Categories
Greinar

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Deila grein

10/12/2019

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast ekki breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Sveitarstjórnar fólk má ekki vera ákvarðanafælið og óttast að styggja þá sem vilja toga í tauminn þegar framtíðin eru rædd. Til að hægt sé að taka ábyrgar ákvarðanir inn í framtíðina þarf langtímasýn að liggja fyrir.

Í þeirri framkvæmdaáætlun sem nú liggur fyrir til afgreiðslu með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til næstu 4 ára er gert ráð fyrir 550 milljónum í skólahúsnæði og er það viðbót við milljarð sem þegar hefur verið framkvæmt fyrir síðust 2-3 ár. Þrátt fyrir það liggur enginn áætlun fyrir hjá meirihluta sveitarstjórnar um framtíðarskipulag skólamála í sveitarfélaginu. Nú liggur fyrir mat hönnuða um að húsnæði Grunnskólans á Kleppjárnsreykjum sé það illa farið að hagkvæmast sé að rífa það og byggja nýtt skólahúsnæði. En áætlanir hafa legið uppi síðust ár um að fara í nauðsynlegar endurbætur á grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum. Kostnaðaráætlanir síðustu tveggja ára í framkvæmdaáætlun hafa farið langt fram úr öllu áætlunum, skortur er á aðhaldi og yfirsýn og útlit fyrir að sveitarfélagið sé komið langleiðina með efni í nýtt „Braggamál“ hér í Borgarbyggð.

Enginn áætlun eða framtíðarsýn hefur verið lögð fram af meirihluta sveitarstjórnar um nýtingu eigna sveitarfélagsins. En næstum allar eignir sveitarfélagsins hafa verið í mikilli viðhaldsþörf síðust ár.  Mikill tími, fjármagn og orka hefur farið í það síðustu ár að stofna vinnuhópa sem hafa skilað af sér ágætum skýrslum um nýtingu húsnæðis í eigu sveitarfélagsins og eru hópar starfandi í dag í tengslum við skipulag leikskólamála og framtíðarskipulag íþróttahússins í Borgarnesi. Ljóst er að núverandi meirihluta skortir sameiginlega sýn á framtíðina og því dettur botninn sífellt úr umræðunni þegar kemur að þeim hluta að taka ákvarðanir. Þrátt fyrir að íbúar hafi haft aðkomu að öllum vinnuhópum og skýrslum síðustu ár hefur það engu breytt um ákvarðanatökufælni meirihlutans.

Sveitarstjórnar fulltrúar meirihlutans forðast allar umræður sem krefjast niðurstöðu um langtímasýn þar sem ljóst er að þverpólitískt samkomulag næst ekki um málefni er snerta hagsmuni sveitarfélagsins til framtíðar. Þau hafa nýtt tímann vel frá síðustu kosningu til að þakka sjálfum sér fyrir jákvæða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, sem helgast eingöngu af jákvæðum hagrænum áhrifum sem auknar útsvarstekjur og aukið framlag úr jöfnunarsjóði hafa haft síðustu ár, ásamt því að klappa sér á bakið fyrir þau verkefni sem var unnið að á síðasta kjörtímabili eins og undirbúning að byggingu skólahúsnæðis Grunnskóla Borgarnes, nýtt deiliskipulag og ljósleiðaraverkefnið svo eitthvað sé nefnt.  Ég óttast að ekkert af þeim fjölmörgu málum sem legið hafa í loftinu ókláruð síðustu ár verði afgreidd á þessu kjörtímabili, tækifæri til uppbyggingar verði ekki nýtt og engar ákvarðanir teknar sem koma okkur á braut vaxtar fyrir sveitarfélagið. Meirihlutanum hefur ekki enn þá tekist að fanga nema lítið brot af þeim ágætu málum sem þau settu fram í málefnasamning sínum árið 2018. Á meðan engin sýn er til staðar og engin geta og eldmóður til þess að leiða verkefni áfram og klára dæmið munum við fylgjast með tekjum sveitarfélagsins ausið stefnulaust.

Við fulltrúar framsóknarflokksins í sveitarstjórn erum orðin langþreytt á að sitja fundi þar sem mikið er talað vilja til móta stefnu um hin ýmsu mál en ekkert gerist. Fyrirtækjum er ekki að fjölga, engin áform um uppbyggingu leiguhúsnæðis og engar framkvæmdir í gangi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir alþingi um styrkingu sveitarstjórnarstigsins kalla enn fremur á það að sýn sveitarstjórnarfulltrúa sé skýr á heildarhagsmuni. Tillögur sveitarstjórnarráðherra fela í sér tækifæri til styrkingar á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga ásamt því að hafa jákvæð áhrif á styrk sveitarfélaganna til að takast á við þróun og eflingu á hverju svæði. Við sveitarstjórnarmenn þurfum einnig að móta okkur sýn í tengslum við þær tillögur sem liggja fyrir í samráði við íbúa.

Við getum sem sveitarfélag hvar sem landfræðileg mörk okkar munu liggja á næstu árum  verið í fremstu röð. Mikilvægt er að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til að hagræða og framsýni sé viðhöfð í takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Það er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Verum ábyrg, á tánum, full af eldmóði og óhrædd við það að vera framsækin.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.