Categories
Greinar

Heildarendurskoðun og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði

Deila grein

27/03/2019

Heildarendurskoðun og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði

Við Íslendingar getum verið stolt af fæðingarorlofskerfinu okkar. Það gerir foreldrum kleift að njóta samvista við börn sín fyrstu mánuðina í lífi þeirra. Á þeim tíma fer fram gríðarlega mikilvægt mótunarferli auk þess sem koma barns kallar á miklar breytingar í fjölskyldunni. Á næsta ári eru 20 ár síðan núverandi fæðingarorlofskerfi tók gildi. Það var Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, sem mælti fyrir lögunum á Alþingi 28. apríl árið 2000. Það má á margan hátt segja að þau hafi haft í för með sér byltingarkenndar breytingar enda var Ísland fyrsta landið í heiminum til að veita feðrum og mæðrum jafnan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Hækkun og lenging í samræmi við stjórnarsáttmála 

Stefna núverandi ríkisstjórnar hefur frá fyrsta degi verið að efla fæðingarorlofskerfið bæði með því að hækka greiðslur og með því að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Fyrri aðgerðir stjórnvalda hafa miðað að því að hækka hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Sú hækkun kom til framkvæmda 1. janúar á þessu ári þegar óskertar greiðslur hækkuðu um 80.000 krónur, eða úr 520.000 krónum í 600.000 krónur á mánuði. Nú er ætlunin að ráðast í lengingu fæðingarorlofs. Stefnt er að því að það verði gert í þrepum og að 1. janúar 2021 verði lenging þess komin að fullu til framkvæmda. Gert er ráð fyrir því að þessu verði þannig háttað að fimm mánuðir séu eyrnamerktir hvoru foreldri fyrir sig og að tvo mánuði sé hægt að velja um hvor aðilinn nýtir.

Ný löggjöf kynnt á 20 ára afmælisári 

Í tilefni af því að árið 2020 verða 20 ár liðin frá gildistöku laganna hef ég ákveðið að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun þeirra í samráði við hagsmunaaðila. Er sú endurskoðun í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur. Í ljósi þess geri ég ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Lagt verður upp með að vinnunni ljúki að hausti árið 2020 eða á tuttugu ára afmæli laganna og að unnt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi það ár. Í millitíðinni mun verða lagt fram frumvarp þar sem kveðið verður á um að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði tíu mánuðir vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar.

Færri feður nýta fæðingarorlofsrétt 

Staðreyndin er sú að færri feður en mæður taka fæðingarorlof og þeir sem taka það nýta lægra hlutfall þeirra daga sem þeir eiga rétt á en mæður. Upplýsingar frá Vinnumálastofnun benda til þess að frá árinu 2009 hafi feðrum sem nýtt hafa rétt sinn til fæðingarorlofs fækkað jafnt og þétt til ársins 2014 þegar þeim fór að fjölga lítillega á ný. Frá árinu 2016 virðist sem feðrum sem hafa nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs hafi fjölgað. Það er þó enn verk að vinna og helsta áskorun fæðingarorlofskerfisins er að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi.

Brúum bilið yfir í dagvistun 

Ein forsenda þess að unnt verði að brúa það bil sem oft er talað um að myndist á milli þess að rétti foreldra til fæðingarorlofs ljúki og þess að barni bjóðist dagvistun á leikskóla er að börnum bjóðist dagvistun á leikskóla við tólf mánaða aldur. Þetta umrædda bil hefur oftar en ekki verið talið streituvaldandi hjá foreldrum og ekki síður hjá stórfjölskyldunni sem getur þurft að taka höndum saman til að dæmið gangi upp. Það má ætla að streitan við að hefja aftur þátttöku á vinnumarkaði, þegar barn er ekki komið með dagvistun á leikskóla, sé enn meiri hjá þeim foreldrum sem ekki hafa sterkt bakland. Það er því mikilvægt að samhliða heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna fari fram samtal og samvinna við sveitarfélög um það hvernig þetta bil verði brúað.

Börnin okkar eru besta fjárfestingin og það hvernig við styðjum við foreldra á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns er grundvallaratriði í þeirri fjárfestingu. Það er á ábyrgð stjórnvalda að haga fæðingarorlofskerfinu með þeim hætti að foreldrar sjái sér fært og sjái hag í að nýta rétt sinn til fulls. Það er í því ljósi gríðarlega ánægjulegt að okkur sé að takast að endurreisa og efla fæðingarorlofskerfið.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2019.