Categories
Greinar

Horfum á heildarmyndina

Deila grein

08/04/2014

Horfum á heildarmyndina

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefMikilvægt er að horfa á heildarmyndina þegar rætt er um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar. Þau frumvörp sem eru til umræðu í þinginu þessa dagana og taka til verðtryggðra húsnæðisskulda heimilanna, eru eingöngu einn liður af tíu úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Umfang skuldaleiðréttinganna eru 150 milljarðar og nær til um 100 þúsund heimila. Ánægjulegt er að um sé að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Vissulega hefði það verið mjög jákvætt ef hægt hefði verið að hafa þakið hærra, fyrir þann hóp, sem varð hvað einna mest fyrir forsendubrestinum vegna efnahagshrunsins. En í því samhengi er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina í þeirri vinnu er snýr að skuldavanda heimilanna.

Í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála er unnið að mörgum mikilvægum þáttum er snerta íslensk heimili og framtíð þeirra. Þar má nefna vinnu að húsnæðislánakerfi til framtíðar og lyklafrumvarpið. Einnig er unnið með verðtrygginguna og þar eru bæði meirihlutaálit verðtryggingarhópsins og séráliti Vilhjálms Birgissonar höfð til hliðsjónar. Mikilvægt er að verðtryggingin verði afnumin um leið og skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.

Einnig mun verkefnastjórnin skila af sér hugmyndum hvernig komið verði á öruggum leigumarkaði hér á landi. Þannig að þeir sem hér búa geti haft raunhæft val um séreign eða leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess hvernig mögulegt verði að lækka leigukostnað og tillögur stjórnarinnar hljóma upp á allt að 20 % lækkun í þeim efnum. Auk þessa er unnið félagslegu húsnæðiskerfi með það að markmiði að allir geti haft öruggt þak yfir höfuðið.

Verkefnastjórnin mun skila af sér tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í lok þessa mánaðar.

Í desember síðast liðnum, lagði innanríkisráðherra fram frumvarp, um að fresta nauðungasölum fram í september 2014. Nær frestunin til íbúðarhúsnæðis með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Frumvarpið var samþykkt.

Í janúar síðast liðnum samþykktu þingmenn frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á vef embættis umboðsmanns skuldara. Umsóknarferlið er skilvirkt og áætlað er að ferlið taki um tvær vikur frá því öll gögn berast vegna málsins.
Í lok mars lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram tvö frumvörp og þau eru heimilunum í hag. Annað þeirra varðar húsaleigubætur til þeirra sem misst hafa eignir sínar á uppboði og leigja þær nú til búsetu. Þessi hópur hefur, hingað til ekki átt rétt á húsaleigubótum og hefur það verið miður. Því ber að fagna að bæta skuli réttindi þeirra. Hitt varðar embætti umboðsmanns skuldara og heimild hans til að sekta fjármálastofnanir, ef þær draga eða neita að afhenda embætti hans þær upplýsingar, sem á þarf að halda til að vinna að málefnum þeirra sem til hans leita. Samkvæmt frumvarpinu getur sektargreiðsla numið allt frá 10 þúsund krónum – 1 milljón á dag, líkt og dagsektir samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Hér hefur verið skrifað um aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfsstæðisflokksins, í þágu heimilanna. Umræðan um að ekkert sé verið að gera fyrir heimilin er ósanngjörn. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 8. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.