Í áratugi hefur kvikmyndarisinn Disney skemmt heimsbyggðinni með ævintýrum og sögum. Söguþráðurinn er oft svipaður í grunninn – aðalsöguhetjan lendir í ógöngum, berst við ill öfl, en hefur betur að lokum. Flest eigum við minningar af kvikmyndaupplifun með fjölskyldum okkar, þar sem við hlæjum eða grátum yfir dramatíkinni á hvíta tjaldinu. Lykillinn að þeirri upplifun er sameiginlegur skilningur þeirra sem horfa – barna og fullorðinna.
Íslendingar áttuðu sig á þessu fyrir löngu og hafa lagt ótrúlegan metnað í talsetningar og þýðingar. Okkar frábæra fagfólk, bæði tækni- og listamenn, hefur skilað vinnu á heimsmælikvarða frá því fyrsta Disney-myndin í fullri lengd var hljóðsett árið 1993. Felix í hlutverki Aladdíns, Laddi í hlutverki andans og Edda Heiðrún sem prinsessan Jasmín eru ógleymanleg og gáfu tóninn fyrir það sem skyldi koma. Allar götur síðan hafa Disney-myndir verið talsettar og þannig hafa textar og hljóðrásir orðið til. Þess vegna er einkennilegt að fyrirtækið skuli ekki bjóða upp á íslenska texta og tal á streymisveitunni Disney+.
Í vikunni sendi ég forstjóra Disney bréf og hvatti fyrirtækið til að nota það frábæra efni sem þegar er til. Það er bæði sanngjörn og eðlileg krafa, enda er fátt þjóðinni kærara en íslenskan, og það er skylda stjórnvalda að styðja við og efla þennan hluta fjölmiðlunar. Raunar hvílir sú lagaskylda á íslenskum sjónvarpsstöðvum að texta erlent efni, en lögin ná ekki yfir streymisveiturnar sem falla milli skips og bryggju.
Brýnt er að bregðast við þeirri stöðu, svo skarðið í varnarvegg íslenskunnar stækki ekki á komandi árum. Íslenskan á að vera hluti af allri streymisþjónustu hérlendis, auk þess sem samkeppnisstaða íslenskra fjölmiðla skekkist ef þeir erlendu komast fram hjá lögum. Hana geta stjórnvöld rétt með texta- og talsetningarsjóði, sem ég vil að verði að veruleika, auk þess sem tækniframfarir gefa góð fyrirheit um að sjálfvirk textun á sjónvarpsefni verði að veruleika áður en langt um líður.
Í því samhengi er gaman að nefna framgang máltækniáætlunar stjórnvalda, sem miðar að því að gera íslenskuna gjaldgenga í tæknivæddum heimi. Nú hafa rúmlega 1,1 milljón setningar á íslensku safnast inn í raddgagnasafnið Samróm, sem verður notað til að þjálfa máltæknihugbúnað og radd-smáforritið Embla er þegar komið út í prufuútgáfu. Með því getum við talað íslensku við snjalltækin okkar, spurt þau í töluðu máli um fréttir dagsins, áætlunartíma strætó, afgreiðslutíma sundlauga og fleira.
Enn er margt óunnið í baráttu okkar fyrir viðgangi og vexti íslenskunnar. Það er mikilvægt að vera stöðugt á verði og taka aðalsöguhetjur teiknimyndanna til fyrirmyndar. Þegar á móti blæs tökum við vindinn í fangið og sigrum!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021.