Traust er ein af mikilvægustu undirstöðum lýðræðislegra samfélaga. Traust mælist hátt til opinberra stofnana á Norðurlöndum í samanburði við mörg önnur ríki. Norðurlöndin tala stundum um traustið sem „norræna gullið“. Falskar fréttir og upplýsingaóreiða eru raunveruleg ógn við lýðræðið. Þegar fólk getur ekki treyst þeim upplýsingum sem það fær þá er ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun og uppfylla lýðræðislega skyldu sína. Við höfum ekki efni á að glata gullinu okkar.
Stöndum vörð
Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði 2020. Yfirskrift formennskuáætlunar okkar er „Stöndum vörð“ og þar undir eru gildi sem Norðurlöndin leggja alla jafna áherslu á; þ.e. lýðræði, líffræðileg fjölbreytni og norrænu tungumálin. Nýlega bárust þær fréttir frá fréttamiðlinum NRK í Noregi að Aftenposten, Dagbladet, NRK, TV 2 og VG notuðu efni frá Internet Research Agency, sem er rússneskur falsfréttamiðill.
Saman erum við sterkari
Dreifing villandi og falskra upplýsinga er aðferð sem hefur oft verið skipulega beitt í deilum og átökum. Með þeirri byltingu sem orðið hefur í net- og upplýsingatækni, ekki síst með tilkomu og hröðum vexti samfélagsmiðla, hefur þessi ógn tekið á sig uggvænlegri mynd.
Hægt er að safna margvíslegum upplýsingum um notendur miðlanna og beina í kjölfarið að þeim sérsniðnum falsfréttum og áróðri sem ætla má að þeir séu móttækilegir fyrir. Ljóst er að stjórnvöld geta ekki ein ráðið fram úr þessum vanda. Við þörfum öll að taka höndum saman og verjast þessari nýju ógn.
Eldra fólk deilir frekar fölskum fréttum
Það kom m.a. fram á málþingi Þjóðaröryggisráðs, utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem haldið var fyrir skömmu að fólk 60 ára og eldra er líklegast til að deila fölskum fréttum á samfélagsmiðlum. Börn og ungmenni eru almennt tæknilæsari en eldra fólk og alast upp við að birtar upplýsingar séu ekki endilega sannar. Við erum því að fást við breytta heimsmynd og nýjar ógnir. Alltaf þarf að velta fyrir sér með gagnrýnum hætti hvaðan upplýsingarnar koma, hvort heimildin sé áreiðanleg.
Með því að setja lýðræði og falskar fréttir á dagskrá í formennskuáætlun okkar árið 2020 vonumst við til að skapa meiri umræðu um málefnið og auka meðvitund og þekkingu almennings.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar og forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 4. mars 2020.