Categories
Greinar

Hugarfar framtíðarinnar

Deila grein

09/12/2019

Hugarfar framtíðarinnar

Í fram­haldi af niður­stöðum alþjóðlegra könn­un­ar­prófa Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. PISA) sem kynnt­ar voru í vik­unni hef ég kynnt aðgerðir sem miða að því að efla mennta­kerfið, ekki síst með auk­inni áherslu á námsorðaforða og starfsþróun kenn­ara. Þær aðgerðir verða út­færðar í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, sveit­ar­fé­lög­in og heim­il­in í land­inu. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni okk­ar allra að bæta læsi en það verk­efni snýr að tungu­máli okk­ar og menn­ingu.

Mennt­a­rann­sókn­ir sýna að ár­ang­ur í próf­um eins og PISA ræðst fyrst og fremst af færni nem­enda í rök­hugs­un og hæfi­leik­an­um til að nýta sér þekk­ingu sína til að meta og túlka texta. Góður málskiln­ing­ur og orðaforði er for­senda þess að nem­end­ur geti til­einkað sér þann hæfi­leika. Rann­sókn­ir benda til þess að orðaforði og orðskiln­ing­ur ís­lenskra barna hafi minnkað á und­an­förn­um árum og því verðum við að mæta. Niður­stöður PISA-próf­anna segja okk­ur að við get­um gert bet­ur. Ég trúi því að við get­um það með góðri sam­vinnu, eft­ir­fylgni og aðgerðum sem skilað hafa ár­angri í ná­granna­lönd­um okk­ar.

PISA-próf­in mæla fleira en lesskiln­ing og stærðfræði- og nátt­úru­læsi. Auk skýrslu með niður­stöðum próf­anna birt­ir Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­in (e. OECD) fleiri gögn sem varpa ljósi á stöðu mennta­kerf­is­ins út frá viðhorf­um, líðan og fé­lags­legri stöðu nem­enda og eru þær niður­stöður ekki síður fróðleg­ar. Sú töl­fræði bend­ir meðal ann­ars til þess að færri ís­lensk­ir nem­end­ur búi við einelti en nem­end­ur gera að meðaltali í sam­an­b­urðarlönd­um OECD og að hærra hlut­fall þeirra sé ánægt með líf sitt. Þá sýna þær niður­stöður að 73% ís­lensku nem­end­anna sem svöruðu PISA-könn­un­inni sl. vor séu með vaxt­ar­viðhorf (e. growth mind­set), það er að þau trúa því að með vinnu­semi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum geti þau þróað hæfni sína og getu. Þetta hlut­fall er tíu pró­sentu­stig­um hærra hér á landi en meðaltal í OECD-ríkj­un­um. Niður­stöður PISA sýna að slík­ir nem­end­ur hafa sterk­ari hvöt til þess að ná góðum tök­um á verk­efn­um, meiri trú á getu sinni, setji sér metnaðarfyllri mark­mið, leggi meira upp úr mik­il­vægi mennt­un­ar og séu lík­legri til þess að klára há­skóla­nám.

Þetta vaxt­ar­hug­ar­far er afar dýr­mætt því rann­sókn­ir sýna að viðhorf til eig­in getu og vits­muna ræður miklu um ár­ang­ur. Þeir nem­end­ur sem telja að hæfi­leik­ar þeirra og hæfni sé föst stærð eru þannig lík­legri til þess að gef­ast upp á flókn­ari verk­efn­um og vilja forðast erfiðleika og áskor­an­ir. Ég kalla þetta hug­ar­far framtíðar­inn­ar. Okk­ar bíða sann­ar­lega spenn­andi verk­efni og mörg þeirra flók­in. Árang­ur­inn mun ráðast af viðhorfi okk­ar og trú. Setj­um markið hátt og vinn­um að því sam­an.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2019.