Rafíþróttir og framgangur þeirra hér á landi hefur mér hjartans mál um langt skeið og í dag mun ég mæla fyrir tillögu okkar í Framsókn um stofnun stýrihóps sem mun hafa það markmið að marka stefnu borgarinnar varðandi rafíþróttir og iðkun þeirra.
Rafíþróttahreyfingin hefur það að markmiði líkt og aðrar íþróttahreyfingar að stuðla að betri heilsu og bættri andlegri líðan barna, sem ég veit fyrir víst að skiptir alla Íslendinga máli. Með þetta að leiðarljósi hafa rafíþróttafélög hér á landi náð að laða til sín um 3.500 iðkendur á grunnskólaaldri.
Félög sem starfrækja rafíþróttadeildir núna í Reykjavík eru Fylkir og Ármann. KR starfrækti hér deild í stuttan tíma en hún varð frá að hverfa vegna fjármagnsleysis og er mikil eftirsjá að henni.
Umhverfi rafíþrótta er að mörgu leyti erfitt hér á landi. Starfsemi rafíþróttafélaga hefur mætt skilningsleysi hjá forsvarsmönnum ÍSÍ og hefur Reykjavíkurborg ekki enn markað sér stefnu um rafíþróttir og iðkun þeirra meðal barna og unglinga, þrátt fyrir að ÍBR hafi samþykkt að rafíþróttir tilheyri sínu sviði og komið því þannig fyrir að keppt er í rafíþróttum á Reykjavíkurleikunum.
Þessu þarf að breyta og því vill Framsókn að Reykjavíkurborg taki þetta mál föstum tökum og marki sér stefnu í rafíþróttum og iðkun þeirra.
Rökin fyrir því að borgin taki upp sérstaka stefnu í þessum málaflokki eru einföld. Með skýrri stefnu um rafíþróttir fyrir börn væri stuðlað að því að virkja fjölda af krökkum sem eru ekki í neinu skipulögðu íþróttastarfi eða hafa sýnt lítinn áhuga á slíku.
Frá stofnun Rafíþróttasambands Íslands (RÍSI) hefur Framsókn stutt dyggilega við uppbyggingu skipulagðrar starfssemi rafíþrótta. Ég tel nauðsynlegt að halda þeirri vegferð áfram og tryggja að við náum til stærri hóps krakka með fjölbreyttari nálgun í íþrótta- og tómstundamálum.
Frábær undirbúningur fyrir framtíðina
Í ungdómi Íslands er framtíð landsins falin og því er það mikilvægt málefni stjórnmálanna að styðja við þroska og hæfileikaræktun ungmenna. Fjórða iðnbyltingin er hafin og meirihluti þeirra starfa sem nú eru til verður horfinn eftir nokkra áratugi. Störf framtíðarinnar munu snúast um tölvutækni og því er afar mikilvægt að börn og unglingar séu hagvön að nýta sér hana. Ein vinsælasta dægradvöl íslenskra krakka og unglinga er að spila tölvuspil og geta slík spil bæði gefið þeim tækifæri til að kynnast tölvutækni þannig að það nýtist þeim á hinum ýmsum sviðum. Iðkun rafíþrótta getur kennt börnum okkar að spila tölvuleiki með ábyrgum hætti, en eins og ég kom inn á hér að ofan að er markmið rafíþróttahreyfingarinnar eins og skilgreint er af Rafíþróttasambandi Íslands (RÍSÍ) að stuðla að líkamlegri hreyfingu af ýmsu tagi og þjálfun í taktískri hugsun og áherslu á andlegan undirbúning og hollt matræði.
Það hljómar fyrir mér eins og frábær undirbúningur fyrir framtíðina.
Við stöndum frammi fyrir því verkefni að mennta okkar unga fólk þannig að það og Ísland verði samkeppnishæft inn í næstu 100 árin og geta rafíþróttir gegnt mikilvægu hlutverki í því sambandi.
Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.