Categories
Greinar

Hverjir fá?

Deila grein

19/11/2014

Hverjir fá?

willum-þorunn-þorsteinnFjölmörg heimili fá nú leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum sínum. Markmiðið er að skila til baka því „tjóni“ sem heimilin urðu fyrir og færa lánin í þá stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu þeirra í uppnám á árunum 2008 og 2009. Einungis 10% íslenskra heimila nutu 110% leiðar fyrri ríkisstjórnar eða um sjö þúsund heimili og 1% þeirra fékk helminginn af niðurfærslunni. Þau heimili sem voru með gengistryggð lán fengu leiðréttingu í gegnum dómstóla en heimili með verðtryggð húsnæðislán sátu eftir.

Hversu margir fá?
Niðurstaðan nú er sú að yfir 90.000 manns fá leiðréttingu og enn getur bæst í hópinn. Ef við tökum með þá sem nýta sér að auki séreignarsparnaðarleiðina njóta yfir 120.000 einstaklingar aðgerðanna og geta náð allt að 20% leiðréttingu eða því sem nemur allri óvæntri verðbólgu á umræddu tímabili umfram 4%, sem eru eftir vikmörk Seðlabankans.

Hvert fer leiðréttingin?
Meðaltal leiðréttingar á umsækjanda er 1.350 þúsund krónur og tíðasta gildi leiðréttingar til hjóna er 1.400 þúsund krónur og 800 þúsund krónur fara til einstaklinga. Meirihluti leiðréttingarinnar fer sannarlega til fólks sem hefur meðaltekjur eða þaðan af minna. Einstaklingur með 330 þúsund í mánaðartekjur er tíðasta gildi leiðréttingarinnar. Til samanburðar er vert að geta þess að meðal heildarlaun á íslenskum vinnumarkaði árið 2013 voru 526.000 krónur. Rúmlega helmingur leiðréttingarinnar rennur til einstaklinga sem eiga minna en fjórar milljónir króna í eigið fé og heimila sem eiga minna en 13 milljónir króna í eigið fé. Einstaklingar sem skulda minna er 15 milljónir króna og heimili sem skulda minna en 30 milljónir króna fá 70% af fjárhæð leiðréttingarinnar

Áhrif leiðréttingarinnar?
Tökum dæmi af heimili sem tekur 15 milljóna króna lán til 40 ára á 4,15% vöxtum og meðalverðbólgan á tímabilinu er 6%. Fjölskyldan mun þurfa að greiða 22 milljónum króna minna þegar upp er staðið. Þessir peningar fara ekki til bankanna heldur nýtast fjölskyldunni beint í daglegu lífi. Ráðstöfunartekjur heimilanna aukast og viðnámsþróttur þeirra eykst. Minni skuldsetning heimila eflir allt hagkerfið.

Willum Þór Þórsson, Þórunn Egilsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.