Síðastliðið vor var samþykkt breyting á lögum og þingsályktun er varðar innflutning á hráu kjöti og matvælum. Í henni var samþykktur rammi sem á að sjá til þess að ekki verði flutt inn kjöt og landbúnaðarafurðir til landsins sem ekki standast sömu kröfur og hér á landi. Samhliða hélt ríkisstjórnin blaðamannafund þar sem tilkynnt var að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til þess að banna dreifingu á vörum á markaði sem innihalda ákveðnar tegundir sýklalyfjaónæmra baktería.
Samþykkt þessi er mikilvæg, ekki bara bændum og framleiðendum hér á landi vegna sérstöðu búfjárstofna og sjúkdómastöðu heldur ekki síður fyrir neytendur.
Neytendur hafa kallað eftir því að vörur á markaði séu framleiddar við skilyrði sem innifela góða meðferð búfjár, hreinleika afurða og varan innihaldi ekki bakteríur eða veirur sem geta valdið sjúkdómum í fólki og dýrum.
Neytendur eiga rétt á því að íslenskur markaður verði verndaður fyrir sérhagsmunum heildsala og verslunarinnar þegar kemur að þessum þáttum.
Bann og bakteríur
Ljóst var að vinna við fullgildingu lagabreytinganna og aðgerða í þingsályktun myndi taka tíma enda taka lögin ekki gildi fyrr en um áramót. Þeirri vinnu stýrir ráðherra landbúnaðarmála. Hefur undirritaður fulla trú á því að hann klári málið með stæl. Hins vegar hefur lítið heyrst af málinu síðan í vor. Því spyr undirritaður hér: Hvað er að frétta af þessu máli, hæstvirtur landbúnaðarráðherra? Hvernig miðar vinnu við undirbúning banns við innflutningi á vörum sem innihalda ákveðnar tegundir sýklalyfjaónæmra baktería? Þessir hlutir þurfa að vera á hreinu á réttum tíma til að vernda íslenska hagsmuni.
Samstarf um sátt
Þær breytingar sem gerðar voru á málinu í meðförum þingsins frá því að málið kom frá ráðherra voru til þess fallnar að mynda sátt milli bænda, neytenda og ríkisvaldsins í þessu erfiða máli.
Mikilvægt er að vinna málið áfram í sátt við bændur og neytendur til þess að fullnusta samþykkt þingsins.
Sáttin þarf að ná alla leið á eldhúsborð neytenda og standa þarf við allt það sem samþykkt var í téðri þingsályktun og lagabreytingu.
Mun undirritaður ekki liggja á liði sínu í þeirri baráttu landi og þjóð til heilla.
Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. september 2019.