Categories
Fréttir

Forvarnagildi íþrótta, tómstunda eða æskulýðsstarfs óumdeilt

Deila grein

11/12/2019

Forvarnagildi íþrótta, tómstunda eða æskulýðsstarfs óumdeilt

„Það er óumdeilt að skipulagt starf barna og unglinga, hvort sem við erum að tala um íþróttir, tómstundir eða æskulýðsstarf, hefur gífurlega mikið forvarnagildi, bæði hvað varðar hinn líkamlega þátt en þó ekki síður andlega og félagslega þætti,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.

„Rannsóknir í þessum efnum sýna að umgjörðin skiptir miklu máli, að umgjörðin byggi jafnvel á föstum grunni. Þá er ég ekki einvörðungu að tala um mannvirki heldur að umgjörðin hafi verið til staðar í einhvern tíma þar sem eru reglur og hefðir, faglegar kröfur, metnaður og agi og utanumhald sem tryggja enn frekar faglega nálgun og styrkja þá tilfinningu þátttakenda að tilheyra skipulögðum hópi.“

„Hér á landi er reyndar einstakt starf unnið í skipulögðu starfi barna og unglinga í íþróttum og á fleiri sviðum. Framboðið er mikið og þátttaka foreldra er alltaf að verða meiri. Okkur hefur tekist vel til þar en við getum gert betur í að styðja við allt það sjálfboðaliðastarf sem að þessu stendur. Við vitum jafnframt að forvarnir snúa að fleiri þáttum, virðulegi forseti, og lýðheilsutengdar forvarnir spyrja heldur ekki um aldur. Þá erum við að tala um almenna heilsu og forvarnir gegn lífsstílstengdum sjúkdómum.
Því hef ég lagt fram á þessu þingi tillögu sem snýr að þjóðarátaki í lýðheilsutengdum forvörnum,“ sagði Willum Þór.