Categories
Greinar

Hringtenging raforku – fjármagn til undirbúnings

Deila grein

12/01/2016

Hringtenging raforku – fjármagn til undirbúnings

ásmundurÞeim fer fjölgandi sem átta sig á því að sjaldan hefur virkjun Hvalár verið jafn nálægt því að verða að veruleika. Það yrði mikil lyftistöng fyrir Vestfirði í heild ef rétt er á málum haldið. Gagnvart framkvæmdinni sjálfri þá er mikilvægt að stytta flutningsleiðina á raforkunni en það væri t.d. hægt að gera með skilgreiningu á nýjum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi. Það er ekki síður mikilvægt að samhliða þessu verði gert ráð fyrir hringtengingu raforku á Vestfjörðum.

Það eru fá mál sem skipta Vestfirði jafn mikil máli til framtíðar, hef ég fylgst vel með framvindu og reynt að þrýsta á framgang þess. Undirritaður tók þetta mál sérstaklega upp við iðnaðarráðherra í umræðu um Fjárlög 2016. Þar staðfesti iðnaðarráðherra að hún væri mjög jákvæð fyrir framgangi málsins. Það þyrfti að styrkja raforkukerfið og Vestfirðir yrðu þar að vera í sérstökum forgangi.

Fjárlög 2016 – 15 milljónir til undirbúnings

Af hálfu sveitarfélaga á Vestfjörðum var lögð áhersla á það við vinnslu fjárlaga að fjármagn fengist svo hægt væri að vinna áfram að undirbúningi málsins. Í umsögn Fjórðungssambands Vestfjarða um fjárlagafrumvarp er m.a. bent á að Hvalárvirkjun og aðrar nálægar minni virkjanir muni skila 85-100 MW af uppsettu afli. Auk þess kom fram í máli forystumanna Fjórðungssambandsins að þegar væru fyrirtæki byrjuð að sína því áhuga að ráðast í atvinnuuppbyggingu ef trygg raforka væri fyrir hendi. Í ljósi mikilvægi málsins var ánægjulegt að fulltrúar meirihlutans í fjárlaganefnd væru tilbúnir til að setja 15 m.kr. til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða vegna verkefna sem lúta að hringtengingu raforku á Vestfjörðum en sérstaklega var óskað eftir framlagi til að vinna áfram að málinu.

Ljósleiðari og trygg raforka eru forgangsmál

Uppbygging á innviðum er grunnforsenda fyrir atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur unnið að því að skipuleggja ljósleiðaravæðingu alls landsins. Fjárlaganefnd ákvað síðan á síðasta ári að setja inn fjármagn sem ætlað var í hringtenginu ljósleiðara (m.a. á Vestfjörðum) og frekari undirbúning ljósleiðaravæðingar. Í fjárlögum 2016 var aukið við fjármagn í ljósleiðaraverkefnið en með þessum fjárveitingum þá tók fjárlaganefnd forystu í þessu mikilvæga verkefni.

Það er ánægjulegt að fjárlaganefnd taki einnig forystu þegar kemur að hringtengingu raforku og setji inni fjármagn sem er bæði mikilvægt til undirbúnings auk þess að vera táknræn yfirlýsing um pólitískan stuðning við áframhaldandi vinnu bæði hvað varðar virkjun Hvalár og hringtengingu raforku á Vestfjörðum. Hinsvegar þarf áfram að þrýsta á þetta mál og þar skiptir miklu máli að kraftmikil rödd heimamanna heyrist. Um leið og ég fagna því að þetta mál er komið af stað þá hvet ég heimamenn til að láta sig málið varða og þrýsta á framgang þess.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á www.bb.is 11. janúar 2016.