Categories
Greinar

Gott sam­fé­lag

Deila grein

27/01/2023

Gott sam­fé­lag

Hvað er samfélag og hvað einkennir gott samfélag? Ég held að við flest teljum að við tilheyrum og séum hluti af góðu samfélagi.

Ég sjálfur er alinn upp í Hafnarfirði og bý þar ásamt fjölskyldu minni. Þar var gott að alast upp, þar er gott vera og þar er gott að ala upp börnin sín.

Vaxtarverkir

Hafnarfjörður hefur stækkað gríðarlega frá því að ég sleit barnsskónum, en í þeirri miklu stækkun og öllum þeim vaxtarverkjum sem slíku fylgir tel ég að vel hafi tekist til við að halda utan um fólkið.

Hafnarfjörður er bær í sveit ef svo má segja og ég tel almennt að íbúar upplifi sig sem hluta af heild, þátttakendur í góðu samfélagi. Það er mikilvægt.

Góð umgjörð

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill í samfélaginu. Það þekki ég úr mínum heimabæ. Fólk stendur saman þegar á bjátar, það er tilbúið að koma og rétta fram hjálparhönd eða sýna samkennd með öðrum hætti.

Við erum gott samfélag með góða umgjörð, en það er eins og annað í lífinu að víða má gera betur og laga til eða fínstilla ákveðna þætti eins og það er stundum orðað.

Samstaða og samfélagsleg ábyrgð

Íbúar um allt land finna nú fyrir þeim miklu hækkunum sem eru að verða hvar sem litið er. Við sjáum það á lánum okkar, leigugreiðslum, matarkörfunni, tryggingum og svo mætti lengi telja.

Fólk tekur eftir og finnur fyrir því á eigin skinni að þetta hefur áhrif á fjármálin. Það reynir því víða á um þessar mundir og mikilvægt að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu.

Breiðu bökin

Nú reynir einnig á hin svokölluðu breiðu bök og að þau sýni að ekki þurfi að velta öllum hækkunum beint út í samfélagið með tilheyrandi áhrifum á fjármál heimila. Þau geta, en það er víst annað en að vilja.

Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2023.