Categories
Greinar

Hækkum hvata­greiðslur í 60.000 krónur

Deila grein

04/05/2022

Hækkum hvata­greiðslur í 60.000 krónur

„Góðan dag, ég heiti Sighvatur og er nýfluttur í Innri-Njarðvík,“ sagði ég hátt og snjallt við starfsmann í byggingavöruverslun í Reykjanesbæ sumarið 2018. Hann svaraði brosandi: „Ég votta þér samúð.“ Með frábærum húmor sem minnti mig á heimahagana í Vestmannaeyjum kom maðurinn því vel til skila með þessum orðum að hann væri Keflavíkurmegin í lífinu.

Ég sprakk úr hlátri sem varð til þess að afgreiðslumaðurinn baðst afsökunar á þessu góðlátlega gríni. „Ef þú vilt losna við svona brandara þá skaltu bara segjast vera nýfluttur í Reykjanesbæ. Þá vitum við að þú ert aðkomumaður,“ sagði hann vinalegri og ráðgefandi röddu.

Íþróttir, menntun, menning og markaðsmál

Maður þarf að hafa húmor fyrir ríg sem ríkir á milli nágrannaliða eins og Keflavíkur og Njarðvíkur. Ég spilaði fótbolta í Eyjum lengst af með Þór. Ég fór reyndar yfir í Tý í 3. flokki og hef því reynslu af því að spila með bláa liðinu og því græna.

Ég hef kynnst ýmsum hliðum samfélagsins í Reykjanesbæ eftir búsetu í Innri-Njarðvík þetta kjörtímabil. Konan mín kennir á svæðinu, börnin æfa fótbolta með Njarðvík og ég er í Barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Njarðvíkur ásamt því að syngja með Sönghópi Suðurnesja. Íþrótta- og menntamál standa mér nærri. Einnig menningar- og markaðsmál eftir áralanga reynslu af fjölmiðlum, dagskrárgerð, framleiðslu heimildarmynda og vinnslu ýmis konar kynningarefnis til stafrænnar markaðssetningar.

Hvatagreiðslur fyrir 4-18 ára

Sem ég er kallaður Hvati hef ég séð hversu mikilvægar svokallaðar hvatagreiðslur eru fyrir iðkendur íþrótta í Reykjanesbæ. Ég og félagar mínir í Framsókn erum sammála um hversu áríðandi það er að berjast fyrir því strax að öll börn á aldrinum 4-18 ára njóti þessarar niðurgreiðslu frá sveitarfélaginu. Við munum jafnframt beita okkur fyrir því á komandi kjörtímabili að hvatagreiðslurnar verði hækkaðar í 60.000 krónur.

Reykjanesbær styður vel við íþróttafélögin í sveitarfélaginu. Fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar leggjum við í Framsókn áherslu á að bæta við þann stuðning. Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka var hafist handa við byggingu nýs íþróttahúss við Stapaskóla í Innri-Njarðvík sem á eftir að bæta enn frekar umgjörð körfuboltans í Reykjanesbæ. Ný Ljónagryfja verður eitt af glæsilegum höfuðvígum körfuboltans á landinu.

Tryggjum íbúum Reykjanesbæjar jöfn tækifæri.

Sighvatur Jónsson, skipar 6. sæti á B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2022.