Categories
Greinar

Helgi og kröfuhafar

Deila grein

25/10/2013

Helgi og kröfuhafar

Eygló HarðardóttirÍ nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni. Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna. Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.

Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

 

Eygló Harðardóttir