu­leikja­fram­leiðenda.

Skila­boð eddu­kvæðanna eru heim­ild sem á brýnt er­indi við börn og ung­linga, upp­spretta hug­mynda og ímynd­un­ar – eig­in­leika sem hafa lík­lega aldrei verið mik­il­væg­ari en nú. Framtíðar­hag­kerfi munu ráðast að miklu leyti af þess­um þátt­um og það er stór­kost­legt að menn­ing­ar­arf­ur þjóðar­inn­ar rími eins vel og raun ber vitni við framtíðina.

Í dag er sum­ar­dag­ur­inn fyrsti. Við skul­um njóta þess að ís­lenska sum­arið er fram und­an. Hús ís­lensk­unn­ar rís og ég er vongóð um að já­kvæð niðurstaða komi út úr dansk/​ís­lensku sam­starfs­nefnd­inni. Við sjá­um fyr­ir end­ann á bar­átt­unni við far­ald­ur­inn, bólu­setn­ing­ar ganga vel og sam­an klár­um við þetta á loka­sprett­in­um.

Gleðilegt sum­ar!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. apríl 2021.