Fyrir 50 árum stóð mikill mannfjöldi á miðbakkanum í Reykjavík. Sólin skein og eftirvæntingin í loftinu var áþreifanleg. Lúðrasveit Reykjavíkur lék á als oddi, og tónlistin gladdi hvers manns hjarta enn meir. Skátar og lögregluþjónar stóðu heiðursvörð og landsmenn í sínu fínasta pússi. Varðskipið Ægir fylgdi danska varðskipinu Vædderen til hafnar. Handritin voru komin!
Áhugi þjóðarinnar kom engum á óvart, enda farmurinn í Vædderen ómetanlegur; Flateyjarbók, fegurst og glæsilegust allra bóka, og Konungsbók Eddukvæða sem er frægust fyrir innihald sitt, frekar en umgjörðina.
Undir lok 16. aldar uppgötvuðu fræðimenn í Danmörku og Svíþjóð að á Íslandi væri að finna handrit að fornum sögum sem vörðuðu fortíð landanna. Áhugi þeirra var mikill og smám saman komust frændþjóðir okkar yfir fjölda dýrgripa. Erindrekar þeirra fluttu suma úr landi, en krúnudjásnin – Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða – færði Brynjólfur biskup Sveinsson Danakonungi að gjöf í þeirri von að ritsmíðarnar yrðu þýddar og gefnar út. Sú varð ekki raunin fyrr en löngu síðar en það má halda því fram, að gjöfin hafi orðið handritunum til bjargar enda aðstæður til varðveislu ekki góðar á þeim tíma hérlendis.
Það var mikill áfangi þegar handritin komu heim, og 21. apríl 1971 er einn af mikilvægustu dögunum í okkar menningarsögu.
Í dag stöndum við aftur á tímamótum. Við lögðum hornstein í Hús íslenskunnar og kynntum sameiginlega nefnd Íslands og Danmerkur í gær. Nefndin fær það hlutverk að semja um nánara handritasamstarf Dana og Íslendinga. Markmiðið er að auka veg þessa fjársjóðs sem þjóðunum tveimur er treyst fyrir, efla rannsóknir á honum og bæta miðlun menningararfsins.
Þótt margt hafi breyst frá því eddukvæðin voru rituð á inntakið enn brýnt erindi við okkur. Mikilvægi vináttunnar, heiðarleika og trausts er vandlega rammað inn í Hávamál og Völuspá birtir í skáldlegum leiftursýnum heimsmynd og heimssögu hinnar fornu trúar, sem í dag er innblástur listamanna um allan heim – rithöfunda, kvikmyndagerðarmanna og tölvuleikjaframleiðenda.
Skilaboð eddukvæðanna eru heimild sem á brýnt erindi við börn og unglinga, uppspretta hugmynda og ímyndunar – eiginleika sem hafa líklega aldrei verið mikilvægari en nú. Framtíðarhagkerfi munu ráðast að miklu leyti af þessum þáttum og það er stórkostlegt að menningararfur þjóðarinnar rími eins vel og raun ber vitni við framtíðina.
Í dag er sumardagurinn fyrsti. Við skulum njóta þess að íslenska sumarið er fram undan. Hús íslenskunnar rís og ég er vongóð um að jákvæð niðurstaða komi út úr dansk/íslensku samstarfsnefndinni. Við sjáum fyrir endann á baráttunni við faraldurinn, bólusetningar ganga vel og saman klárum við þetta á lokasprettinum.
Gleðilegt sumar!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. apríl 2021.