Categories
Greinar

Heima

Deila grein

13/05/2018

Heima

Á meðan skólagöngu minni í Danmörku stóð var ég sífellt spurður af heimamönnum þarlendis afhverju ég ætlaði að flytja heim. „Líkar þér ekki Danmörk?“ var ég spurður.  Eina svarið sem ég gat gefið var að mig langaði bara… heim. Heim þangað sem ég ólst upp og sæki í að vera hverja einustu stund. Heim í Borgarbyggð. Af skólabekknum hef ég fylgst með ungu fólki, mörgum af mínum bestu vinum, flytja heim og koma sér fyrir með sínar fjölskyldur.  Mig langaði bara heim líka!

Fyrir fólk sem vill koma sér fyrir í okkar fallegu byggð er mikilvægt að sveitarstjórn sýni vilja til þess að fá það heim með því að styðja við bakið á því með einhverju móti. Framsóknarfólk í Borgarbyggð vill beita sér fyrir því að sá stuðningur komi í formi lækkaðra gatnagerðagjalda. Það er okkar von að slíkur fjárhagslegur hvati komi til með að styrkja íbúa með beinum hætti og skapi betri möguleika fyrir fólk sem vill flytja á nýtt heimili. Gatnagerðagjöldin munu ekki einungis skila sér til íbúa í íbúðarhugleiðingum, heldur einnig stórauka möguleika nýrra fyrirtækja til að koma sér upp atvinnustarfsemi í okkar héraði og ekki síður gamalgróinna fyrirtækja að stækka við sig.

Varðandi skipulagsmál í Borgarbyggð vildi ég óska þess að ég gæti hér komið fram með töfralausn. Leysa ráðgátuna með einu bragði og öðlast með því hylli kjósenda! En það er því miður ekki svo, hér vantar ekki eina lausn. Heldur eru það margir litlir hlutir sem þarf að sinna með elju og þolinmæði. Í Borgarbyggð þarf að fara í stórátak til að styrkja skipulagssviðið með skilvirkni að leiðarljósi. Fara þarf vel yfir alla þá verkferla sem eiga sér stað allt frá því að umsókn berst til stjórnsýslunnar til afgreiðslu. Mynda þarf góða yfirsýn yfir öll þau litlu vandamál í ferlinu sem eiga sér stað.  En það er ekki nóg að benda bara á vandamálin, heldur þarf að vinna að og skila úrlausn á þeim vandamálum!  Framsóknarfólk í Borgarbyggð vill aðskilja skipulagsnefnd frá Umhverfis- og landbúnaðarnefnd. Með því teljum við að nefndirnar báðar geti skilað af sér skilvirkara starfi og skilað til okkar, íbúum Borgarbyggðar, betra starfi!

Með fjárhagslegum ívilnunum sem og bættu skipulagi er vonin sú að það verði auðveldara fyrir íbúa sem og fyrirtæki að koma sér fyrir í Borgarbyggð. Koma heim.

Að lokum vildi ég óska þess að framsóknarfólk í Borgarbyggð gæti tryggt þér lesandi góður betra veðri! En ef við hefðum nokkuð um það að segja værum  við löngu búin að því!

Orri Jónsson

Höfundur skipar 5. sæti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is