Ég er stoltur og ánægður með ársreikning Hafnarfjarðar árið 2018. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins hélt áfram að styrkjast á árinu og skuldaviðmið sem var 135% í árslok 2017 er 112% í árslok 2018, eða undir skuldaviðmiðum samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.
Allar lykiltölur sem skipta mestu máli eru jákvæðar. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og vexti er 3,9 milljarðar á móti 3,5 milljörðum í áætlun og 3,6 milljörðum frá fyrra ári. Þetta eru bæði A og B hluti, eða allt sveitarfélagið. Með öðrum orðum, við erum betur sett til að borga ennþá meira niður skuldir í framtíðinni og láta fólkið í sveitarfélaginu njóta góðs af.
Fjárfestingar í innviðum og þjónustu
Miklar fjárfestingar voru í innviðum og þjónustu á liðnu ári og námu fjárfestingar um 5,3 milljörðum. Þar ber helst að nefna byggingu nýs skóla í Skarðshlíð fyrir um 2,1 milljarð og hjúkrunarheimilis fyrir 850 milljónir. Kostnaður við framkvæmdir vegna íþróttamannvirkja að Ásvöllum, Kaplakrika og við Keili námu alls um 696 milljónum. Keyptar voru íbúðir í félagslega húsnæðiskerfið fyrir um 500 milljónir.
Hafa ber í huga þegar rætt er um kaup á félagslegu húsnæði að sveitarfélagið situr uppi með fortíðarvanda í þeim málaflokki sem nú er loks verið að taka á; vanda sem ekki var tekið á þegar þess þurfti. Þrátt fyrir að félagslegu húsnæði í Hafnarfirði hafi fjölgað mikið undanfarið, blasir sú dapurlega staðreynd við okkur að á árunum 2009-2016 var ekki fjárfest í félagslega húsnæðiskerfinu í Hafnarfirði. Sami fjöldi íbúða var árið 2008 og árið 2016. Vandinn er því uppsafnaður og á þeim vanda bera þeir einir ábyrgð sem á þeim tíma stjórnuðu.
Ný lán
Í umræðunni hefur því verið haldið á lofti að skuldir sveitarfélagsins séu að aukast og verið sé að taka ný lán sem eru umfram afborganir ársins. Það er vissulega rétt að tekin voru ný lán á árinu vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð, sem eru um 2 milljarðar og um 1,4 milljarður vegna byggingar hjúkrunarheimilis. Auk þess var tekið lán fyrir 500 milljónir vegna fjárfestinga Húsnæðisskrifstofu í félagslegu húsnæði. Greiðslur langtímaskulda námu alls 1,6 milljarði eða um 200 milljónum umfram afborganir samkvæmt lánasamningum.
Ég hef trú á því að hægt verði að gera enn betur á kjörtímabilinu, þegar kemur að niðurgreiðslu skulda. Það er sú leið sem er heillavænlegust fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 12. maí 2019.