Laugardaginn 30. nóvember síðastliðinn rann út tilboðsfrestur í tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum frá Evrópusambandinu samkvæmt reglugerð nr. 1168/2024 fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2025.
Og nú nýverið lauk útboðsferli vegna tollkvóta á landbúnaðarvörum, sem veitir heimild til innflutnings á kjöti, ostum og plöntum með engum eða lægri tollum en almennt er kveðið á um. Tollkvótum er útdeilt með útboði, og hefur eftirspurn oft reynst langt umfram framboð.
Um þessar mundir sést gríðarleg aukning á innflutningi á lambakjöti sem kemur mestmegnis frá Írlandi og er selt á matvörumarkaði og á veitingastöðum hérlendis. Hins vegar hefur þessi innflutningur, og þær aðferðir sem sumir aðilar nota til áframvinnslu og sölu, leitt til blekkingar gagnvart íslenskum neytendum.
Algengt er að minni kjötvinnslur sem ekki eru afurðastöðvar á Íslandi kaupi frosið lambakjöt sem flutt er inn að utan, þíði kjötið upp, kryddi það og selji afurðirnar á markaði undir eigin merki. Pakkningar geta oft verið villandi fyrir neytendur, þrátt fyrir erlendan uppruna eru þær merktar á þann veg að gefið er til kynna að um innlenda framleiðslu sé að ræða, jafnvel með íslenskum fánaröndum eða undir íslensku vörumerki.
Slíkar aðferðir grafa undan trausti neytenda og skapa samkeppnisójöfnuð fyrir íslenska bændur og framleiðendur. Mikilvægt er að tryggja skýrar og gagnsæjar merkingar á matvöru til að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir um kaup sín. Regluverki þarf að fylgja fast eftir til að koma í veg fyrir rangar upplýsingar.
Sem neytandi getur þú ekki verið þess fullviss þegar þú borðar á veitingahúsi eða í mötuneyti á þínum vinnustað, að lambakjötið sé frá Íslandi. Þetta er sá veruleiki sem við búum við í dag.
Með því að setja skorður við innflutningnum og hækka verndartolla stuðlum við að því sem þjóð að byggja undir betri starfsskilyrði fyrir bændur og vinnum markvisst að því að tryggja sjálfbærni og um leið fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar.
Sérstaða íslenskra matvara er einstök á heimsvísu þar sem lyfja- og varnarefnanotkun í landbúnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekkist í heiminum auk þess sem notkun vaxtarhormóna er bönnuð. Það er brýnt heilbrigðismál að komið sé í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi með ströngum ráðstöfunum, en sýklalyfjaónæmi er ört vaxandi ógn í heiminum.
Framsókn vill auka tollvernd í þágu íslensks landbúnaðar og tryggja að verklag og eftirlit með úthlutun tollkvóta sé í samræmi við ákvæði samninga um tollvernd. Uppfæra þarf gjöld tollskrár og tryggja að tollkvótar séu verðlagðir í samræmi við tilgang sinn. Tollasamningur við Evrópusambandið á að sæta endurskoðun með það að markmiði að tryggja jafnvægi í skuldbindingum samningsaðila út frá ávinningi. Framsókn telur brýnt að styrkja tollaeftirlit verulega og gera það sambærilegt því sem þekkist í samanburðarríkjum.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2025.