Íslendingar elska íslenskt sjónvarpsefni! Allt frá því að Hrafn Gunnlaugsson, Egill Eðvarðsson og Björn G. Björnsson færðu þjóðinni fyrstu alíslensku þáttaröðina árið 1977 – Undir sama þaki – og fram á þennan dag, safnast kynslóðirnar saman við sjónvarpsskjáinn til að upplifa eitthvað alveg sérstakt. Tækniþróun og erlendar streymisveitur hafa skapað fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt þáttagerðarfólk, bæði til fjármögnunar og dreifingar. Íslenskt efni nýtur vinsælda víða um heim, nú síðast Brot, sem framleitt var í samstarfi við Netflix og var um tíma efst á áhorfslistum streymisveitunnar. Þrátt fyrir vinsældirnar hefur fjármögnun á íslenskum sjónvarpsþáttum gjarnan verið þung. Kvikmyndasjóður hefur haft takmarkaða burði til að uppfylla þarfirnar, enda umsóknir í sjóðinn langt umfram stærð hans og kvikmyndir í fullri lengd fjárfrekar.
Til að mæta þessari brýnu þörf verður settur á laggirnar sérstakur fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og er tilurð hans hluti af heildstæðri kvikmyndastefnu fyrir Ísland, sem kynnt var í gær. Sjóðurinn verður rekinn að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og er ætlað að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í allt að þremur þáttaröðum á ári fyrst um sinn, en í náinni framtíð gæti framleiðslugeta orðið allt að tíu til tólf þáttaraðir á ári.
Sú ríka þörf Íslendinga um aldir að segja sögur hefur orðið kveikjan að hundruðum kvikmyndaverka sem mörg eiga stóran sess í hjörtum okkar. Fyrir elju, einurð og sterka sýn þeirra sem starfað hafa að kvikmyndagerð er nú í mótun burðug list- og atvinnugrein sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Velta greinarinnar hefur þrefaldast á áratug og skapað þúsundir starfa. Þá fjölbreyttu flóru þarf að vökva, svo hún blómstri um ókomna tíð, tryggja greininni bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna. Með kvikmyndastefnu til ársins 2030 er vörðuð raunsæ en metnaðarfull braut inn í framtíðina.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greini birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. október 2020.