Það er í fyrsta lagi réttlætismál. Við viljum væntanlega flest öll að að mæður okkar, konur, systur og dætur hafi sömu möguleika og karlar. En ekki nóg með það, við viljum einnig nýta allra krafta og eins og oft hefur verið sagt áður þá er jafnréttisbaráttan ekkert einkamál kvenna, langt í frá.
Nú um stundir er mikið rætt um Jafnlaunavottun og þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Árið 2005 var haldið málþing á vegum jafnréttisráðs en Jafnréttisþing sem nú er haldið annað hvert ár hefur leyst það að hólmi. Þá, árið 2005, var farið að fjalla um nauðsyn þess að innleiða kerfi eða staðal og unnið var með módel frá Staðlaráði. Í ræðu sem þáverandi Velferðarráðherra, Árni Magnússon hélt sagði hann kynbundinn launamun ekki vera náttúrulögmál og hann sagði ennfremur að æskilegast væri að innleiða gæðavottunarkerfi til þess að ná fram markmiðum, eða til þess að eyða kynbundnum launamun. Hann rökstuddi mál sitt með því að nefna umhverfisvottun sem hafði virkað vel og þannig yrði árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til aðgerða. Ráðherra benti einnig á að þá þegar var hafin í félagsmálaráðuneytinu vinna við útfærslu íslensks jafnlaunavottunarkerfis og að unnið hafi verið að því nánu samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu sem og fulltrúa vinnuveitenda og launafólks.
Allar götur síðan hefur farið fram markviss vinna í átt að því að innleiða Jafnlaunastaðalinn, hugsa allar leiðir til þess að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka skrefin til enda. Árið er 2017 og jöfn laun fyrir sömu vinnu er jafn sjálfsögð krafa og hún var árið 2005 þegar fyrstu hugmyndir ráðherra Framsóknar um jafnlaunavottun komu fram. En það er ekki sama hvernig verkið er unnið, allir þurfa að vanda sig, réttu hvatarnir þurfa að vera til staðar þannig að við þurfum ekki að bíða áfram í 12 ár til þess að sjá þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Til hamingju með daginn – öll sem eitt.
Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður LFK, og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, varaformaður LFK.