Minnkandi námsframboð á landsbyggðinni er vandi, það er vandi í hverju samfélagi fyrir sig. Þetta er mein sem smitar út frá sér til annarra grunnstoða. Ungt fólk getur ekki lært það sem það vill í sinni heimabyggð og þarf því að flytja annað. Um leið og það er komið á nýjan stað fer það að búa sér til umhverfi, sækja um vinnu, finna íbúð, eignast vini og þar fram eftir götunum.
Þetta sama fólk býr á staðnum í kannski fjögur ár á meðan það stundar námið. Að þessum árum liðnum er umhverfið orðið heilsteyptara. Inn í spilið er kominn maki, jafnvel barn og íbúðin er orðin að heimili, vinnan er skemmtileg og viðkomandi er líka búin að vinna sig upp í góða stöðu þar. Eftir að hafa svo lokið námi býðst viðkomandi föst staða við fyrirtækið og góð laun.
Hvar er hvatinn til að flytja aftur heim í samfélagið þar sem ekkert var í boði fyrir þig, fyrir fjórum árum síðan? Af hverju ættir þú að rífa fjölskylduna upp, losa þig við íbúðina, segja upp vinnunni og flytja heim, til að byrja að skapa þér umhverfi upp á nýtt?
Heftandi eða hvetjandi?
Því miður missa samfélög á landsbyggðinni alltof mikið af ungu fólki á þennan hátt. Námsmöguleikar eiga að vera jafnir óháð búsetu, staðreyndin er sú að það er alls ekki svoleiðis í dag. En staðreyndin er einnig að ekki þarf mikið til að vinna til að svo geti orðið.
Ef við gætum aukið notkun á nútímatækni eins og er t.d. í Háskólasetri Vestfjarða, væri hægt að efla menntaskóla á svæðinu enn frekar, auka fjölbreytni námsleiða, auðvelda námsgagnagerð og stuðla að gagngerðri uppbyggingu á meðan komið er í veg fyrir stöðnun svo við horfum ekki á sama vandamál sem lýst er hér að ofan.
Hægt er að efla tengingu á milli menntakerfis og atvinnulífs á hverju svæði. Með því væri boðið upp á nám tengt blómstrandi atvinnugeirum í byggðarlaginu og möguleikar viðkomandi auknir á að geta búið og starfað í heimabyggð.
Unga fólkið á ekki að þurfa að sækja allt nám til Reykjavíkur eða annarra stærri svæða, samfélagið þarf að koma til móts við þetta fólk. Því þættir sem þessir verka heftandi á ungt fólk og því miður nær það ekki að blómstra sem skyldi ef höft eru á námsvali eða búsetu. Nám á ekki að stýra því hvar fólk þarf að búa.
Færum unga fólkinu námsmöguleika og eflum byggðina heima um leið.
Jóhanna María Sigmundsdóttir,
4. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi