Categories
Greinar

Hlutdeildarsetning á makríl

Deila grein

25/11/2013

Hlutdeildarsetning á makríl

Sigurður Ingi JóhannssonNokkur umræða hefur verið undanfarna daga vegna fyrirhugaðrar hlutdeildarsetningar á makríl. Mismálefnaleg er hún og ekki alltaf farið rétt með staðreyndir. Ég fagna þeim áhuga sem málið fær, mér finnst margt áhugavert hafa komið fram. Aftur á móti finnst mér líka mjög varhugavert að margir fara af stað með misstaðreyndar fullyrðingar sem haldið er fram af mikilli sannfæringu. Spurt hefur verið í sátt við hverja sé unnið í sjávarútvegi. Og hvort til álita komi að úthluta makríl á uppboðsmarkaði. Svarið er: ég vil að sem flestir verði sáttir, og já ég hef íhugað uppboðsleiðina. En það eru ríki sem hafa prófað að fara þá leið, til dæmis Eistland og Rússland, en bæði fallið frá henni.

Margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum um sanngjarna deilingu makrílkvótans og tekjur af ráðstöfuninni. Reynsla okkar og annarra ríkja hefur sýnt að kvótakerfi, með framseljanlegum aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu, er mjög hagkvæmt.

Það má benda ágætum fyrrverandi sjávarútvegsráðherrum á þá staðreynd að makrílveiðikerfinu var nánast læst á grundvelli veiðireynslu árið 2010. Nú, þegar sex ára veiðireynsla liggur fyrir og væntingar, sem meðal annars hafa skilað sér í verðmætri uppbyggingu og fjárfestingum í búnaði, er örðugt að stíga fram og segja að veiðireynslan hafi litla eða enga þýðingu. Það hefði á þessum tímapunkti, sem kerfinu var lokað, verið hægt að fara uppboðsleiðina hefðu menn haft til þess pólitískan kjark. Mér finnst líklegt að þessu verði svarað með því að ekki hafi verið til staðar samkomulag um makrílinn við önnur strandríki og því ekki hægt að fara í þá aðgerð. Þau rök halda ekki. Í kolmunna, sem er flökkustofn og stýrt með strandríkjasamningi, var aflahlutdeildum úthlutað til skipa áður en samningur um skiptingu milli strandríkjanna náðist.

Mér finnst aftur á móti spennandi að horfa að einhverju leyti til þess hvernig var skipt árið 2010 og hvort það geti að hluta til verið grunnur að skiptingu heimilda. Mjög gott starf var unnið á síðasta kjörtímabili í að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar með kröfum um vinnslu á makríl til manneldis. Mér finnst einnig áhugavert að horfa til þess við útdeilingu réttindanna. Hugað var að fjölbreytileika og byggðasjónarmiðum í þeim reglum sem í kerfinu hafa gilt. Mér finnst æskilegt að réttindaskiptingin taki mið af því.

Við skulum hafa í huga að hefðu stóru útgerðirnar ekki haldið til makrílveiða á undanförnum árum hefði samningsstaða Íslands í makríldeilunni nánast verið vonlaus. Við skulum einnig hafa í huga hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðina að veiðunum sé stýrt. Það er nefnilega svo að makríllinn er ekki raunverulegt verðmæti fyrr en hann er kominn úr sjó. Þjóðin, sem eigandi auðlindarinnar, hlýtur að gera kröfu um hámarksarðsemi af henni. Þessum áhrifum vil ég ná fram með því að leggja til hlutdeildasetningu á makríl. Ég hyggst ekki leggja til að kvótinn verði seldur hæstbjóðanda á uppboði; líklegast yrðu það þá fáir stórir aðilar sem fengju allt. Ég hyggst leggja til að verðmætin verði leigð til þeirra sem þau hafa skapað; verði það niðurstaðan hefði þjóðin leigugjald af veiðum á makríl til framtíðar.

Það er almennt viðurkennt að hámarksarðsemi í kvótakerfum næst með framseljanlegum aflaheimildum. Það er mikilvægt að þeir sem hyggjast nýta þá auðlind sem makríllinn er hafi tækifæri til að nota til þess bestu skipin til að stýra veiðum á hagkvæmasta tíma og treysta markaði. Ég tek undir að huga þarf að öðrum þáttum, eins og hvort einhverjir sækist eftir heimildum, eingöngu til þess að hagnast á þeim með sölu, en ekki nýta þær til verðmætasköpunar. Ég er mjög tilbúinn í umræðu um hvernig við getum komið í veg fyrir slíkt.
Sigurður Ingi Jóhannsson